Svanhildur Konráðsdóttir
Svanhildur Konráðsdóttir
Er komin einhver allsherjar útrásar- eyðsluglýja í augu kjörinna borgarfulltrúa og embættismanna borgarinnar.

Er komin einhver allsherjar útrásar- eyðsluglýja í augu kjörinna borgarfulltrúa og embættismanna borgarinnar. Fyrst lýsir Kjartan Magnússon, stjórnarformaður REI, því yfir, eins og ekkert sé, að ekki sé ætlunin að REI hætti meiru en þrjú hundruð milljónum króna í útrásarkannanir í fjarlægum heimshlutum.

Svo kemur Svanhildur Konráðsdóttir, sviðsstjóri menningar- og ferðamálasviðs Reykjavíkurborgar, fram í Morgunútvarpi Rásar 2 í gærmorgun og lýsir för sinni við fjórða mann til kvikmyndahöfuðborgar Bandaríkjanna Hollywood.

Þar upplýsti Svanhildur að Reykjavík hefði nú í fyrsta skipti ákveðið að taka þátt í kaupstefnu í Hollywood þar sem fulltrúar borga, svæða og landa reyndu að laða „hina stóru“ í kvikmyndaiðnaðinum til síns svæðis með gylliboðum um eigið ágæti.

Eru ekki kjörnir fulltrúar borgarinnar og embættismenn á þeirra vegum að fara fullfrjálslega með sjóði borgarbúa?

Hvaða þörf kallaði á fimm manna sendinefnd til Hollywood, til þess reyna að laða „hina stóru“ til þess að koma til Reykjavíkur til að búa til kvikmyndir?

Hvað kostar þátttaka Reykjavíkur í svona kaupstefnu í háborg kvikmyndanna og hverju skilar hún í tekjum til borgarinnar?

Hver var árangurinn af förinni?