Þórhildur Gísladóttir fæddist á Brekku í Garði 12. september 1925. Hún lést á Sjúkrahúsi Suðurlands á Selfossi að morgni 8. apríl síðastliðins. Hún var dóttir hjónanna Gísla Matthíasar Sigurðssonar bónda, f. 3.7. 1895, d. 7.7. 1982, og Ingibjargar Þorgerðar Guðmundsdóttur húsfreyju, f. 2.8. 1898, d. 28.9. 1936. Systkini Þórhildar eru: Jóhanna Guðný f. 1920, d. 1923; Þórir Guðmundur f. 1922, d. 1923; Guðmundur Jóhann Sveinn f. 1923; Haraldur Helgi f. 1924, d.1974; Guðmundur Helgi f. 1926, d. 1998; Svava f. 1927; Alla Margrét f.1928; Ingibjörg f. 1930; Reynir f. 1931, d. 2005; Magnús f. 1932; Eyjólfur f. 1934; Ingibjörg Anna f. 1935 og óskírð stúlka f. 28.9. 1936, dáin sama dag.

Hinn 12.6. 1952 giftist Þórhildur Þorleifi Kjartani Kristmundssyni, f. 12.6. 1925, d. 4.6. 2000. Foreldrar hans voru Kristmundur Benjamín Þorleifsson, f. 27.12. 1895, d. 16.4. 1950, og Guðný Sigríður Kjartansdóttir, f. 29.6. 1902, d.19.4. 1984. Börn Þórhildar og Þorleifs Kjartans eru: 1) Guðný Sigríður, f. 1.11. 1952. Hún er gift Jóhanni Kristjáni Ragnarssyni f. 1948. Börn þeirra eru: Þorleifur Kjartan, f. 1974, sambýliskona Kristín Eva Sveinsdóttir, f. 1974. Dóttir þeirra er Viktoría Líf; Ragnar Kristján, f. 1980; Styrmir, f.1981. Hann er kvæntur Thelmu Rós Tómasdóttur, f. 1984; Jóhanna f. 1983. 2) Ingibjörg Þorgerður, f. 23.6. 1954. Dóttir hennar og Sigurðar Björgvinssonar, f. 1950, er: Sigríður Inga, f. 1971. Hún er gift Jóni Áka Leifssyni, f. 1966. Börn þeirra eru Hildur Björg, Leifur Már og Haukur Freyr. Börn Ingibjargar og Sólbjörns á Toftini, f. 1959, eru Magnús, f. 1988; sonur hans og Helgu Guðrúnar Ásgeirsdóttur er Bjarki Fannar; Þórhildur Helga f. 1990. 3) Drengur, f. 8.3. 1957, d. 9.3. 1957. 4.) Kristmundur Benjamín, f. 15.3. 1962. Hann er kvæntur Miroslöwu Helgu Þorleifsson, f. 1964. Dóttir Kristmundar og Guðrúnar Fríðar Heiðarsdóttur f. 1963 er Kristrún, f. 1986. Sambýlismaður hennar er Kristinn Þórisson. Börn Kristmundar og Miroslöwu eru: Sylvía Barbara, f. 1980. Sambýlismaður hennar er Mark Brumm. Dóttir þeirra er Roxan Alda. Þorleifur Kjartan, f. 1991. Anna Þórhildur, f. 1993. 5) Steinvör Valgerður, f. 24.9. 1963. Hún er gift Kristjóni Jónssyni, f. 1966. Dætur þeirra eru: Kristín Jóna f. 2004 og Þórhildur f. 2007. 6) Þórhildur Helga, f.14.9. 1965. Hún er gift Boga Theodor Ellertssyni, f. 1968. Sonur hennar og Kristgeirs Friðgeirssonar, f. 1963, er Kjartan Þór, f. 1985. Sambýliskona hans er Veronika Eberl, f. 1979. Sonur þeirra er Patrekur Jóhann. Börn Þórhildar Helgu og Boga eru Lúkas Björn, f. 1997, Kolfreyja Sól, f. 2000. Fóstursynir Þórhildar og Þorleifs Kjartans eru 1) Jón Helgi Ásmundsson, f. 4.1. 1953. Kona hans er Ásthildur Guðmundsdóttir, f. 1953. Dætur þeirra eru Júlíana Torfhildur, f. 1970. Hún er gift Guðna Sverrissyni f. 1966. Synir þeirra eru Daníel Aron, Sverrir Frans og Anton Örn. Þórhildur, f. 1975. Hennar maður er Hlynur Jóhannsson, f.1971. Börn þeirra eru Ámundi Georg, Sunneva Rós og Kató Hrafn. Stefanía Kristjana, f. 1977. Sonur hennar og Sveins Þ. Albertssonar f.1974 er Jón Helgi. Hrafnhildur, f. 1981. Dóttir hennar og Arngríms Vilhjálmssonar, f. 1979, er Ásthildur Erla. 2.) Hjörtur Kristmundsson, f. 27.7. 1960. Synir hans og Ástu Auðbjargar Ægisdóttur, f. 1965, eru Kjartan Svanur, f. 1986, og Brynjar Andri, f. 1991.

