Eftir Grétar Júníus Guðmundsson gretar@mbl.is AUÐJÖFURINN umdeildi, George Soros, hefur spáð því að þær efnahagshremmingar sem nú ríða yfir heiminn verði að mestu efnahagskreppu sem sést hefur frá því hann fæddist fyrir rúmum 77 árum.

Eftir Grétar Júníus Guðmundsson

gretar@mbl.is

AUÐJÖFURINN umdeildi, George Soros, hefur spáð því að þær efnahagshremmingar sem nú ríða yfir heiminn verði að mestu efnahagskreppu sem sést hefur frá því hann fæddist fyrir rúmum 77 árum. Þetta kemur fram í viðtali við Soros í breska blaðinu International Herald Tribune (IHT).

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem Soros spáir í þessa veruna því það gerði hann einnig fyrir áratug síðan, en þá sagði hann að mikil alþjóðleg efnahagskreppa væri þá í uppsiglingu, nokkuð sem hins vegar ekki eftir. Hann segist hins vegar telja að hann hafi rétt fyrir sér að þessu sinni, að því er fram kemur í greininni í IHT .

Ný bók eftir Soros, „The New Paradigm for Financial markets“, eða „Ný viðmið fyrir fjármálamarkaði“, eins og hún myndi væntanlega heita á íslensku, kemur í bókabúðir í næsta mánuði. Þetta er tíunda bók hans um efnahagsmál. Í henni segir hann að núverandi efnahagskreppa sé bara rétt að byrja. Sú súperbóla sem fengið hafi að vaxa óáreitt í aldarfjórðung sé loksins komin að því að springa. Hann er gagnrýninn á stjórnvöld á Vesturlöndum, sérstaklega á ríkisstjórn George W. Bush í Bandaríkjunum. Þau hafi algjörlega sofið á verðinum og Bush og hans stjórn hafi gert mikil mistök með því að leyfa húsnæðisbólunni að stækka óhindrað án þess að grípa þar inn í.

Soros bindur vonir við að meira mark verði tekið á kenningum hans nú en gert hefur verið til þessa. Hann gengur með þá von í brjósti að verða ekki einungis minnst sem manns sem auðgaðist gríðarlega í heimi fjárfestinga, heldur verði hans einnig minnst sem mikils hugsuðar. Margir hafa hins vegar tekið Soros og kenningum hans með varúð, sérstaklega vegna þess hvernig hann auðgaðist.

Auðgaðist vel á falli pundsins

George Soros er gyðingur, fæddur í Ungverjalandi árið 1930. Hann flutti til Englands árið 1947 og þaðan til Bandaríkjanna árið 1952 þar sem hann hefur búið og starfað síðan. Hann er einkum frægur, eða jafnvel alræmdur, fyrir fjárfestingar vogunarsjóðs síns árið 1992, þegar hann auðgaðist gríðarlega á því að selja sterlingspund rétt fyrir mikla gengisfellingu og kaupa síðan pund aftur. Hann lék sama leik með taílenska gjaldmiðilinn fimm árum síðar.

Soros hefur verið kennt um að hafa verið valdur að efnahagserfiðleikum bæði á Bretlandi og í Taílandi í tengslum við þessar fjárfestingar sínar. Blaðamaður IHT spyr hann hvort honum finnist það leitt. Soros svarar því játandi. Hins vegar segir hann að það sé ekki rétt að erfiðleikarnir séu honum að kenna og þeir sem kenni honum þar um hafi rangt fyrir sér. Hann segir að enginn einn fjárfestir geti haft það mikil áhrif á hrun gjaldmiðils sem honum hafi verið kennt um. Það sé markaðurinn sem hreyfi gjaldmiðlana. Því hefði sterlingspundið til að mynda fallið árið 1992 hvort sem hann hefði komið þar við sögu eða ekki. Hann segist því enga ábyrgð vegna þessa taka á sig.

Vill viðurkenningu

Soros hefur í um tvo áratugi haldið fram svonefndri viðbragðskenningu sem hann dreymir um að komi honum á stall með hagfræðingum eins og Hegel eða Kaynes. Samkvæmt viðbragðakenningu Soros telur hann í stuttu máli að viðbragð fólks geti haft áhrif á hvaða stefnu efnahagslífið tekur og þar með dregið úr því að markaðir leiti jafnvægis.

Nóbelsverðlaunahafinn í hagfræði frá árinu 2001, Joseph Stiglitz, prófessor við Columbiu-háskólann í Bandaríkjunum, og mikill vinur Soros, segir að svo geti vel farið að kenningar hans verði almennt viðurkenndar. Til að svo verði þurfi Soros hins vegar að orða þær með öðrum hætti en hann hefur gert til þessa.