[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Óholl transfita myndast við herslu olíu við smjörlíkisgerð. Auglýsingar fyrri ára um hversu gott smjörlíkið væri fyrir hjartað teljast nú hin mestu öfugmæli og allur ljóminn farinn af smjörlíkinu.

Óholl transfita myndast við herslu olíu við smjörlíkisgerð. Auglýsingar fyrri ára um hversu gott smjörlíkið væri fyrir hjartað teljast nú hin mestu öfugmæli og allur ljóminn farinn af smjörlíkinu. Neytendasamtökin hafa barist fyrir því frá 1993, að magn transfitu sé takmarkað með reglugerð og magn þeirra merkt á umbúðir matvæla. Vonir standa til að ný reglugerð um þetta nái í gegn bráðlega.

Tilefni þessarar umfjöllunar hér er að á neytendasíðu DV þann 4. mars er greint frá transfitusýrum í matvælum hérlendis. Greinarhöfundur segir frá nokkrum ráðleggingum sérfræðings um hvernig sé hægt að forðast matvæli með transfitu og greinir svo frá niðurstöðum sínum við skoðun á nokkrum kextegundum, um hvað sé vont og gott kex.

Nú skal ekki sakast við greinarhöfund eða sérfræðinginn þegar við nánari skoðun kom í ljós að ekki sé víst að umbúðamerkingum sé ætíð treystandi og að hollráðin um hvernig ætti að forðast vörur með tiltekinni merkingu dugi ekki alltaf.

Óvíst hvort kexið er allt gott

Samkvæmt greininni í DV er ráðlegast að forðast vöru ef í innihaldslýsingu er tiltekin fita sem er að hluta hert (partially hydrogenated eða delvis hærdet), sem er satt og rétt, svo langt sem það nær. Nefnd voru dæmi um Oreo-kex, Frón-kex, Homeblest, McVities og Ritz-kex sem innihalda ekki transfitu. Okkur hjá Neytendasamtökunum þótti ástæða til að kanna þetta frekar.

Í innihaldslýsingum á „góða“ kexinu stendur oft „vegetable oil“ sbr. Ritz-kex, sem greinir þó samt frá 12,3 prósenta hertri fitu (tólg) í lýsingu á næringarinnihaldi. Samkvæmt upplýsingum um Ritz-kex á netinu má sjá í einni innihaldslýsingu: „Partially hydrogenated.“ Sum sé hlutfallslega hert olía er notuð í því landi og þar með gæti það Ritz-kex innihaldið transfitu. En á annarri heimasíðu fyrir Ritz-kex er merkt 0 grömm transfita og allt önnur næringargildi en á pökkunum sem eru seldir hérlendis. Þarna eru að minnsta kosti tvær mismunandi innihaldslýsingar til á Ritz-kexi, fyrir utan það sem er selt hérlendis. Eigum við þá ekki að hvetja innflytjandann til að flytja inn hollara kexið ef hægt er?

Óljósar merkingar

Á umbúðum Oreo-kex er tilgreint „vegetabilisk fedstoffer“ í innihaldslýsingu, en engin tafla með næringargildi fannst á umbúðum. Þetta er mjög óljós merking um „fituefni af jurtauppruna“.

McVities Digestive-kex tiltekur einnig „vegetable oil“ í innihaldi en er samt með 10,4 prósenta herta fitu í næringartöflunni. En hvernig má það vera að hert fita sé í „vegetable oil“? Olía er jú olía og ekkert annað, engin tólg þar eða hvað? Á netinu mátti finna upplýsingar um að McVities væri hætt að nota fitu með transfitusýrum í. Gott mál en því þá ekki að merkja það á umbúðirnar?

Hvað sem þessu líður, þá er ljóst að merkingar eru ekki nógu greinilegar hvað varðar innihaldslýsingu á olíu og hertri fitu og óljóst um innihald transfitu.

Í fyrispurn til innflytjanda fáeinna kextegunda sem hefði mátt ætla að væru án transfitu samkvæmt innihaldslýsingu, var ekki í öllum tilvikum hægt að fá staðfestingu á því hvort transfita væri í þeim eða ekki.

Í Frón-kexi er greint frá „smjörlíki“ í innihaldslýsingu en að sögn framleiðanda er notað smjörlíki með mjög lágt innihald transfitu. Það er því ljóst að margir framleiðendur eru að breyta þessu til batnaðar.

Óskýrar merkingar rugla

Merkingar fituefna eins og þær sem að ofan greinir eru venjulegu fólki ekki skiljanlegar. Þetta er sjálfsagt bara þumalfingursregla sem er greint frá í DV en þannig á þetta ekki að vera og er síður en svo treystandi eins og dæmin sanna.

Merkingar margra framleiðenda á innihaldi fituefna í matvælum virðast frjálslegar og ruglingslegar. Kex og fleiri vörur eru hiklaust merktar í innihaldslýsingu með jurtaolíu, þó kexið innihaldi herta fitu. Ekki er heldur tilgreint hvort það sé blanda af jurtaolíum og tólg eða hvort notuð sé hlutfallslega hert olía, með eða án myndunar transfitu.

Það er skoðun Neytendasamtakanna, að framleiðendum skuli með reglugerð gert að merkja magn transfitu í öllum matvælum hið fyrsta og takmarkanir settar á hámark þeirra.

Einnig þarf að skýra hvers vegna sé merkt jurtaolía eða grænmetisolía (vegetable oil) í innihaldslýsingum þegar hörð fita er tiltekin í næringargildi vörunnar.

Neytendur vilja einfaldar og skýrar reglur og að þeim sé fylgt eftir.

Höfundur er matvælafræðingur