Sumri og sól fylgja ný tækifæri til hreyfingar og útiveru. Fólk kemur skíðum og skautum fyrir á sínum stað í geymslunni en dregur þess í stað fram hjólabretti, reiðhjól og önnur tæki sem henta árstíðinni.

Sumri og sól fylgja ný tækifæri til hreyfingar og útiveru. Fólk kemur skíðum og skautum fyrir á sínum stað í geymslunni en dregur þess í stað fram hjólabretti, reiðhjól og önnur tæki sem henta árstíðinni. Aðrir reima á sig gönguskó og klífa fjöll eða ganga um nágrennið.

Áhuganum viðhaldið

Þó að margir fyllist auknum áhuga á útiveru og hreyfingu með hækkandi sól á sá áhugi til að dvína þegar líður á sumarið. Hægt er að viðhalda áhuganum með ýmsum leiðum. Þar skiptir mestu máli að hafa gaman af því sem maður er að gera.

Þeir sem hafa gaman af göngu- eða hjólaferðum ættu að varast að fara alltaf sömu leiðina heldur breyta til og uppgötva nýja og spennandi staði í nágrenninu.

Félagsskapur mikilvægur

Þá er upplagt að fá góða vini og félaga í lið með sér. Sá sem stundar hreyfingu einn er líklegri til að gefast upp á henni en sá sem stundar hana í góðra vina hópi.

Ef maður fær leið á einni íþrótt er um að gera að breyta til öðru hverju og prófa einhverja aðra.