Sverrir Arngrímsson, fv. kennari, fæddist á Akureyri 30. júní 1918. Hann lést á heimili sínu miðvikudaginn 9. apríl síðastliðinn. Foreldrar hans voru Guðný Árnadóttir, f. 11. 3. 1875, d. 12.4. 1946, og Arngrímur Einarsson, bóndi á Torfunesi í Kinn, Ljósavatni í Bárðardal og Gunnólfsvík á Langanesi, f. 5. 7. 1863, d. 22. 2. 1936.

Sverrir kvæntist Áslaugu Jóelsdóttir, f. í Reykjavík 16.12. 1921. Foreldrar hennar voru hjónin Margrét Ásmundsdóttir, f. 18.8. 1893, d. 14.10. 1963, og Jóel Bæringsson, f. 10.6. 1887, d. 26.2. 1961. Börn Áslaugar og Sverris eru: 1) Guðný, f. 6.2. 1944, maki Þór Erling Jónsson, f. 17.1. 1939, d. 16.9. 1986. Börn þeirra eru: a) Hildur, f. 5.4. 1961; b) Inga, f. 30.3. 1964, maki Þorsteinn Sigtryggsson, f. 29.9. 1964, börn þeirra eru Steinþór Freyr, f. 29.7. 1985, Marta Hlín, f. 19.11. 1995 og Guðný Lind, f. 19.4. 1998; c) Sverrir, f. 16.3. 1965, dóttir hans og Guðbjargar Kristínar Valdimarsdóttur, f. 7.8. 1964, er Margrét Rún, f. 5.4. 1998; d) Jón Kristinn, f. 4.10. 1971; e) Ingibjörg, f. 22.12. 1972, maki Brian Strauss Christensen, f. 21.7. 1974, börn þeirra Nicolas Strauss Christensen, f. 13.12. 1999 og Alexander Strauss Christensen, f. 21.9. 2002; f) Selma, f. 27.6. 1983; og g) Brynjar, f. 11.4. 1986. 2) Margrét, f. 27.7. 1945, maki Guðmundur Hafsteinn Friðgeirsson, f. 26.7. 1944. Börn þeirra eru: a) Rakel, f. 2.8. 1967, maki Þrándur Sigurðsson, f. 21.7. 1968, synir þeirra eru Aron Elís, f. 10.11. 1994, Sölvi, f. 7.9. 1999, og Elmar Logi, f. 4.2.2003; b) Guðmundur Friðgeir, f. 1.11. 1971, maki Inga Björg Ólafsdóttir, f. 17.2. 1969, börn þeirra eru Guðmundur Hafsteinn, f. 10.7. 2000 og Margrét Edda, f. 21.1. 2004; og c) Sverrir, f. 19.2. 1973, maki Ingibjörg Benediktsdóttir, f. 20.10. 1976, börn þeirra Brynhildur, f. 13.7. 2005, og Marteinn Aldar, f. 22.2. 2007. 3) Guðrún Vigdís, f. 23.10. 1948, maki Trausti Aðalsteinn Egilsson, f. 5.8. 1949. Börn þeirra eru: a) Egill, f. 26.11. 1969, d. 28.2. 1978; Áslaug, f. 4.9. 1972, maki Víðir Lárusson, f. 28.11. 1970, börn þeirra eru Rebekka, f. 11.7. 1994, Kara, f. 20.4. 1998 og Lárus, f. 12.7. 2001; c) Kristján, f. 26.8. 1975, maki Halla Dögg Káradóttir, f. 30.7. 1977, börn þeirra eru Egill, f. 19.2. 2000, Agata, f. 19.1. 2004 og Kristján Kári, f. 16.2. 2008; d) Guðrún Ósk, f. 9.3. 1981, maki Arinbjörn Marinósson, f. 28.4. 1981, dóttir þeirra er Guðrún Embla, f. 14.11. 2006; og e) Aðalsteinn, f. 24.3. 1986, sonur hans og Töru Óðinsdóttur, f. 27.8. 1987, er Trausti Egill, f. 16.1. 2007. 4) Jóel, f. 14.7. 1950. Sonur hans og Sigríðar Aðalbjörnsdóttur, f. 19.11. 1953, er Aðalbjörn, f. 11.6. 1974, maki Ester Birna Hansen, f. 31.5. 1977, börn þeirra eru Lára María, f. 18.11. 2004 og Ásta Sigríður, f. 2.8. 2007. Maki Guðfinna Kolbrún Guðnadóttir, f. 26.11. 1950. Börn þeirra eru: a) Hreiðar, f. 4.7. 1974; b) Áslaug Ýr, f. 2.1. 1977, maki Guðmundur Vignir Þorsteinsson, f. 14.5. 1975, dóttir þeirra er Tinna Ýr, f. 28.1. 2003; c) Hrólfur Mar, f. 18.6. 1986; og d) Jón Haukur, f. 18.6. 1986. 5) Sveinn Áki, f. 23.8. 1955, maki (slitu samvistum) Dóra Íris Gunnarsdóttir, f. 10.4. 1955. Börn þeirra eru Eva Björk, f. 21.2. 1978, sonur hennar og Sigurðar Bollasonar er Kristinn Þór, f. 14.11. 2000; og Þór, f. 17.5. 1980. 6) Arngrímur, f. 9.2. 1958, maki Steinþóra Guðmundsdóttir, f. 5.8. 1957, dætur þeirra eru Sigríður, f. 1.7. 1978, Soffía, f. 13.4. 1986, og Herdís, f. 11.2. 1993.

