Seyðisfjörður | Barist var til síðasta blóðdropa í síðustu og sjöttu umferð Íslandsmeistaramótsins 2008 í snjókrossi á Fjarðarheiði um liðna helgi.

Seyðisfjörður | Barist var til síðasta blóðdropa í síðustu og sjöttu umferð Íslandsmeistaramótsins 2008 í snjókrossi á Fjarðarheiði um liðna helgi. Fór keppnin fram við skíðasvæðið í Stafdal og voru þeir bræður Steinþór og Reynir Hrafn Stefánssynir frá Egilsstöðum búnir að undirbúa stórglæsilega og erfiða braut, m.a. með liðsinni tveggja snjótroðara. Það rættist betur úr veðrinu en á horfðist í byrjun og var keppt í fimm flokkum. Talsverður fjöldi gesta fylgdist með sleðunum urra í brautinni og stundum gnast í tönnum þegar tæpt stóð.

Steinþór hreppti 2. sætið í Meistaraflokki og Reynir Hrafn 3. sætið. Íslandsmeistari í flokknum er Jónas Stefánsson.

Íslandsmeistari í kvennaflokki er Vilborg Daníelsdóttir, í unglingaflokki Bjarki Sigurðsson, í flokki 35 ára og eldri Gunnar Hákonarson og í sport-flokki Baldvin Þór Gunnarsson.

Riðlarnir í snjókrossinu hafa í vetur farið fram í Reykjavík, við Mývatn, á Ólafsfirði, Akureyri, Húsavík og nú síðast ofan Seyðisfjarðar.