Ingibjörg Sólrún Gísladóttir
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir
Eftir Höllu Gunnarsdóttur halla@mbl.

Eftir Höllu Gunnarsdóttur

halla@mbl.is

MARGT varðandi sprengjuárásina á íslenska friðargæsluliða í Kabúl árið 2004 og aðdraganda hennar virðist vera óljóst í huga almennings, fjölmiðla og þingmanna hér á landi, auk þess sem málið vakir enn í huga margra í Afganistan og er talið óútkljáð. Þetta kom fram í máli Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur utanríkisráðherra á Alþingi í gær en hún hefur ákveðið að fela Guðrúnu Erlendsdóttur og Haraldi Henryssyni, fyrrverandi hæstaréttardómurum, að fara yfir atvik tengd árásinni. Tvímenningarnir eiga m.a. að skoða hvort utanríkisráðuneytið hafi rækt sínar skyldur og ábyrgð í málinu en með þessu móti Ingibjörg vill hreinsa andrúmsloftið hvað þetta mál varðar.

Hafa ekki fengið skaðabætur

Árni Þór Sigurðsson, þingmaður Vinstri grænna, beindi þeirri fyrirspurn til ráðherra í gær hvort fjölskyldum stúlku og konu sem létust í árásinni hefðu verið greiddar skaðabætur. „Við Íslendingar höfum illu heilli þvælst inn í átökin í Afganistan með þátttöku okkar í NATO og óskiljanlegum áhuga íslenskra ráðamanna á að taka þátt í stríðsleikjum stórvelda, sem halda að þau geti tekist á við ógnanir hryðjuverka með hefðbundnum stríðsrekstri,“ sagði Árni Þór og bætti við að afleiðingar þátttöku Íslands í stríðsrekstrinum hefðu orðið hvað áþreifanlegastar þegar sprengjuárásin var gerð en friðargæsluliðarnir voru þá í teppakaupaleiðangri.

Ingibjörg Sólrún tók undir að þetta hefði verið skelfilegur atburður en mótmælti því að rekja mætti árásina til starfsemi Íslendinga í Afganistan. „Þetta er auðvitað fráleitt að orða hlutina með þessum hætti vegna þess að þeir sem stóðu fyrir sjálfsmorðsárásinni bera auðvitað á henni fulla ábyrgð og ekki hægt að vísa þeirri ábyrgð á aðra,“ sagði Ingibjörg en í máli hennar kom jafnframt fram að ekki hefðu verið taldar forsendur til að greiða skaðabætur til þeirra sem bágt hlutu vegna árásarinnar. „Um var að ræða árás á starfsmenn okkar en ekki átök þeirra við aðila á vettvangi,“ sagði Ingibjörg.