Bjarni Harðarson
Bjarni Harðarson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Betra kerfi Breytingar á skattlagningu á lífeyristekjur yrðu til þess að hér á landi væru um tíma tvö lífeyrissjóðskerfi, sem væri bagalegt. Þetta kom fram í máli Árna M. Mathiesen fjármálaráðherra á Alþingi í gær en Birkir J.

Betra kerfi

Breytingar á skattlagningu á lífeyristekjur yrðu til þess að hér á landi væru um tíma tvö lífeyrissjóðskerfi, sem væri bagalegt. Þetta kom fram í máli Árna M. Mathiesen fjármálaráðherra á Alþingi í gær en Birkir J. Jónsson , Framsókn, beindi til hans spurningu um hvort ekki væri rétt að skattur á lífeyrissjóðstekjur verði 10% , þ.e. sá sami og á fjármagnstekjum .

Árni sagði útborganir til lífeyrissjóðsþega yfirleitt vera undir skattleysismörkum og því sjaldnast greiddur af þeim skattur. Núverandi kerfi væri því hagstæðara fyrir lífeyrisþega.

Frjálshyggjubanki

Seðlabankinn notast við meðul frjálshyggjunnar til að takast á við efnahagsvandann, sagði Bjarni Harðarson , Framsókn, á þingi í gær. „Það eru þau meðul að hér skuli stefnt að atvinnuleysi og gjaldþrotum fyrirtækja og þannig skuli leyst úr málum. En það eru til aðrar og gæfulegri leiðir,“ sagði hann og hafði áhyggjur af ósamstöðu milli ríkisstjórnarinnar og Seðlabankans.

Afturhaldsbanki

Gunnar Svavarsson , formaður fjárlaganefndar, vildi ekki segja til um hvort Seðlabankinn væri frjálshyggjubanki en að hann væri a.m.k. frekar aðhalds- og afturhaldssamur hvað reiknilíkön varðar. Forsendur í útreikningum Seðlabankans, efnahagsskrifstofu fjármálaráðuneytisins og greiningardeilda bankanna væru því ólíkar, sem skýrði mismunandi spár. Hins vegar mætti finna samhljóm ef litið væri á fráviksspár.

Ný stjórn RÚV

Alþingi kaus nýja stjórn Ríkisútvarpsins ohf. í gær en sú kosning fer fram einu sinni á ári. Ómar Benediktsson, Margrét Frímannsdóttir, Svanhildur Kaaber, Kristín Edwald og Ari Skúlason voru kosin sem aðalmenn.

Dagskrá þingsins

Þingfundur hefst kl. 10.30 í dag og m.a. á að ræða frumvarp um opinbera háskóla.