[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Mér var sagt að vorið ætti að koma á þriðjudaginn var. Einn sagði mér að það kæmi strax um morguninn. Ég ákvað að drífa mig í sund svo ég missti ekki af neinu.

Mér var sagt að vorið ætti að koma á þriðjudaginn var. Einn sagði mér að það kæmi strax um morguninn. Ég ákvað að drífa mig í sund svo ég missti ekki af neinu. Þegar ég kom í bæinn sagði ágætur maður mér að ég hefði ruglast í ríminu, vorið kæmi ekki fyrr en kl. 9 um kvöldið. Það er enn betra, hugsaði ég, ég get þá notið komu vorsins í tvígang sama daginn.

Ég býst við að flestum hafi þótt þessi vetur harla leiðinlegur. Hann hefur einkennst af miklum umhleypingum, roki og leiðindum svo erfitt hefur reynst að gera áætlanir um ferðalög innanlands. Ég hef fengið minn skerf af ófærð eins og aðrir og um daginn varð mætur bóndi ofan úr Jökuldal að sækja mig upp á heiðar um miðja nótt þar sem ég sat föst í skafli. Þetta var önnur ferðin sem hann hafði farið þá um nóttina. Þegar ég hringdi til lögreglunnar og bað um hjálp kom þeim strax í hug að tala við þann bónda sem næst byggi. Og eftir hálftíma var hann kominn bílnum sínum að kanna aðstæður. Fljótlega kom í ljós að aflmeiri tæki þyrfti til að bjarga mér út skaflinum og skömmu síðar sá ég stóran traktor með skóflu þeysast upp brekkuna í átt til mín. Það dugði ekkert minna heldur en John Deere. Það gekk greiðlega að draga mig út úr ógöngunum og ég var ósköp þakklát fyrir að komast heim í rúmið mitt fyrir birtingu.

Fyrir nokkrum mánuðum hefði verið alls óvíst hvort ég hefði náð símasambandi við nokkurn mann þar sem ég sat föst á þjóðvegi nr. 1. Sem betur fór hefur verið gerð bragarbót á því. Ég var undir það búin að sitja í bílnum eins lengi og verða vildi, ef óhægt yrði um hjálp, þakkaði fyrir að hann var fullur af olíu og ég var með fullan straum á símanum. Því ekki getur maður búist við því að bændur rísi úr rekkjum um miðjar nætur að hjálpa strandaglópum uppi um öll fjöll og firnindi.

En það er einmitt það sem þeir gera. Og telja það ekki eftir sér. Það er enn töluvert um að búið sé á jörðum á afskekktari stöðum landsins auk þess sem jarðir undir heiðum og fjallvegum eru margar enn í byggð. Þannig háttar til t.d. á Jökuldal að búið er á Skjöldólfsstöðum, Hákonarstöðum og Klausturseli svo aðeins þrír bæir séu nefndir og áreiðanlegt að oft hafa bændur þar þurft að liðsinna ferðalöngum. Uppi á fjöllum er svo Möðrudalur og þar búa höfðingjar sem margoft hafa reynst hjálplegir. Ekki þarf að taka fram hversu mikið öryggi felst í þessu fyrir vegfarendur. Veður getur breyst mjög skyndilega hátt uppi á fjöllum og þá er afar mikilvægt að vera staðkunnugur til að geta áttað sig betur á aðstæðum og þeim hættum sem upp koma. Það getur þó aldrei komið í veg fyrir að menn verði einhvern tímann strandaglópar á heiðum uppi, sér í lagi þegar ferðast er á nóttinni sem er ekki til fyrirmyndar og á að varast eins og kostur er.

Vegagerðin hefur ágætar upplýsingar um færð á vegum landsins á heimasíðu sinni. Upplýsingasíminn er líka ágætur en á nóttinni eru þó upplýsingar mun síðri, enda um símsvara að ræða. Mér finnst samt ástæða til að benda Vegagerðinni á að bæta kort sín á þann veg að sérstaklega varasamir staðir séu sérmerktir. Á það t.d. við um vetrarfærð en oft eru það nákvæmlega sömu staðirnir sem eru þungir yfirferðar og ágætt fyrir vegfarendur að sjá þá á korti til að vera betur viðbúnir þegar nær dregur. Þetta á einnig við um veðrabrigði því það getur verið vindasamt á nákvæmlega sömu stöðunum. Ég held að slíkt hættukort, bæði hvað varðar vetrarsamgöngur og raunar einnig sumarumferð, þar sem ferðamenn eru oft lítt kunnugir, gæti skipt máli til að draga úr slysum og óhöppum.

Þótt aldrei sé hægt að koma í veg fyrir öll slys verður að leita allra leiða til að bæta umferðaröryggi á vegum landsins. Og svo, ef maður situr fastur í skafli er gott að vita af því að í nágrenninu kunni að vera menn sem vilji hjálpa. Þeim þarf líka að sinna.

Við skulum vona að veðrið þessa vikuna viti á gott sumar og að hretunum fari að linna. Ég er viss um að þessi leiðindatíð í vetur hefur haft áhrif á sálartetur okkar margra og ekki bætti úr skák að hafa vaxandi áhyggjur af efnahagsástandi þjóðarinnar. Minnumst þess samt að það birtir um síðir og það á bæði við um veðrið og tímabundin áföll í efnahagslífinu.

HLJÓÐVARP mbl.is

Hljóðpistlar Morgunblaðsins
Ólöf Nordal les pistilinn