Fallegt Sveinbjörg Hallgrímsdóttir við eitt verkanna í Háskólanum.
Fallegt Sveinbjörg Hallgrímsdóttir við eitt verkanna í Háskólanum. — Morgunblaðið/Skapti
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Hjónin Óli G. Jóhannsson listmálari og Lilja Sigurðardóttir opna í dag listhúsið Festarklett í gömlu kartöflugeymslunni við Kaupvangsstræti.

Hjónin Óli G. Jóhannsson listmálari og Lilja Sigurðardóttir opna í dag listhúsið Festarklett í gömlu kartöflugeymslunni við Kaupvangsstræti. Þar hefst sýning á verkum Óla og svo skemmtilega vill til að í dag verður líka opnuð sýning á verkum hans í Singapúr.

Alveg var dásamlegt að hlýða á Þursaflokkinn um síðustu helgi á Græna hattinum hér í höfuðstað hins fagra norðurs. Mér brá þegar Egill yfirþurs Ólafsson sagði að sveitin hefði ekki leikið á Akureyri í 28 ár; fannst eins og tónleikarnir í Möðruvallakjallara MA hefðu verið í fyrradag...

Þursarnir fóru á kostum á Græna hattinum. Egill þóttist sjá eitthvað af sömu andlitunum í salnum og síðast og ég efa ekki að það var rétt hjá honum. Sjálfsagt mikið til sömu kennitölurnar mættar og þá og líklega enginn elst neitt að ráði. Og þeir Egill hafa engu gleymt.

Egill sagði viðstöddum að staður eins og Græni hatturinn væri ekki til á Reykjavíkursvæðinu og hvatti yfirvöld bæjarins til þess að styðja við starfsemina. Hér ættu að vera stórir tónleikar einu sinni í mánuði, ýmiss konar músík – og smærri tónleikar aðrar helgar, sagði Egill við góðar undirtektir.

Sigrún bæjarstjóri var á fyrstu Þursatónleikunum, á föstudagskvöldið. Hún á næsta leik!

Ekki er annað hægt en nefna, skrifandi um Græna hattinn, að bannað var að reykja þar inni frá fyrsta degi, sem var löngu áður en bann við því var sett í lög. Staðurinn fær stóran plús fyrir það.

Sigrúnu bæjarstjóra barst á dögunum bréf frá manni sem var í breska hernum og kom til Akureyrar í ágúst 1940 með herdeild sinni. Með bréfinu fylgdi mynd af Harris þar sem hann ekur litlu farartæki upp Torfunefsbryggjuna með vagn í eftirdragi og á vagninum eru fjórir akureyrskir piltar. Bæjaryfirvöld langar að reyna að komast að því hverjir eru á myndinni og biður fólk að hafa samband ef það kannast við sjálft sig eða aðra. Frá þessu var sagt í gær á heimasíðu bæjarins, – slóðin er www.akureyri.is – og þar má sjá myndina.

Siglingamenn í Nökkva hefur lengi dreymt um betri aðstöðu en lítið þokast í þeim efnum. Þeim mun nýlega hafa verið gefið það ráð, sjálfsagt meira í gamni en alvöru, að reyna að tengja starfsemina nýja menningarhúsinu, Hofi. Nægir peningar séu í það verkefni, auk þess sem húsið standi við sjóinn þannig að auðvelt yrði að gera þar bryggju. Og þeir gætu örugglega fengið einhvers staðar herbergi fyrir félagsaðstöðu...

Fimmtíu ár voru í febrúar frá því stofnuð var körfuknattleiksdeild innan íþróttafélagsins og af því til tilefni heldur deildin styrktartónleika á sunnudaginn. Þeir verða í Glerárkirkju kl. 16.00 og fram koma Álftagerðisbræður ásamt „Konnurunum“ og syngja ýmsar perlur.

Álftagerðisbræður eru Sigfús, Gísli, Óskar og Pétur Péturssynir frá Álftagerði í Skagafirði og undirleikari þeirra er Stefán R. Gíslason. Konnararnir eru: Jóhann Már og Svavar Hákon Jóhannssynir og bræðurnir Örn Viðar og Stefán Birgissynir. Undirleikari þeirra er Helga Bryndís Magnúsdóttir. Aðgangseyrir er 2.500 krónur og miðar seldir í Pennanum Eymundson og Hamri, félagsheimili Þórs.

Óhætt er að mæla með sýningu Sveinbjargar Hallgrímsdóttur grafíklistakonu, en myndir hennar hanga nú uppi á bókasafni Háskólans á Akureyri. Enginn verður svikinn af því að líta þar við.

Ekki er síður gaman að líta við í Gallerí Jónasar Viðar í Listagilinu. Þar er nú til sýnis stórglæsilegur uppstoppaður lax, sem veiddur var í Laxá í Aðaldal. Það er Haraldur Ólafsson hamskeri sem stoppaði laxinn upp, en Halli – sem er fyrrverandi Norðurlandameistari í lyftingum – hefur náð frábærum árangri á þessum vettvangi á síðustu árum. Laxinn gerði hann fyrir heimsmeistaramótið í hamskurði sem haldið var í Salzurg í Austurríki í febrúar, þar keppti Haraldur í meistaraflokki og fékk fyrstu einkunn, heil 90 stig af 100 mögulegum.

Skapti Hallgrímsson