Þór Jónsson
Þór Jónsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Magnús Heimisson og Þór Jónsson segja frá ráðstefnunni ráðstefnunni „Hinn grunaði er útlendingur!“ sem haldin verður á morgun: "Niðurstöður greiningarinnar 2007 verða kynntar á ráðstefnunni „Hinn grunaði er útlendingur!“ í Salnum í Kópavogi á föstudag."

GREINING á opinberri umfjöllun um innflytjendur og erlenda ríkisborgara hér á landi á ekki aðeins erindi við umfjöllunarefnið eða fjölmiðlana heldur þjóðina alla. Getur hugsast að umræðan sem fer fram í fjölmiðlunum ýti undir fordóma, stuðli að aðskilnaði og vinni gegn markmiðum stjórnvalda með innflytjendastefnu? Eða eru það óþarfa áhyggjur?

Félagsmálaráðuneytið fól Fjölmiðlavaktinni (Creditinfo Ísland) að greina umfjöllun um innflytjendur/erlent vinnuafl árið 2006. Þá var sett fram hörð gagnrýni um innflytjendamál á Alþingi. Niðurstaðan var m.a. að neikvæðri umfjöllun var almennt mætt með jákvæðri umfjöllun og virtust ýmsir hópar og samtök utan þings frekar hafa látið að sér kveða á sviði hagsmunagæslu fyrir innflytjendur og erlent verkafólk en stjórnmálamenn.

Svipaðrar tilhneigingar virðist hafa gætt árið 2007 en á grundvelli styrks frá félags- og tryggingamálaráðuneytinu hefur Fjölmiðlavaktin endurtekið leikinn. Niðurstöður greiningarinnar 2007 verða kynntar á ráðstefnunni „Hinn grunaði er útlendingur!“ í Salnum í Kópavogi á föstudag sem haldin er á vegum Alþjóðahúss, félags– og tryggingamálaráðuneytisins, Fjölmenningarseturs, Lögreglu höfuðborgarsvæðisins, Blaðamannafélags Íslands og Kópavogsbæjar.

Öfgafull umræða getur skapað öfgafullt andrúmsloft. Því er mikilvægt að gera sér grein fyrir stöðu mála, m.a. með greiningu á borð við þá sem nú liggur fyrir.

Niðurstöður skýrslunnar sýna að á árinu 2007 birtust alls rúmlega fimmtánhundruð fréttir/greinar í prent– og ljósvakamiðlum um annars vegar innflytjendur og hins vegar erlent vinnuafl. Mest umfjöllun var í september, október og nóvember og þá m.a. tengd Kárahnjúkavirkjun en einnig lögreglumálum. Umfjöllun um innflytjendur mældist um 60% af heildarumfjölluninni og umfjöllun um erlent vinnuafl um 40%. Hlutföllin eru svipuð milli ára.

Sé umfjöllun um innflytjendur skoðuð sérstaklega kemur í ljós að umfjöllun um lögreglu– og dómsmál mælist hæst eða 27,1% af heildarumfjöllun um innflytjendur. Því næst kemur almenn umfjöllun um innflytjendur eða 14,2%. Hefur orðið aukning á umfjöllun um lögreglu– og dómsmál á milli ára.

Hvað varðar erlent vinnuafl var langmest áberandi umfjöllun tengd atvinnu- og kjaramálum eða 53,9% af heildarumfjöllun og svo almenn umfjöllun um erlent vinnuafl eða 13,7%.

Þeir hópar sem mest tóku þátt í umfjöllun um innflytjendur voru opinberir aðilar/stofnanir/samtök (33,4% af umfjölluninni) og sama á við um málefni erlends vinnuafls (21,5%). Athygli vekur hversu oft er rætt við innflytjendur í samanburði við þátttöku erlendra starfsmanna í fréttum og greinum sem það varðar. Hlutdeild innflytjenda mælist 17,4% af innflytjendaumræðunni en hlutdeild erlendra starfsmanna einungis 4,8% af umræðunni um erlent verkafólk.

Lagt var mat á hvort umfjöllun væri líkleg til að auka við jákvætt eða neikvætt viðhorf í garð innflytjenda annars vegar og hins vegar erlends vinnuafls. Niðurstöður skýrslunnar sýna að umfjöllunin um innflytjendur er nánast hlutfallslega jafnmikil jákvæð og neikvæð. Neikvæð umfjöllun eykst nokkuð frá árinu 2006 en hlutfall jákvæðrar umfjöllunar helst svipað.

Hvað varðar erlent vinnuafl mælist mun meiri neikvæð umfjöllun en jákvæð. Þar hefur orðið sú breyting á milli ára að mikil aukning hefur orðið á neikvæðri umfjöllun en aðeins lítil á jákvæðri umfjöllun. Þó hlýtur að vekja sérstaka athygli hve neikvæð stjórnmálaumræða um innflytjendur og um erlent vinnuafl er minni árið 2007 en 2006.

Umræðan var greind í ýmsa málaflokka og smærri atriði sem eru forvitnileg og lærdómsrík og verða nánar kynnt á ráðstefnunni sem fjallar um hvaða tökum innflytjendur og útlendingar eru teknir í íslenskum fjölmiðlum. Framlag Fjölmiðlavaktarinnar (Creditinfo Ísland), bæði hvað snertir þær skýrslur sem hér hafa verið til umfjöllunar og t.d. sveitarfélagagreiningar, þar sem þessi atriði eru sömuleiðis greind ásamt öðru, er mikilvægt í því skyni að fá mynd af fyrirbæri sem erfitt er að mæla en getur haft geysilega mikil áhrif.

Á þeim vogarskálum virðist fréttaflutningur vega þyngra en t.d. umræða í formi aðsendra greina. Áhuga Blaðamannafélags Íslands á málefninu ber því að fagna. Sú ímynd sem starfsmenn fjölmiðla hafa af innflytjendum og erlendu launafólki hefur mikið að segja um þá ímynd sem almenningur fær af þeim hinum sömu.

Höfundar eru forstöðumaður Fjölmiðlagreininga Creditinfo Ísland og forstöðumaður almannatengsla Kópavogsbæjar.