Fégræðgi Bjarni Haukur bjó sér til blævæng úr fimmþúsundköllum í útibúi sparisjóðsins Byrs í gær til að kæla sig aðeins niður. Peninga- og neysluhyggjan er allsráðandi á Íslandi, eins og sjá má.
Fégræðgi Bjarni Haukur bjó sér til blævæng úr fimmþúsundköllum í útibúi sparisjóðsins Byrs í gær til að kæla sig aðeins niður. Peninga- og neysluhyggjan er allsráðandi á Íslandi, eins og sjá má. — Morgunblaðið/Frikki
Eftir Helga Snæ Sigurðsson helgisnaer@mbl.is BJARNI Haukur Þórsson leikari neitar að svara því hvers virði hann sé, þegar blaðamaður spyr hann að því, þó svo hann frumsýni á morgun einþáttunginn Hvers virði er ég?

Eftir Helga Snæ Sigurðsson

helgisnaer@mbl.is

BJARNI Haukur Þórsson leikari neitar að svara því hvers virði hann sé, þegar blaðamaður spyr hann að því, þó svo hann frumsýni á morgun einþáttunginn Hvers virði er ég? „Þú verður bara að koma á sýninguna,“ segir Bjarni og hlær kvikindislega.

Bjarni er þjóðkunnur fyrir einþáttunga sína, fyrst Hellisbúann , þá Pabbann og nú þann sem nefndur var í upphafi. Bjarni er höfundur verksins og tekur að þessu sinni á „bráðsmitandi efnishyggju Íslendinga“ og hlífir engum, hvorki sjálfum sér, auðmönnum né almenningi. Hann hlífir ekki einu sinni styrktaraðila sýningarinnar, sparisjóðnum BYR.

„Ég er ekkert að predika,“ segir Bjarni en viðurkennir þó að hann taki fólk í smá kennslustund í raunverulegu gildi tilverunnar. „Ég geri aðallega grín að sjálfum mér en tek auðvitað fyrir peninga- og efnishyggju Íslendinga, geri stólpagrín að ykkur fjölmiðlafólki...“

Þó ekki menningardeild Morgunblaðsins?

„ ...nei, mínus menningar- og íþróttadeild. Fjölmiðlar eru auðvitað spegill samfélagsins og það sem birtist okkur í fjölmiðlum er auðvitað nákvæmlega það sem við erum að pæla í. Fjölmiðlar eru fólkið og tala, fyrir utan menningardeildina að sjálfsögðu, bara um peninga og ég veit ekki alveg hvað er málið,“ segir Bjarni. Það sé hreint ótrúlegt hvað Íslendingar hafi í mörg hundruð ár verið helteknir af peningum. Íslendingar séu ekki kallaðir „Ítalir norðursins“ fyrir ekki neitt, þjóðin sé hádramatísk. „Ef það gengur vel erum við að sigra heiminn en ef illa gengur er Ísland að sökkva og það er ekkert þar á milli. Þetta er svona Ragnar Reykás-syndrome.“

Auðmaður áhugasamur um virði Bjarna

Bjarni segist hafa verið spurður að því af auðmanni einum, yfir snittum í boði hjá ríkisbubbum, hvers virði hann væri. Hann hafi ekki getað svarað manninum en velt spurningunni mikið fyrir sér og endað með gamanleik í höndunum. „Það er engin ný saga eða sannindi að heilsan og fjölskyldan og börnin og allt það sé mikilvægara en hið efnislega. Enda erum við sem vinnum við að segja sögur eflaust aldrei að segja nýjar sögur heldur setja þær í nýja búninga. En þessi saga á hins vegar mjög vel við núna og mitt hlutverk er að setja hana í sem ferskastan búning,“ segir Bjarni um raunveruleg gildi lífsins. Ríkt fólk sé ekki endilega vont fólk. Bjarni bendir á Al Gore, hann vilji heiminum vel en sé samt sem áður vellauðugur.

Hvers virði er ég? verður frumsýnt í Salnum í Kópavogi annað kvöld kl. 21. Sigurður Sigurjónsson leikstýrir verkinu.

Bill Murray-lán

Brot úr Hvers virði er ég? :

„Ég kalla íbúðalán „Bill Murray- lán“.

Munið þið ekki eftir myndinni með Bill Murray, Groundhog Day ?

Hann vaknaði og það var alltaf sami dagurinn. Þannig eru þessi lán.

Munurinn á Groundhog Day og íbúðalánum er auðvitað sá að myndinni lauk.

Íbúðalánum lýkur ALDREI .“