Kjötkveðjuhátíð Indónesía telst til nýhagkerfa sem vaxa ört.
Kjötkveðjuhátíð Indónesía telst til nýhagkerfa sem vaxa ört. — Reuters
TÚLÍPANABÓLAN sprakk, tæknibólan sprakk, fasteignabólan sprakk og nú sjáum við áhrifin af því. Bólur eru sífellt að myndast á mörkuðum og að sama skapi springa bólurnar alltaf aftur því það er einfaldlega eðli þeirra; þær bólgna út og springa svo.

TÚLÍPANABÓLAN sprakk, tæknibólan sprakk, fasteignabólan sprakk og nú sjáum við áhrifin af því. Bólur eru sífellt að myndast á mörkuðum og að sama skapi springa bólurnar alltaf aftur því það er einfaldlega eðli þeirra; þær bólgna út og springa svo. Þetta vita þeir sem halda til á markaðnum mjög vel og flestir eru þeir að leita að bólum. Þeir sem geta séð bólurnar fyrir geta hagnast vel, ef þeir sjá fyrir hvenær þær springa og ná að selja í tæka tíð. Þeir hinir sömu geta jafnvel bætt enn á gróðann með því að skortselja þegar bólan er við það að springa og hagnast þannig á lækkuninni. Eins og áður segir erum við nú að upplifa áhrifin af því að fasteignabólan vestanhafs sprakk og þá er um að gera að byrja að leita að næstu. Ekki er ráð nema í tíma sé tekið.

Hugarleikfimi Nordea

Business.dk , viðskiptavefur danska blaðsins Berlingske Tidende , hefur leitað til sérfræðinga útibús sænska bankans Nordea í Danmörku sem telja líklegt að næsta bóla verði í hinum svokölluðu nýhagkerfum, en til þeirra flokkast hin ört vaxandi hagkerfi A-Evrópu og Asíu auk nokkurra til viðbótar s.s. S-Afríka og Brasilía. Hinn öri vöxtur nýhagkerfanna minnir um margt á þróunina þegar tæknibólan þandist út að mati sérfræðinga bankans.

„Við viljum ekki mála skrattann á vegginn því við sjáum enn mikla vaxtarmöguleika í nýhagkerfunum. Þannig að í bili má kannski kalla þetta hugarleikfimi,“ segir Henrik Drusebjerg, greinandi hjá Nordea, í samtali við Business.dk .

Að hans sögn tala greinendur Nordea nú um öfuga þróun miðað við árið 1998 þegar mikil efnahagslægð gekk yfir Asíu en þó er enn of snemmt að segja til um hvenær bólan sem nú þenst út nálgast þenslumörkin.