Þórhildur ólst uppi í Miðhúsum í Garði fram yfir fermingu. Eftir móðurmissinn bjó hún með elstu systkinum sínum hjá föður sínum og ömmu. Yngri börnin fóru í fóstur á heimilum í Garðinum. Eftir fermingu var hún í vist m.a. hjá Sigurveigu Halldórsdóttur frænku sinni. Þórhildur veiktist af berklum á unglingsaldri, var vistmaður á Vífilsstöðum, Kristnesi og Reykjalundi. Eftir að hún náði bata vann hún við ýmis störf í Reykjavík – aðallega á saumastofum. Stóran hluta ævi sinnar var hún þó frísk en sl. 20 ár tókst hún af hugrekki á við erfiðan lungnasjúkdóm sem var afleiðing af berklunum sem hún fékk sem ung stúlka. Árið 1952 giftist hún Þorleifi Kjartani. Í júní 1955 vígðist Þorleifur Kjartan sem sóknarprestur að Kolfreyjustað í Fáskrúðsfirði og fluttu þau austur í sama mánuði. Á Kolfreyjustað stóð heimili þeirra í tæp 40 ár. Þar vann Þórhildur merkileg störf. Hún ól upp börnin sín auk 2 fóstursona. Nokkur barnabarnanna dvöldust á Kolfreyjustað í lengri eða skemmri tíma. Kolfreyjustaður er kirkjustaður og þar var mjög gestkvæmt. Þórhildur stýrði þessu stóra heimili af stakri snilld. Hún hugsaði afar vel um kirkjuna sína – bauð öllum í kaffi að loknum messum og studdi eiginmann sinn í störfum hans. Þau voru mjög samhent og í þeirra tíð var Kolfreyjustaður byggður upp af miklum metnaði. Þórhildur sat í hreppsnefnd í Fáskrúðsfjarðarhreppi, var í stjórn Æðarræktarfélags Íslands og tók þátt í ýmsum öðrum félagsstörfum.

Árið 1994 lét Þorleifur Kjartan af prestsskap; fluttu þau þá heimili sitt til Hveragerðis. Eftir lát Þorleifs bjó Þórhildur ein á heimili sínu með góðri aðstoð barna sinna og barnabarna til dauðadags. Þórhildur var fagurkeri og hámenntuð þó hún væri ekki langskólagengin. Hún hélt andlegri reisn fram í andlátið.

Þórhildur verður jarðsungin frá Garðakirkju á Álftanesi í dag og hefst athöfnin klukkan 15.

