Atli Vigfússon
Atli Vigfússon
Atli Vigfússon er á móti innflutningi á hráu kjöti: "Þegar rætt er um matarverð þarf líka að tala um dýravernd, vörugæði, umhverfissiðfræði og þjóðmenningu."

Á ÞESSARI öld má reikna með að íbúum jarðarinnar fjölgi um einhverja milljarða. Þetta hefur margar ófyrirséðar hliðarverkanir og vandamálin verða umfangsmeiri og flóknari að leysa. Líklega verður það ærið verkefni að brauðfæða þjóðir heimsins enda ýmis teikn á lofti hvað það varðar.

Eitt af grundvallarmarkmiðum hverrar sjálfstæðar þjóðar er að framleiða sem mest af matvælum í sínu eigin landi. Íslendingar flytja nú þegar inn mjög mikið af þeim mat sem þjóðin þarfnast. Sé þjóð öðrum háð um matvæli sem nemur 70-80% hitaeininga er tæplega hægt að tala um sjálfstæði á því sviði.

Matvælafrumvarpið sem nú liggur fyrir Alþingi og kveður á um innflutning á hráu kjöti stefnir landbúnaðinum og allri atvinnu honum tengdri í mikla hættu. Í umræðunni að undanförnu hafa menn sett upp falsaðar tölur og meta lítils dýravernd, vörugæði, umhverfissiðfræði og þjóðmenningu og tala einungis um það hvað matarverð muni lækka í krónum talið.

Landbúnaður á Íslandi býr við ýmis forréttindi og m.a. það að landið er eyja sem er langt úti í hafi í góðri fjarlægð frá loftmengun Evrópu þar sem mengun eykst hraðar en mengunarvarnir.

Íslenska vatnið er ein af auðlindum þessa lands en milljónir dýra í heiminum hafa ekki aðgang að hreinu vatni. Gríðarlegur fjöldi þeirra þarf að drekka úr drullupollum til þess að lifa eða fær vatn úr menguðum jarðvegi. Sömu dýr eru fóðruð á jurtum sem hafa verið meðhöndlaðar með skordýraeitri en efnanotkun í landbúnaði er vaxandi í mörgum heimsálfum.

Það væri ósanngjarnt að segja að ekki sé vel hugsað um skepnur í Evrópu en því miður er þar oft farið framhjá dýraverndunarlögum og búfénaður treðst í þröngum stíum og getur ekki lagst til hvíldar. Sömu dýr eru e.t.v. flutt á milli landa þúsundir kílómetra til slátrunar í hitasvækju og illa loftræstum bílum. Þá gengur sýkt kjöt og ósýkt kjöt kaupum og sölum og milliliðir reyna að græða peninga með því að breyta upprunamerkingum.

Það fólk sem stundar landbúnað á Íslandi í dag er opið fyrir framförum og nýjungum og vill starfa í sátt við þjóðina og taka þátt í því að brauðfæða hana. Verkþekking er mikil í starfsgreininni og byggðin í landinu skiptir alla máli og störf í sveit skapa störf í þéttbýli.

Verð á matvælum er víða mjög hækkandi og á þessum vetri hafa áhyggjur af brauði heimsins vaxið hjá mörgum þjóðum sem ef til vill geta leitt til átaka og enn hærra verðs. Uppskerubrestur af völdum flóða og þurrka veldur vandamálum og ræktun korns til eldneytisframleiðslu hefur haft áhrif á verðmyndun matvæla.

Sjálfstæð þjóð eins og Íslendingar hlýtur að vilja framleiða sem mest sjálf en fyrir landbúnaðinn og neytendur er það mikið óöryggi að búa við óheftan innflutning á hráu kjöti. Þar er ekki bara átt við sjúkdómahættu fyrir innlendan búpening heldur líka hrun í byggðum landsins og það er ekkert sjálfsagt að allur matur finnist alltaf í hillum búðanna um ókomna framtíð. Íbúar landsins vilja innlenda framleiðslu og því er það gegn þjóðarvilja að fara að flytja inn hrátt kjöt sem fórnar ímynd okkar og sérstöðu.

Ég skora á forystumenn afurðastöðva, bænda, neytenda og verkalýðsfélaga að taka höndum saman til þess að koma í veg fyrir að gerð verði mistök sem erfitt verður að bæta fyrir því fátt er mikilvægara en að standa vörð um okkar innlendu matvælaframleiðslu. Íslendingar hljóta að geta flutt út landbúnaðarvörur undir merkjum hreinleika þó svo að þeir flytji ekki inn hrátt kjöt. Flestar þjóðir verja sinn landbúnað og mættum við taka Nýsjálendinga okkur til fyrirmyndar í þeim efnum.

Höfundur starfar við landbúnað.

Höf.: Atli Vigfússon er á móti innflutningi á hráu kjöti