Verðmæt? Frímerkin sem Einar fann í skjalaskápnum góða, sem hann keypti notaðan á sínum tíma.
Verðmæt? Frímerkin sem Einar fann í skjalaskápnum góða, sem hann keypti notaðan á sínum tíma.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Elvu Björk Sverrisdóttur og Skapta Hallgrímsson „EFTIR því sem ég kemst næst er þetta rétt frétt,“ segir Brynjólfur Sigurjónsson, formaður Félags frímerkjasafnara, um sjaldgæft íslenskt frímerki sem selja á á uppboði í New York 16....

Eftir Elvu Björk Sverrisdóttur

og Skapta Hallgrímsson

„EFTIR því sem ég kemst næst er þetta rétt frétt,“ segir Brynjólfur Sigurjónsson, formaður Félags frímerkjasafnara, um sjaldgæft íslenskt frímerki sem selja á á uppboði í New York 16. maí. Fram kom á Fréttavef Morgunblaðsins, mbl.is, á mánudag, að um væri að ræða yfirstimplað fimm aura frímerki frá árinu 1897, en frímerkið er sagt vera eina heila merkið úr þessari útgáfu sem vitað er um.

Maður í Eyjafirði áttaði sig á því, þegar hann sá fréttina á mbl.is, að hann ætti líklega sams konar frímerki eða mjög svipað. Var reyndar búinn að gleyma frímerkjunum en hyggst nú láta verðmeta þau.

Einungis eitt merki þekkt

Brynjólfur segir að á svonefndum Facit-lista, sem er sænskur verðlisti yfir frímerki, komi fram að einungis sé þekkt eitt frímerki frá árinu 1897 með stórum yfirprentuðum þrem. Líka voru gerð frímerki með minni yfirprentun.

Brynjólfur segir að yfirprentunin hafi verið gerð vegna þess að þriggja aura upplagið af frímerkjunum hafi klárast árið 1897. „Menn brugðu þá á það ráð að yfirstimpla næsta gildi fyrir ofan með því að letra „þrír“ á merkin.“ Þetta hafi verið fyrsta yfirstimplunin á íslensku frímerki.

Verðbréfasalinn Bill Gross ætlar að selja frímerkin sem verða boðin upp í maí. Andvirði frímerkjanna rennur til góðgerðarstofnunar, tengdrar Columbia-háskóla í New York sem hagfræðingurinn Jefrrey Sachs stýrir.

Brynjólfur segist gera ráð fyrir að gott verð geti fengist fyrir íslenska merkið. „Ég yrði ekki hissa á því að sjá það fara á um það bil milljón íslenskra króna,“ segir hann. Upplagið af merkjum sem voru yfirprentuð hafi verið afar lítið.

Kannaðist við merkið

Fréttin um frímerkjauppboðið á mbl.is vakti athygli Einars Benediktssonar bílstjóra sem búsettur er í Eyjafirði. Einar hefur um árabil átt gömul frímerki, sem líklega eru úr fórum annars hvors afa hans, en hann á einnig frímerki sem hann fann fyrir algjöra tilviljun í skjalaskáp sem hann keypti gamlan fyrir 20 árum en hefur ekki hugmynd um hvaðan er kominn. Þar var t.d. frímerkið sem hann telur svipað því sem fer á uppboð vestanhafs.

„Afi minn, Einar Árnason, var fjármálaráðherra á fyrri hluta síðustu aldar. Hinn afi minn var séra Gunnar Benediktsson og þetta er áreiðanlega komið frá öðrum hvorum þeirra,“ segir Einar um þann hluta frímerkjasafnsins sem hann hefur átt lengur. Einari fannst hann kannast við merkið á mbl.is og tók sig til og leitaði að merkjunum sem hann fann í skápnum góða um árið. Eitt merkjanna reyndist samskonar því sem hann sá á myndinni á mbl.is en það er þó ekki yfirstimplað.

Hann segir um að ræða fimm aura merki, en Einar á einnig þriggja aura merki. Hann hyggst nú láta skoða frímerkin og fá úr því skorið hversu verðmæt þau kunni að reynast.

Sjálfur er Einar enginn sérstakur áhugamaður um frímerki. „Ekki nema áhuginn fari að kvikna núna,“ segir hann hlæjandi.

Það var fyrir tveimur áratugum sem Einar keypti umræddan skáp í verslun á Akureyri sem seldi ýmiskonar notaðan varning. „Þetta er níðþungur skjalaskápur úr járni. Greinilega gamall og leit satt að segja ekkert sérlega vel út! En ég keypti hann til þess að geyma eitthvert dót í.“

Fann hátt í 200 frímerki

Skápurinn er opnaður þannig að hurðunum er rennt út. Einar missti einhverju sinni gögn úr einni hillunni, náði sér í vasaljós til þess að finna þau aftur og sá þá glitta í eitt frímerki í skápnum. „Ég náði mér í flísatöng til að ná í það og endaði með því að plokka á milli 150 og 200 frímerki úr skápnum! Þau lágu í lítilli rauf inni á milli sleðanna í skápnum.“

Einar keypti á sínum tíma bók undir frímerkin sem hann fann. „Mér fannst þetta svo sem ekkert voðalega spennandi fyrst en vissulega dálítið sérstakt. Ég var búinn að steingleyma þessum frímerkjum en mundi allt í einu eftir þeim þegar ég sá fréttina um frímerkið sem á að fara á uppboðið,“ sagði Einar í gær.