Útför Sverris fer fram frá Digraneskirkju í dag og hefst athöfnin klukkan 13.

Sverrir Arngrímsson, tengdafaðir minn, lést á heimili sínu aðfararnótt miðvikudagsins 9. apríl 2008. Hann fæddist á Akureyri 30. júní 1918 og var því tæplega níræður þegar hann lést.

Hann lauk búfræðikandídatsprófi frá landbúnaðarháskólanum í Kaupmannahöfn árið 1942.

Vegna stríðsins kemst hann ekki heim fyrr en með Esjunni sumarið 1945, þá kvæntur maður með eitt barn og annað á leiðinni. Í Kaupmannahöfn hafði hann stigið mesta gæfuspor lífs síns er hann kvæntist Áslaugu Jóelsdóttur í júlí 1943.

Nú höguðu örlögin því þannig að Sverrir fór ekki að vinna við það sem hann hafði menntað sig til. Hann fór að kenna við Gagnfræðaskóla Reykvíkinga (síðar Gagnfræðaskóla Vesturbæjar), en þar var þá Knútur bróðir hans skólastjóri.

Kennslan varð ævistarf hans, lengst af við Gagnfræðaskóla Vesturbæjar og síðan við Laugalækjarskóla.

Ég kynntist Sverri fyrst árið 1966 er ég fór að venja komur mínar á heimili hans og Áslaugar að Kópavogsbraut 51. Ég hafði þá kynnst Margréti dóttur þeirra.

Á þessum árum var Sverrir af fullum krafti í kennslunni og múraði hús í hjáverkum. Hann hafði náð mjög góðum tökum á múrverki enda með meira verksvit en gerist og gengur.

Mér fannst Sverrir strax mjög merkilegur maður. Hann var greinilega víðlesinn, kunni ógrynni af vísum og skil á ótrúlegustu hlutum. Það var alveg sama um hvað var rætt, alltaf var hann með á nótunum.

Eitt af áhugamálum Sverris var garðrækt. Þar nýttist honum námið í landbúnaðarháskólanum. Hann ræktaði fallegan garð við húsið sitt, sem hann byggði að mestu sjálfur. Sverrir og Áslaug voru ein af frumbyggjum Kópavogs.

Sverrir var mjög heimakær maður en naut þess að fara í hæfilega stutt ferðalög. Hann fór t.d. aldrei aftur til Danmerkur eftir að hann kom heim frá námi. Hann fór oft vestur á Patreksfjörð og Súgandafjörð meðan börnin hans bjuggu þar. Hann fór líka oft norður á æskustöðvarnar eftir að Jóel og Margrét fluttu þangað.

Mér er í fersku minni þegar hann fór með mér, Margréti og sonum okkar í Skor, en þangað hafði hann lengi langað til að koma. Ég efast um að betur klæddur maður hafi sést á þeim slóðum, því það var háttur Sverris að ganga alltaf með hálsbindi hvort sem hann var á ferðalögum, í garðvinnu eða við kennslu. Hann var líka einstakt snyrtimenni og lagði mikið upp úr því að vera þokkalega til fara.