Mamma okkar var af þeirri kynslóð er lifði tímana tvenna. Hún fæddist í torfbæ, fluttist á barnsaldri í Miðhús þar sem hún eyddi æskunni í stórum systkinahóp. Gaman var að heyra mömmu segja frá æskuárunum, börnin hjálpuðu til við búskapinn, skautuðu á Síkinu, renndu sér á hólunum og áttu margar ánægjustundir. Alltaf gaman, sagði mamma. Það var mikill missir fyrir stóru fjölskylduna þegar mamma var 11 ára og móðir þeirra lést af barnsförum. Móðurmissirinn hafði mjög mikil áhrif á mömmu og hún saknaði hennar alla tíð.

Yngstu börnin fóru í fóstur en þau eldri bjuggu hjá afa þar til hann veiktist af berklum en þá leystist heimilið upp. Mamma veiktist síðar sjálf af berklum og eyddi megninu af ungdómsárum sínum á Vífilsstöðum. Án efa var sérstakt andrúmsloft á Vífilsstöðum á þessum árum. Hvíti dauðinn alltumlykjandi en sjúklingarnir margir hverjir á besta aldri. Mamma sagði okkur sögur frá Vífilsstaðaárunum, sögur af skemmtiferðum út í hraun og kjarr, lautartúrum og róðri á vatninu. Mamma fékk lækningu þess tíma, höggningu, á Kristnesi. Fljótlega eftir endurhæfingu frá Reykjalundi kynntist hún pabba og hófu þau búskap.

Árið 1955 urðu kaflaskipti í lífi mömmu þegar pabbi hlaut brauð fyrir austan. Kolfreyjustað. Þar eyddu þau ævi sinni, voru samhent í starfi og barnahópurinn stækkaði. Það var gott að alast upp á Kolfreyjustað; Hraunagerði, Spararfjall, Halaklettur, Perlufjara, Prestagjögur, Staðarhöfn og Andey. Mamma og pabbi sinntu æðarvarpinu í Andey vel og þar áttum við ógleymanleg sumur. Mamma líkti því við sinfóníu að hlusta á náttúruna í Andey vakna í dögun og hafði mikið yndi af dvölinni þar. Hún var stolt af því að vera æðarbóndi og fullvinna vöruna því hún saumaði dýrindisdúnsængur.

Aldrei er mér kalt

undir þessum mjúka dúni

sem prestfrúin á Kolfreyjustað

vigtaði mér í sæng

eitt haust fyrir löngu.

Nei aldrei er mér kalt

og draumar mínir

eldskyggð næturfiðrildi

yfir Vattarnesskriðum

þó veturinn teikni

rósir á glugga.

Ég heyri í svefni

bjölluhljóm

utan úr eyju

finn blágresisilm

úr vaknandi móa.

Þó gamli presturinn

sé horfinn af brauðinu

og vigtin safni ryði

þá lifir hlýjan

og alúðin.

(Birgir Svan Símonarson.)

Mamma var mikil húsmóðir og vann störf sín af vandvirkni, hún var alltaf að enda heimilið stórt og gestkvæmt. Þrátt fyrir miklar annir gaf hún sér nægan tíma fyrir okkur börnin. Öll eigum við skemmtilegar og góðar minningar um samvistir með henni enda barngóð með endemum. Þegar starfsævi pabba og mömmu lauk fluttu þau í Hveragerði. Þar áttu þau góð ár saman og var alltaf gott að koma þangað. Pabbi lést árið 2000 og var söknuður mömmu mikill enda voru þau sérstaklega samrýmd og ástfangin hjón. Mamma bjó áfram í húsinu þeirra og fékk frábæra umönnun hjá góðum nágrönnum og Hveragerðisbæ og kunnum við þeim bestu þakkir fyrir. Hennar ósk var að fá að kveðja á meðan hún héldi enn sitt heimili og fékk hún þá ósk sína uppfyllta.

Elsku mamma, góða ferð og hafðu þökk fyrir allt og allt,

Þórhildur Helga, Steinvör, Kristmundur og Hjörtur.

