Gleði Keflvíkingar voru að vonum ánægðir eftir að hafa lagt ÍR-inga að velli á sannfærandi hátt í gærkvöld.
Gleði Keflvíkingar voru að vonum ánægðir eftir að hafa lagt ÍR-inga að velli á sannfærandi hátt í gærkvöld. — Ljósmynd/Víkurfréttir
„JÁ, það má segja að við höfum sloppið fyrir horn með þetta enda vorum við komnir 2:0 undir í rimmunni,“ sagði Sigurður Ingimundarson, kátur þjálfari Keflvíkinga eftir að liðið tryggði sér sæti í úrslitarimmunni við Snæfell í gær.

„JÁ, það má segja að við höfum sloppið fyrir horn með þetta enda vorum við komnir 2:0 undir í rimmunni,“ sagði Sigurður Ingimundarson, kátur þjálfari Keflvíkinga eftir að liðið tryggði sér sæti í úrslitarimmunni við Snæfell í gær. Þá lagði Keflavík ÍR 93:73 í oddaleik og sneri dæminu heldur betur við og er fyrst liða til að lenda 2:0 undir í rimmu en komast samt áfram. Keflvíkingar héldu líka í hefðina því lið af Suðurnesjum hefur alltaf verið í úrslitum síðan úrslitakeppnin hófst árið 1984.

Eftir Skúla Unnar Sveinsson

skuli@mbl.is

„Við erum reyndar með mikla reynslu í þessu þannig að ég get ekki sagt að mér hafi liðið neitt óskaplega illa eftir fyrstu tvo leikina. Við vitum nefnilega að það þarf að vinna þrjá leiki – jafnvel þó maður vinni fyrstu tvo leikina. Þetta eru allt jafn mikilvægir leikir og við gleymdum okkur ekkert í því að vera 2:0 undir, heldur tókum bara hvern leik fyrir sig og settum allt okkar í hvern einasta leik,“ sagði Sigurður.

Geysilega ánægður

Hann var mjög sáttur með leik sinna manna í síðustu þremur leikjum. „Ég er geysilega ánægður með að komast áfram enda er það afrek að vinna þetta frábæra ÍR-lið. Ég get varla hrósað þeim nógu mikið því mér finnst liðið mjög skemmtilegt og það hefur leikið frábærlega í úrslitakeppninni. Stemningin í kringum liðið hjá þeim og okkar lið líka hefur verið frábær og þetta er búið að vera virkilega skemmtilegt,“ sagði Sigurður.

„Mér fannst við spila mjög vel í kvöld. Liðsheildin fékk að njóta sín og það skemmtilega við þetta er að enn og aftur fá þeir leikmenn að njóta sín sem eru mest tilbúnir. Það er styrkur okkar að sá sem er mest tilbúinn og í mesta stuðinu þann daginn getur fengið að njóta sín innan liðsheildarinnar,“ sagði Sigurður kampakátur enda full ástæða til.

Vörn Keflvíkinga var sterka sem sést kannski best á því að ÍR-liðið skorar aðeins 73 stig í leiknum. „Vörnin var mjög góð hjá okkur og þú sérð það bara á því að fá bara 73 stig á okkur á móti ÍR-ingum er gríðarlega gott og ég vil hrósa þeim fyrir frammistöðuna í vetur. Þeir eru með frábært lið,“ sagði Sigurður.

Rimman við Snæfell hefst í Keflavík á laugardaginn. „Ég hlakka mikið til. Nú tekur alvaran við. Okkur var spáð fimmta sætinu í deildinni þannig að ég veit ekki alveg hvaða liðum búast hefði mátt við í úrslitum. Nú förum við aðeins yfir málin enda ekkert búnir að velta þessu fyrir okkur fram að þessu,“ sagði Sigurður sem vonast til að Antony Susniara verði orðinn góður af meiðslum sínum. „Það eru smámeiðsli hér og þar og það er bara hluti af þessu öllu saman,“ sagði Sigurður og vildi ekki gera mikið úr því. 3