Eftir að Sverrir hætti kennslu rúmlega sextugur leituðu barnabörnin oft til hans með námsbækurnar. Oftast var það stærðfræðin sem var að þvælast fyrir þeim. Gekk það stundum svo langt að hann keypti sjálfur bækur svo hann gæti sinnt þeim betur. Frægt var þegar kennarinn sagði við eitt barnabarn hans að það mætti hafa allt með sér í prófið nema afann.

Við leiðarlok hrannast auðvitað upp minningar frá liðnum árum. Ég gæti bætt miklu við en læt hér staðar numið.

Sverrir var afar vandaður maður, traustur og áreiðanlegur. Hann var maður sem allir hans nánustu og aðrir báru mikla virðingu fyrir.

Blessuð sé minning Sverris Arngrímssonar.

Guðmundur H. Friðgeirsson

Það kemur alltaf vor eftir harðan vetur og uppstytta eftir langa rigningartíð. Jafn augljóst fannst mér sem barni að afi yrði alltaf til. Svo kemst maður að því á fullorðinsárum að lífsins gangur á við um manns nánustu og líka afa.

Í mínum huga var Sverrir afi alltaf eins. Afi að undirbúa vorkomuna í garðinum, alls ekki of snemma og því síður of seint. Laufið varð að vera á réttum stað á réttum tíma; allt reiknað út með áralanga reynslu í garðrækt að baki. Hann lét snemmbúna vorsólina ekki blekkja sig eins og ég hef gert, enda dafnaði gróðurinn alla tíð í kringum hann og ömmu á Kópavogsbrautinni.

Afi var fræðimaður sem las sér til um allt sem hann vildi og þurfti að vita. Á unglingsárum mínum fannst mér mjög skrýtið að einhver keypti sér stærðfræðibækur sjálfviljugur til að glugga í en það gerði afi þegar hann bjó sig undir að taka okkur barnabörnin í aukatíma í stærðfræði. Hann tók þessa aukatíma skipulega fyrir, enda með margra ára kennslureynslu að baki, og ekki var um annað að ræða en að taka vel eftir. Við erum ófá sem getum þakkað honum greinargóðar lýsingar og útskýringar sem án efa hafa hjálpað okkur í náminu.

Afi átti virðingu okkar barnabarnanna vísa, við fengum þau skilaboð frá foreldrum okkar að ganga hljóðlega um þegar hann legði sig eftir matinn og að henda tyggjóinu áður en við kæmum í heimsókn. Aldrei man ég þó eftir að afi sjálfur bannaði okkur eitt eða neitt en hann gaf okkur skýr skilaboð um að umgangast gróðurinn með varfærni. Mér fannst garðurinn hjá ömmu og afa alveg óendanlega stór og fullur af felustöðum og spennandi hlutum. Í dag er eins og garðurinn hafi minnkað en minningarnar um stökkin ofan af kartöflugeymslunni vekja enn upp spennu.

Í hönd fer sá tími ársins sem var tíminn hans afa. Á sumrin byrjaði hann daginn snemma og skipulagði garðvinnuna eins og hverja aðra vinnu. Öll garðverkin vann hann sjálfur og alla tíð í skyrtu með axlabönd og bindi. Þannig mun ég minnast hans, um leið og ég leyfi laufinu í mínum garði að liggja í beðunum aðeins lengra fram á vorið.

Rakel.

Ástkær afi okkar er dáinn. Hans verður sárt saknað. Á Kópavogsbrautina til ömmu og afa var alltaf gott að koma og vel tekið á móti manni. Afi var svo vel lesinn og það var alltaf hægt að leita til hans ef maður þurfti á hjálp að halda. Afi hjálpaði okkur systkinunum í gegnum grunnskólann og síðar menntaskólann. Þar sat maður inni í herberginu hans eftir skóla og lærði um heim stærðfræðinnar, um íslenska tungu og síðast en ekki síst um danska tungu. Enda hafði hann búið í Danmörku í mörg ár. Við eigum honum mikið að þakka. Við eigum eftir að sakna þín óskaplega mikið, elsku afi. Þú átt eftir að fylgja okkur í hjartanu alla ævi.

Minning þín er ljós í lífi okkar. Hvíl í friði. Þín barnabörn,

Hildur, Inga, Sverrir,

Jón Kristinn, Ingibjörg, Selma og Brynjar.

Elsku afi.