Mamma mín hún Dídí Gísla sofnaði inn í sumarið hinn 8. apríl sl.

Hún var dökkhærð og brúneygð – fædd suður með sjó. Hún var augasteinn foreldra sinna, hjálpsöm og ábyrg lítil stúlka. Vinkonurnar í Garðinum; Inga á Sólbakka, Þóra í Króki og fleiri stelpur fóru á skauta á Síkinu, skruppu á hestbak, léku sér glaðar og hraustar.

Sorgin barði að dyrum. Amma Imba dó frá hópnum sínum. Mamma mín var harmi slegin 11 ára telpa.

Svo komu fleiri högg. Berklarnir eða hvíti dauðinn.

Heimilið leystist upp. Mamma fór á Vífilsstaði, þar vildu allir lifa en sumum auðnaðist það ekki. Baráttuþrek mömmu fleytti henni langt.

Hún fór á Kristnes og var höggvin eins og sagt var, upp á von og óvon. Höggningin bjargaði lífi hennar. Hún fór á Reykjalund í endurhæfingu og náði sér ótrúlega vel.

Og aftur blasti lífið við.

Hún kynntist Kjartani sem hét líka Þorleifur. Það varð beggja gæfa. Þau rugluðu saman reytum sínum, eignuðust tvær dætur og settust að á prestssetrinu Kolfreyjustað, fallegasta stað í heimi. Þar undu þau glöð við sitt og lífið var þeim gott. Mamma gekk í smiðju til Guðnýjar tengdamóður sinnar með heimilishald. Heimilið var stórt, margir áttu þar höfði sínu að halla og margir komu við. Því hafði mamma í mörg horn að líta. Samt gerði hún alltaf frekar lítið úr sínum hlut. Hún var mjög fjölhæf og taldi ekkert eftir sér. Hún sinnti börnum og búfénaði. Yndislegast fannst henni æðarvarpið þar sem aldrei þurfti að deyða dýr.

Börnunum fjölgaði, alls urðu þau sex, en nýfæddan son misstu þau. Það urðu eiginlega tvær kynslóðir barna. Þau eldri fóru að heiman í framhaldsnám, yngri börnin voru heima þannig að enn var nóg að gera. Fóstursynir voru tveir.

Á sumrin eftir 1973 leyfðu þau sér að ferðast pabbi og mamma og létu mér heimilið eftir við mismiklar vinsældir litlu systkina minna. Barnabörn fæddust og sum nutu uppeldis ömmu og afa fyrstu árin.

Að loknu ævistarfi fluttu þau í Hveragerði – og undu sér vel. Pabbi dó árið 2000 og hafði árin á undan ekki gengið heill til skógar. Mamma bjó áfram á heimili sínu til æviloka. Síðustu árin glímdi hún við erfiðan lungnasjúkdóm. Með sinni ótrúlegu seiglu og viljann að vopni átti hún góða daga. Hún stóð ekki ein. Hún átti marga að enda hafði hún unnið til þess. Hún hélt góðu sambandi við systkini sín og marga vini sína. Hún hafði ótrúlegt tengslanet og frábæra samskiptahæfileika. Mamma var afar falleg og glæsileg kona og bar veikindi yngri ára ekki utan á sér.

Allir afkomendurnir voru henni ástfólgnir. 12 þeirra sátu við dánarbeð hennar – og við vissum að hún fengi góða heimkomu.

Þessar ljóðlínur eftir Örn Arnarson kenndi hún mér sem barni þegar hún lýsti sorg sinni við móðurmissinn.

Þá vildi ég móðir mín,

að mildin þín,

svæfði mig svefninum langa...

Og kannski var það hún Imba amma sem sótti sál dóttur sinnar með honum Kjartani hennar.

Vertu kært kvödd mamma mín og hafðu þökk fyrir allt og allt.

Blessuð sé minning þín.

Þín dóttir

Ingibjörg Þorgerður (Imba).

