— Morgunblaðið/Líney Sigurðardóttir
Eftir Líneyju Sigurðardóttur Þórshöfn | Ærin Silfurlín frá Syðri-Brekkum kom í hús um helgina ásamt tveimur lagðprúðum dætrum sínum eftir veturlanga útigöngu. Þær komu ekki fram í göngum sl.

Eftir Líneyju Sigurðardóttur

Þórshöfn | Ærin Silfurlín frá Syðri-Brekkum kom í hús um helgina ásamt tveimur lagðprúðum dætrum sínum eftir veturlanga útigöngu. Þær komu ekki fram í göngum sl. haust en eigendurnir héldu þó í vonina því seigla er í sauðfénu á Langanesi.

Um helgina voru menn á ferð úti á Langanesi og urðu varir við kindur rétt við eyðibýlið Læknesstaði og létu bændur vita. Þarna reyndist vera kominn kostagripurinn Silfurlín, átta vetra ær sem alltaf hefur verið þrílembd og hafði hennar verið sárt saknað. Henni hefur jafnan verið sleppt að vori með tvö lömb en það þriðja vanið undir aðra móður. Lömbin voru vel fram gengin, spikfeit í góðum haustholdum, sagði Úlfar Þórðarson, bóndi á Syðri-Brekkum. Líklegt er að þau hafi gengið undir móður sinni fram undir áramót því hún var heldur rýrari, þó alls ekkert illa á sig komin en nokkuð byrjuð að ganga úr reyfinu. Snjólétt er oftast útfrá og greinilega er kjarngóður gróðurinn milli steinanna á Langanesi.

Þetta vor mun ærin Silfurlín ekki bæta þremur lömbum í búið eins og áður, né heldur gimbrarnar hennar, því enginn hrútur hefur haldið sig á þeirra slóðum í vetur.