Sigurður Kári Kristjánsson, formaður menntamálnefndar Alþingis, hefur lýst því yfir að til umræðu sé innan stjórnarflokkanna að gefa opinberum háskólum heimild til að taka upp skólagjöld.

Sigurður Kári Kristjánsson, formaður menntamálnefndar Alþingis, hefur lýst því yfir að til umræðu sé innan stjórnarflokkanna að gefa opinberum háskólum heimild til að taka upp skólagjöld. Jafnframt hefur formaðurinn sagt að vaxandi stuðningur sé við það innan Samfylkingar að heimila slíka gjaldtöku, jafnvel þó að það stangist algjörlega á við stefnu Samfylkingarinnar, í það minnsta eins og hún var fram lögð fyrir kosningar. Þar segir m.a. um menntamál: „Stuðla að því að öllum standi til boða gjaldfrjáls menntun frá og með leikskóla til og með háskóla. Tryggja að skólagjöld verði ekki tekin upp í almennu grunn- og framhaldsnámi við opinbera háskóla.“

Þetta er nokkuð skýr og skorinorð yfirlýsing hjá Samfylkingunni sem varla er hægt að misskilja, jafnvel þó reynt væri með góðum vilja að gera það. Það kom því á óvart að heyra það frá formanni menntamálanefndar að það væri aðeins tímaspursmál hvenær skólagjöld í opinberum háskólum yrðu heimiluð. Í viðtali við Fréttablaðið sl. sunnudag segir Einar Már Sigurðsson, þingmaður Samfylkingarinnar og varaformaður menntamálnefndar, orðrétt um skólagjaldamálið: „Það verkefni sem bíður okkar er að svara þeirri spurningu hvernig við getum jafnað samkeppnisstöðu háskólanna svo allir sitji við sama borð“ og síðar í sama viðtali: „Ég hef þó ekki þá mælistiku að geta hent reiður á það hvort sífellt meiri stuðningur sé um þessar hugmyndir í mínum flokki.“ Hvað á varaformaðurinn við þegar hann í sambandi við umræðu um skólagjöld talar um að jafna stöðu háskólanna svo allir sitji við sama borð? Vill hann lækka framlög til einkarekinna skóla eða vill hann heimila opinberum skólum að taka upp skólagjöld? Hvaða mælistiku vantar varaformanninn til að slá máli á skoðanir þingflokks Samfylkingarinnar um skólagjöld? Er málið svo viðkvæmt innan Samfylkingarinnar að þingmenn flokksins vilji ekki eða geti ekki upplýst varaformann menntamálnefndar og talsmann flokksins í menntamálum um afstöðu sína til þessa mikilvæga máls?

Í fyrirspurnartíma á Alþingi í gær spurði ég varaformann menntamálanefndar, samfylkingarþingmanninn Einar Má Sigurðsson, hver afstaða Samfylkingarinnar væri varðandi upptöku skólagjalda og hvort flokkurinn muni yfir höfuð ljá máls á því að veita opinberum háskólum heimild til að innheimta skólagjöld. Einnig spurði ég hann þess hvort hann væri sammála því áliti formanns nefndarinnar að það væri aðeins tímaspursmál hvenær opinberum háskólum verði gefin heimild til aukinnar gjaldtöku.

Í svari varaformannsins kom fram að Samfylkingin væri tilbúin til að „skoða málið frá öllum hliðum fordómalaust“ og væri í rauninni ekkert heilagt í þeim efnum. Þannig staðfesti Einar Már Sigurðarson þá stefnubreytingu Samfylkingarinnar í menntamálum að opna á skólagjöld í opinberum háskólum sem var þó fyrir aðeins nokkrum mánuðum talið fráleitt af hálfu flokksins að nefna á nafn. Samfylkingin stendur að og styður frumvarp menntamálaráðherra til laga um opinbera háskóla þar sem m.a. er opnað á auknar gjaldtökur í háskólum og að gjaldtakan eigi að vera „stjórntæki til að stýra eftirspurn eftir þeirri þjónustu sem um er að ræða hverju sinni“ eins og segir orðrétt í athugasemdum með frumvarpinu. Samfylkingin getur því með engu móti neitað þeirri stefnubreytingu í þessum málum sem merkja má bæði í orðum Einars Más Sigurðssonar, talsmanns flokksins í menntamálum, og í því frumvarpi sem liggur fyrir Alþingi. Samfylkingin hefur varpað fyrir róða þeim góðu áformum í menntamálum sem hún lagði fyrir kjósendur fyrir tæpu ári. Um það þarf ekki að deila.

Höfundur er varaþingmaður

Vinstri grænna