Hallarekstur Landhelgisgæslan er ein þeirra stofnana sem farið hafa fram úr fjárheimildum fjárlaga ár eftir ár. Í fyrra fékk Gæslan 418 milljóna aukafjárveitingu en skilaði samt 136 milljóna króna rekstrarhalla.
Hallarekstur Landhelgisgæslan er ein þeirra stofnana sem farið hafa fram úr fjárheimildum fjárlaga ár eftir ár. Í fyrra fékk Gæslan 418 milljóna aukafjárveitingu en skilaði samt 136 milljóna króna rekstrarhalla. — Morgunblaðið/ÞÖK
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ekki er hægt að sjá af skýrslu Ríkisendurskoðunar að stofnunin telji að framfarir séu að verða í fjárreiðum ríkisstofnana. Ekki sé tekið á vandanum.

Eftir Egil Ólafsson

egol@mbl.is

RÍKISENDURSKOÐUN hvetur til þess að ákvæði um ábyrgð ráðuneyta á fjárreiðum ríkisstofnana verði gerð afdráttarlausari í gildandi lögum og reglum. Stofnunin telur að síendurtekin brot gegn fjárreiðulögum og reglugerð um framkvæmd fjárlaga og aðgerðaleysi ráðuneyta vegna þeirra sýni að ábyrgðin sé ekki að öllu leyti hjá forstöðumönnum stofnana.

Samkvæmt bráðabirgðauppgjöri Fjársýslu ríkisins frá febrúar 2008 var um fjórðungur fjárlagaliða með halla í árslok 2007. Heildarumfang hans, að framlagsliðum slepptum, var 5,8 milljarðar miðað við 3,4 milljarðar árið 2006. Hann hefur því aukist um 2,4 milljarða milli ára.

Tólf enn með mikinn halla

Meðal hlutverka Ríkisendurskoðunar er að annast eftirlit með framkvæmd fjárlaga. Stofnunin gefur árlega út skýrslu um framkvæmd fjárlaga. Í skýrslu um fjárlög 2006 fjallaði Ríkisendurskoðun sérstaklega um þrettán stofnanir sem farið höfðu verulega fram úr fjárheimildum. Í skýrslu sem stofnunin sendi frá sér í fyrradag um framkvæmd fjárlaga 2007 er aftur fjallað um þessar sömu stofnanir og vakin athygli á að tólf þessara stofnana séu enn með mikinn halla. Einungis fjárlagaliðurinn sendiráð Íslands var horfinn af listanum. Í fjáraukalögum 2007 var veitt 514 milljón króna viðbótarheimild til sendiráðanna og því stóð hann með 51 milljón króna afgang í árslok 2007.

Staða þessara tólf stofnana er sýnd í töflu sem fylgir fréttinni. Ríkisendurskoðun segir ljóst að ekki hafi verið tekið á rekstrarvanda þeirra. „Þetta er algjörlega ólíðandi. Ríkisendurskoðun telur að síendurtekin brot gegn fjárreiðulögum og reglugerð um framkvæmd fjárlaga og aðgerðaleysi ráðuneyta vegna þeirra sýni að ábyrgðin er ekki að öllu leyti hjá forstöðumönnum stofnana. Þá hvetur hún til þess að ákvæði um ábyrgð ráðuneyta á fjárreiðum ríkisstofnana verði gerð afdráttarlausari í gildandi lögum og reglum,“ segir í skýrslunni.

Ríkisendurskoðun nefnir einnig þrettán aðrar stofnanir sem allar fóru meira en 4% fram úr fjárheimildum sínum árið 2007. Þetta eru Raunvísindastofnun Háskólans, Rannsóknamiðstöð Íslands, Fjölbrautaskóli Vesturlands, Fjölbrautaskóli Norðurlands vestra, Fjölbrautaskólinn í Garðabæ, Framhaldsskólinn á Laugum, Fjölbrautaskóli Snæfellinga, Landhelgisgæsla Íslands, Heilsugæslan á höfuðborgarsvæðinu, Heilsugæslan Ólafsfirði, Heilbrigðisstofnunin Hólmavík, Heilbrigðisstofnun Þingeyinga og Náttúrufræðistofnun Íslands.

Framúrkeyrslan þessara stofnana nam samtals 847 milljónum króna í árslok 2007. Þó fengu níu þeirra samtals 557 milljónir í viðbótarfjárveitingar í fjáraukalögum 2007, þar af fékk Landhelgisgæsla Íslands 418 milljónir. Engu að síður var hallinn á Landhelgisgæslunni 136 milljónir í fyrra. Mestur var hann þó af Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins eða 373 milljónir, en hann nam 303 milljónum árið 2006. „Framúrkeyrsla þeirra er algjörlega ólíðandi og ljóst að grípa verður tafarlaust til viðeigandi ráðstafana,“ segir í skýrslu Ríkisendurskoðunar.

Afgangur umfram 4% verði felldur út úr fjárlögum

Það er ekki eingöngu framúrkeyrsla stofnana sem Ríkisendurskoðun gagnrýnir. Hún bendir einnig á að stöðugt færist í vöxt að stofnanir skili afgangi sem færist á milli fjárlagaára. Um 70% fjárlagaliða áttu ónýttar heimildir í árslok 2007 sem fluttar voru til næsta árs. Árið 2006 var þetta hlutfall 64%. Upphæðirnar sem fluttar eru milli fjárlagaára eru líka stöðugt að hækka.

„Hinn mikli tilflutningur fjárheimilda milli fjárlagaára [er] ekki bara til þess fallinn að veikja fjárlög sem stjórntæki heldur gefur einnig ranga mynd af raunverulegum rekstri ríkissjóðs,“ segir Ríkisendurskoðun í skýrslunni og vekur jafnframt athygli á að OECD hafi tekið undir þetta sjónarmið í nýrri skýrslu um íslensk efnahagsmál.

Ríkisendurskoðun bendir á að í reglugerð frá árinu 2004 um framkvæmd fjárlaga og ábyrgð á fjárreiðum ríkisstofnana sé sett sú viðmiðun að frávik frá fjárlögum eigi ekki að vera meiri en 4%. Stofnunin hvetur til þess að ónýttar fjárheimildir annarra fjárlagaliða umfram 4% viðmiðið, sem ekki stendur til að nýta að fullu á árinu 2008, verði felldar niður í lokafjárlögum 2007.

Tekið á málum hjá HR

Háskólinn á Akureyri sendi frá sér tilkynningu í gær vegna umfjöllunar um rekstur skólans. Þar segir að skólinn hafi verið rekinn með umtalsverðum halla á árunum 2002-2005, en umskipti hafi orðið á árinu 2006. „Það ár var rekstur háskólans nær hallalaus og á árinu 2007 var rekstur skólans í jafnvægi.“

Í hnotskurn
» Lög um fjárreiður ríkisins eru tíu ára um þessar mundir en ríkisendurskoðanda finnst mikið vanta upp á að farið sé eftir þeim.
» Fjárlög ársins 2007 námu tæplega 91% af heildarfjárheimildum þess en tæplega 10% skýrast af fluttum fjárheimildum frá fyrra ári og viðbót í fjáraukalögum.