Elsku amma.

Margar minningar koma í hugann á þessari stundu og erfitt er að henda reiður á þeim öllum. Allar stundirnar sem ég átti með þér á Kolfreyjustað þar sem við gerðum ýmislegt saman og þú kenndir mér svo margt. Við bökuðum, elduðum, lásum, spjölluðum saman ásamt því að vinna hin ýmsu verk sem til féllu á heimilinu. Þú sast aldrei auðum höndum en alltaf hafðir þú tíma fyrir að spjalla við litlu forvitnu stúlkuna sem var á vappi í kringum þig.

Eitt af því sem mér fannst skemmtilegt að gera með þér var að taka á móti gestum á Kolfreyjustað. Þú varst mjög gestrisin og gerðir allt til að gestum liði vel hjá þér og tókst það ætíð. Þá fékk ég að ganga um beina og aðstoða þig. Það fannst mér vera toppurinn á tilveru minni.

Eftir að ég átti börnin mín þá hringdir þú reglulega til að fylgjast með okkur og fá fréttir af okkur, hvernig börnin hefðu það, hvort þau döfnuðu ekki vel. Ég er mjög glöð með síðustu samverustund okkar þar sem þú hittir litla drenginn minn en þú hafðir fylgst með honum reglulega frá því hann fæddist.

Elsku amma mín ég veit að nú ertu komin til afa og að nú líður ykkur vel saman aftur á ný.

Takk fyrir allt sem þú kenndir mér, takk fyrir allt sem þú sagðir mér og takk fyrir að vera amma mín.

Þín,

Þórhildur.

Elsku amma. Við viljum þakka þér allar yndislegu minningarnar sem við eigum um þig. Alltaf var heimilið þitt opið fyrir okkur og fyrir sum okkar var það eins og okkar annað heimili. Þú varst alltaf með allt á hreinu um fjölskylduna þína, hafðir alltaf fréttir að færa þegar við hittumst, eða heyrðum í þér, barnabörnin og langömmubörnin voru svo greinilega í uppáhaldi hjá þér. Þú varst alltaf svo fín og flott og passaðir vel að allt í kringum þig væri hreint og fínt. Það verður erfitt að keyra fram hjá Hveragerði núna og ekki geta komið við í Kambahrauninu og sjá þig sitjandi við eldhúsborðið með gleraugun á nefinu að lesa Moggann og heyra góðlátlegt malið í vélinni þinni, að fá ekki að sjá brosið sem færðist yfir andlitið á þér þegar við komum við, sérstaklega þegar Viktoría Líf, langömmubarnið þitt, var með í för. Minningarnar eru margar sem hellast yfir okkur núna, eins og þegar þú komst til okkar út í eyjar til að halda með okkur jól, þegar þú bjóst hjá okkur á Seljaveginum meðan afi var veikur og var á Landspítalanum, við dáðumst að því hvað þú varst sterk þá, þú varst hans, og okkar, stoð og stytta.

Í vetur gat ég sagt með sanni:

Svart er yfir þessu ranni.

Sérhvert gleðibros í banni,

blasir næturauðnin við.

Drottinn, þá er döprum manni

dýrsta gjöfin sólskinið!

(Stefán frá Hvítadal)

Elsku amma, takk fyrir allt og allt, við elskum þig.

Þín ömmubörn

Kjartan, Ragnar, Styrmir

og Jóhanna.

Elsku amma Dídí, mig langaði í fáeinum orðum að fá að kveðja þig. Ég kynntist þér fljótlega eftir að ég tók saman við barnabarn þitt Kjartan og urðum við fljótt góðar vinkonur.

Ég hafði alltaf gaman af heimsóknum mínum í Kambahraunið, þú tókst alltaf vel á móti okkur og þú varðst alltaf mjög glöð þegar Viktoría Líf var með í för, litla langömmustelpan sem þér þótti svo vænt um.

