Andris Piebalgs, sem er æðsti yfirmaður orkumála í framkvæmdastjórn Evrópusambandsins, undirstrikaði í vikunni nauðsyn þess að auka hlut kjarnorku í framleiðslu rafmagns til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda í Evrópu.

Andris Piebalgs, sem er æðsti yfirmaður orkumála í framkvæmdastjórn Evrópusambandsins, undirstrikaði í vikunni nauðsyn þess að auka hlut kjarnorku í framleiðslu rafmagns til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda í Evrópu. Sagði hann kjarnorkuna aukinheldur til þess fallna að gera álfuna óháðari síhækkandi olíuverði.

Piebalgs kom með þessar yfirlýsingar á fundi evrópskra kjarnorkuframleiðenda í Brussel. Hann lagði ríka áherslu á að styrkja þyrfti samstarf Evrópuríkja á sviði öryggismála kjarnorkuvera og meðhöndlunar geislavirks úrgangs.

„Við verðum að átta okkur á því að breytinga er þörf þegar fyrirséð er að olíuverð verði hátt til framtíðar,“ segir Piebalgs. „Samspil framboðs og eftirspurnar í dag leiðir óhjákvæmilega til hærra verðs.“

Piebalgs segir Evrópusambandið þurfa að búa sig undir umtalsverða fjárfestingu í nýjum orkuverum á næstu árum, eftir því sem orkunotkun eykst og gömul orkuver úreldast.

Telur Piebalgs ennfremur blikur á lofti um að Rússland, sem sér Evrópu fyrir stórum hluta olíu sinnar, hafi náð framleiðsluhámarki á síðustu árum. Héðan í frá geti því verið að olíuframleiðsla Rússlands dragist saman ár frá ári, sem hljóti að hvetja þjóðir Evrópu til að leita annarra leiða til að tryggja orkuöryggi sitt.

Nýútgefnar tölur sýna að útflutningur olíu frá Rússlandi dróst saman um eitt prósent á fyrsta fjórðungi þessa árs. Af því tilefni sagði Leóníd Fedún, varaforseti Lukoil, blaðamanni Wall Street Journal að hann óttaðist að sú þróun myndi halda áfram.

andresingi@24stundir.is