Tryggvi Thayer fæddist í Texas 1968. Hann lauk stúdentsprófi frá Kvennaskólanum 1990, BA-prófi í heimspeki frá HÍ 2003 og MA-prófi í stjórnsýslu alþjóðl. menntunar frá Háskólanum í Minnesota 2007.

Tryggvi Thayer fæddist í Texas 1968. Hann lauk stúdentsprófi frá Kvennaskólanum 1990, BA-prófi í heimspeki frá HÍ 2003 og MA-prófi í stjórnsýslu alþjóðl. menntunar frá Háskólanum í Minnesota 2007. Tryggvi starfaði hjá Rannsóknarþjónustu Háskólans, síðar hjá CEDEFOP í Grikklandi, og hjá Mennt 2001-2004. Frá 2006-2007 starfaði hann hjá Alþjóðaskrifstofu háskólastigsing og hefur verið verkefnisstjóri hjá Iðnmennt frá áramótum. Tryggvi er kvæntur Hlín Gylfadóttur nema og eiga þau eina dóttur.

Íslandsmót iðngreina fer fram á föstudag og laugardag í forsal gömlu Laugardalshallarinnar en mótið er haldið samhliða sýningunni Verki og viti sem fram fer í nýju Laugardalshöllinni.

Tryggvi Thayer er verkefnisstjóri hjá Iðnmennt, sem skipuleggur keppnina: „Markmiðið með Íslandsmótinu er að vekja athygli á þeim tækifærum sem felast í námi og starfi í ýmsum iðn- og starfsgreinum,“ segir Tryggvi. „Sú þróun hefur verið undanfarin ár og áratugi að iðnmenntun hefur ekki fengið eins mikla athygli og bóklegt nám. Á sama tíma er mikil þörf fyrir vel menntað iðngreinafólk í samfélaginu, og spennandi atvinnu- og tekjumöguleikar sem bjóðast.“

Íslandsmótið er nú haldið með breyttu sniði. Ein helsta breytingin er sú að keppnin teygir sig yfir tvo daga, í stað eins áður og gefur það möguleika á að keppendur fáist við meira krefjandi verkefni: „Um einstaklingskeppni er að ræða, og geta sigurvegararnir átt kost á því að keppa í Evrópumóti og heimsmóti iðnnema,“ segir Tryggvi en mótið er núna opið bæði iðnnemum og einnig þeim sem nýlokið hafa námi og eru undir 22 ára aldri, nema í snyrtifræði þar sem miðað er við 24 ára hámarksaldur.

Í ár verður keppt í ellefu greinum: málmsuðu, trésmíði, pípulögn, bílaiðngreinum, múrverki, málaraiðn, dúklagningu, hársnyrtingu, snyrtifræði, rafvirkjun og upplýsinga- og fjölmiðlagreinum. „Einnig verða kynningar á fleiri námsgreinum, t.d. fatahönnun og rafeindavirkjun, svo að gestir í Laugardalshöll geta fræðst um hátt í 20 iðngreinar,“ segir Tryggvi. „Alls verða keppendur tæplega 80 talsins, og tveir til þrír dómarar í hverri grein.“

Finna má nánari upplýsingar um keppni föstudagsins á slóðinni islandsmot.skillsiceland.is. Keppni hefst kl. 9 á föstudagsmorgni, en formleg setning keppninnar verður kl. 11 þegar Össur Skarphéðinsson iðnaðarráðherra setur mótið. Verðlaunaafhending mun fara fram kl. 16.30 á laugardag.

Ókeypis er inn á mótið og allir velkomnir.