Þjónusta Agata segir það hafa borgað sig fyrir SPRON að bjóða upp á ýmsa þjónustu fyrir Pólverja.
Þjónusta Agata segir það hafa borgað sig fyrir SPRON að bjóða upp á ýmsa þjónustu fyrir Pólverja. — Morgunblaðið/Frikki
Agata Maria Knasiak er viðskiptastjóri hjá SPRON með áherslu á pólskumælandi viðskiptavini bankans. Bjarni Ólafsson ræddi við Agötu, sem hefur verið hér á landi í fjögur ár. Segist hún afar ánægð á Íslandi og segir fjölskylduna komna til að vera.

AGATA Maria Knasiak er fædd og uppalin í Póllandi, þar sem hún lauk stúdentsprófi og útskrifaðist síðar úr ritaraskóla.

Fyrir fjórum árum ákvað hún ásamt eiginmanni sínum, Robert Knasiak, að flytja til Íslands og leita gæfunnar þar. „Það var engin sérstök ástæða fyrir því að Ísland varð fyrir valinu,“ segir Agata, en Robert fór á undan fjölskyldunni og bjó hér í sex mánuði áður en Agata og dóttir þeirra fylgdu í kjölfarið.

Agata vann við skrifstofuvinnu ýmiss konar hér á landi þar til hún var ráðin til SPRON í desember í fyrra, aðallega til að sinna pólskum viðskiptavinum bankans, en hún sinnir einnig íslenskum viðskiptavinum, enda talar hún ágæta íslensku.

„Starfið felst í almennri fjármálaráðgjöf fyrir einstaklinga, ráðgjöf um inn- og útlán og þess háttar. Áður en ég hóf hér störf höfðu komið til bankans þó nokkuð margar fyrirspurnir frá pólskumælandi viðskiptavinum um möguleika á slíkri þjónustu, en SPRON hefur nokkuð stóran hóp pólskra viðskiptavina.“

Að sögn Agötu hafa viðbrögðin verið afar góð, en auk þess að bjóða upp á fjármálaráðgjöf fyrir einstaklinga á pólsku hefur notendaviðmót heimabanka SPRON verið þýtt á pólsku og nýverið opnaði SPRON heimasíðu sína á pólsku, fyrstur íslenskra viðskiptabanka. Allt þetta er liður í að bæta þjónustu bankans við Pólverja, eins og gefur að skilja.

Laðar til sín nýja viðskiptavini

„Viðbrögð pólskra viðskiptavina hafa verið mjög góð, enda er mjög mikilvægt fyrir þá að geta rætt um fjármál sín á móðurmálinu. Við höfum meira að segja orðið vör við það, eftir að farið var að bjóða upp á þessa þjónustu, að pólskumælandi Íslendingar og pólskir innflytjendur flytji bankaviðskipti sín frá öðrum bönkum til SPRON, vegna þess að hér geta þeir fengið þjónustu á sínu móðurmáli.“

Pólverjar eru, eins og flestir vita, stærsti einstaki hópur innflytjenda hér á landi og því er það eðlilegt að fyrirtæki og bankar reyni að bæta þjónustu við þennan hóp og þar með laða til sín fleiri viðskiptavini. Á Íslandi búa nú um tíu þúsund Pólverjar og er því ljóst að fyrir banka eins og SPRON er mikilvægt að sinna þessum stóra hópi sem best.

Hvað varðar áhugamál segir Agata að lítið komist að annað en vinnan. „Það er tiltölulega stutt síðan ég hóf störf hérna og ég hef haft í nógu að snúast. Það má því segja að þessa dagana hafi ég vinnuna á heilanum.“ Við venjulegar aðstæður segist Agata hins vegar hafa mikla ánægju af skíðaiðkun, sundi og fjallgöngu, en fjölskyldan stundi þessar tómstundir í sameiningu.

„Við fórum nýlega til Austurríkis í skíðaferð og svo höfum við stundað Bláfjöll grimmt í vetur. Ég elska að skíða og þess vegna hefur veturinn nú verið frábær að þessu leyti. Í fyrra var aðeins hægt að skíða í nokkra daga, en í vetur hafa Bláfjöll verið opin dag eftir dag.“

Eiginmaður Agötu er, eins og áður segir, Robert Andrzej Knasiak, sem á og rekur pípulagningafyrirtæki ásamt tveimur Íslendingum og eiga þau eina dóttur, sem er níu ára gömul. Agata segir fjölskylduna afar ánægða hér á landi og að hún sé komin til að vera.

bjarni@mbl.is

Höf.: bjarni@mbl.is