Kokkað Völundur Snær Völundarson matreiðir á bókakaupstefnunni í Lundúnum. Völundur hefur búið á Bahamaeyjum undanfarin ár.
Kokkað Völundur Snær Völundarson matreiðir á bókakaupstefnunni í Lundúnum. Völundur hefur búið á Bahamaeyjum undanfarin ár. — Morgunblaðið/Árni Matthíasson
Eftir Árna Matthíasson arnim@mbl.is BÓKAKAUPSTEFNAN í London, sem hófst á mánudag og lauk í gær, er með helstu bókasýningum heims og hefur farið mjög stækkandi á undanförnum árum.

Eftir Árna Matthíasson

arnim@mbl.is

BÓKAKAUPSTEFNAN í London, sem hófst á mánudag og lauk í gær, er með helstu bókasýningum heims og hefur farið mjög stækkandi á undanförnum árum. Á stefnunni kynna útgefendur væntanlegar bækur og samið er um útgáfur á bókum um allan heim. Íslenskir bókaútgefendur hafa nýtt sér hátíðina til að kynna bækur og eins að leita að bókum sem vænlegt er að gefa út á Íslandi.

Sú nýbreytni er á hátíðinni að þessu sinni að þekktum kokkum víða að er boðið því að verðlaunahátíðin alþjóðlega Gourmand World Cookbook Award er með sérstaka kynningu á starfi sínu á hátíðinni og bauð sérstaklega tólf meistarakokkum víða að að vera með sérstaka kynningu á bókum sem þeir hafa gefið út og eins færni þeirra í eldhúsinu. Völundur Snær Völundarson var einn þeirra sem var boðið að vera með og á mánudaginn kynnti hann bók sína og eldaði fyrir gesti og gangandi í eldhúsi sem komið var fyrir á sýningunni.

Stækkar við sig

Völundur Snær er kunnur fyrir störf sín við matreiðslu í gegnum árin, fyrir sjónvarpsþætti á Skjá einum, Borðleggjandi með Völla Snæ , og eins fyrir bókina Delicious Iceland sem kom út sumarið 2006. Sú bók, sem var átta ár í smíðum, fékk sérstök heiðursverðlaun á Gourmand World Cookbook Award-hátíðinni sem haldin var í Kína fyrir ári og í framhaldi af því var Völundi Snæ boðið að vera með kynningu á London Book Fair, en auk þess að kynna verðlaunabókina sjálfa kynnti hann nýja útgáfu hennar í minna broti, einskonar vasaútgáfu af bókinni.

Kokkarnir á London Book Fair fengu allir knappan tíma til að kynna sig, um þrjú korter hver, en á þeim tíma snaraði Völundur fram fylltum bökuðum tómötum, ofnbökuðum baguette-sneiðum með osti, sólþurrkuðum tómötum, lárperum og þistilhjörtum, kampavínssoðnum og krydduðum kræklingi og ofnbökuðum kóríanderlegnum þorski með mangó, ananas og sítrusávaxtasalsa. Völundur hefur búið á Bahamaeyjum undanfarin ár, rekur þar eitt veitingahús og er að byggja annað, og lýsti því í kynningunni að hann hefði viljað flétta saman íslenskt sjávarfang og hráefni úr Karíbahafi.