Það er stutt á milli himins og jarðar, og eitt er víst að hugurinn dvelur hjá þér í dag. Ég ætla að kveðja þig með söknuði og nokkrum tárum, því þú kvaddir sáttur lífið. Eins og þú sagðir sjálfur; „ég er búinn að lifa í hamingjusöm 90 ár“. Maður er lánsamur maður ef maður getur kvatt lífið þannig og mér finnst ég lánsöm að hafa fengið að kveðja þig vel þegar ég var á landinu í febrúar. Við vissum eflaust bæði að þetta yrðu okkar síðustu samverustundir, ég met þær mikils. Þér lá mikið á hjarta að segja mér frá hvernig þú og amma kynntust í Danmörku. Þú sýndir mér á eldgömlu korti af Kaupmannahöfn hvar þið áttuð heima, hvert þið fluttuð og hvaða leið þú hefðir farið í skólann og því fylgdi greinargóð lýsing á hvernig andrúmsloftið var í Kaupmannahöfn á þessum tíma. Þú sagðir mér líka hvað þú hafir verið heppinn að kynnast fallegustu stúlkunni í allri Danmörku, henni Áslaugu ömmu, við vitum sem til þekkja að þar varstu heppinn. Þetta var ómetanleg stund sem ég mun geyma í hjartanu og aldrei að vita nema ég fari einn daginn á ykkar slóðir í Köben, enda ekki langt fyrir mig að fara.

Elsku afi minn, ég á endalaust af minningum sem ég gæti skrifað þér hér en ég var búin að skrifa til þín mína minningargrein. Þú tekur hana núna með þér í það ferðalag sem bíður þín. Ég ætla að halda mínu ferðalagi áfram hérna í lífinu með í farteskinu þína sögu og allt það sem þú kenndir mér. Ég ætla að fá að kveðja þig með sömu orðum og síðast þegar við hittumst. Við sjáumst afi.

Þín,

Sigríður Arngrímsdóttir (Silla).

Lánsemi er mér efst í huga er ég kveð nú látinn vin sem ég stalst til að kalla afa. Ég var svo lánsamur að kynnast Sverri fyrir 25 árum þegar ég tók saman við og stofnaði fjölskyldu með Ingu Þórsdóttur afabarni hans. Ég man það skýrt hversu hlýlegar móttökurnar hjá þeim Sverri og konu hans Áslaugu voru og hversu fljótt maður fann að maður væri alltaf innilega velkominn á heimili þeirra á Kópavogsbrautinni. Þessa yndislegu tilfinningu sem ég hafði ekki fundið síðan í barnæsku þegar ég leitaði í fang ömmu minnar og afa í Æsufellinu forðum.

Manni fannst svona eins og maður hefði fundið aftur staðinn þar sem tíminn stóð nánast kyrr, staðinn sem væri slitinn úr samhengi við ys og þys lífsins fyrir utan, stað þar sem maður gat raunverulega sest niður og manni fannst að ef að maður sæti kyrr og héldi niðri í sér andanum þá myndi jörðin bara bíða róleg á meðan. Manni leið alltaf svo vel þegar maður fór frá Kópavogsbrautinni. Það leið heldur ekki á löngu þar til maður var farinn að líta á þau sem sína eigin afa og ömmu í stað þeirra sem maður hafði misst. Ég óska þess að ég verði svo lánsamur að fá þess notið að afkomendur mínir fái að upplifa samskonar einstaka tilfinningu og ég hef orðið aðnjótandi í faðmi afa og ömmu.

Áslaugu, börnum, barnabörnum og barnabarnabörnum votta ég innilega samúð mína og vona að mér fyrirgefist lánið á afa.

Heiðruð sé minning þín Sverrir „afi minn“ og takk fyrir allt.

Þorsteinn V. Sigtryggsson.

Elskulegi langafi okkar er dáinn. Við viljum senda okkar hinstu kveðju með eftirfarandi ljóði.

Ég þarf að kveðja,

þarf að kveðja þig nú.

Ég þarf að kveðja,

elsku afi minn nú.

Ég þarf að kveðja,

góða ferð, elsku vinur.

Ég syng þér lítið kvæði hér,

ég syng svo sorgin hlífi mér

og söknuður víki

fyrir trú, von og ást,

að í faðmi guðsríkis

við á ný munum sjást.

Í okkur öllum

sem sitjum nú hér,

í okkur öllum

sem gengum með þér,

í okkur öllum

þú lifir nú áfram.

(Þorsteinn V. Sigtryggsson.)

Kveðja. Þín langafabörn,

Steinþór Freyr, Marta Hlín og Guðný Lind.