Þú hafðir frá miklu að segja og fékk ég að heyra mikið frá Kolfreyjustað sem þér leið afskaplega vel á.

Einnig töluðum við oft saman í síma og fékk ég iðulega þá spurningu hvort hún Viktoría Líf væri ekki örugglega enn með fallega rauða hárið sitt.

Ég fékk einnig þann heiður að kynnast sr. Þorleifi manninum þínum sem dó árið 2000. Ég gleymi aldrei fyrsta skiptinu sem ég hitti hann, hann sat í stól í stofunni í Kambahrauni og stóð upp til að heilsa mér og ég hreinlega hélt að hann ætlaði aldrei að hætta að standa upp, svona stóran mann hafði ég aldrei séð áður.

Ég kveð þig með söknuði og þakka fyrir þær stundir sem við áttum saman.

Kristín Eva.

Sæmdarkona er fallin frá, lífsreynd og hreinskiptin. Þórhildur eða Dídí eins og við kölluðum hana var ósérhlífin og einstaklega trúföst kona. Við minnumst hennar með kærleik í hjarta. Við töluðum saman oft í viku í síma, Dídí vildi fá fréttir af fjölskyldu og vinum. Við minnumst ferðanna til Hveragerðis, hvíti skeljasandurinn í skottinu frá Garðskaga en skeljasandurinn heillaði Dídí frá barnæsku. Hvergi er hægt að fá svona fallegan og hvítan sand, sagði hún. Þegar hún bjó á Kolfreyjustað sendum við henni sand með báti. Mikið var gaman að geta gert henni greiða, hún var alltaf þakklát og lét í ljós tilfinningar sem merluðu í hjarta hennar, sennilega bernskuminningar úr Garðinum.

Á þriðjudags- og laugardagskvöldum heyrum við hjónin og sjáum systur okkar í Kaliforníu í gegnum tölvuna. Á fallegu þriðjudagskvöldi síðasta sumar kom Dídí við í Garðinum ásamt Helgu dóttur sinni og hitti systkini sín í Flösinni á Garðskagavita, stað sem henni þótti vænt um. Glatt var á hjalla og tilfinningaþrungin stund ríkti þegar hún kom við í Kríulandinu og sá Öllu og Svövu systur sínar í tölvunni, hún gat talað við þær, kvöldstund sem aldrei gleymist, þvílík tækni. Mæt og merkileg kona er farin, hetja sem unni sínum. Elsku systir, við þökkum liðnar stundir, þú lifir í minningunni. Alla og Svava í Californiu biðja fyrir samúðarkveðjur til aðstandenda, einnig Guðrún Eyjólfsdóttir í Pennsylvaníu.

Hvíl þú í friði, kristna sál.

Eyjólfur Gíslason og fjölskylda.

Byrði betri

berr-at maðr brautu at

en sé mannvit mikit;

(Úr Hávamálum)

Þórhildur Gísladóttir, dyggur vinur og félagi, er horfin af sjónarsviðinu, en ekki úr huga og hjarta okkar sem áttum með henni samleið á langri vegferð.

Við Þórhildur áttum báðar bernsku okkar við ómælda víðáttu hafs og himins sem mættust við sjóndeildarhring í órafjarlægð frá lágri strönd, sitthvorumegin við flóann sem geymdi lífsbjörgina.

Þórhildur var þriðja elst fjórtán barna foreldra sinna og fyrsta stúlkan í hópnum. Ég var elst fimmtán barna foreldra minna. Aldrei hvarf mér ættingi á æskuárum, en Þórhildur og stóri systkinahópurinn hennar missti móður sína, þá öll innan við fermingu. Elstu börnin þá þrettán, tólf og ellefu ára. Þórhildur ellefu ára. Hópurinn dreifðist á bæina í kring. Í Garðinum bjó gott fólk. Elstu börnin þrjú fengu að vera hjá föður sínum, honum til halds og trausts, enda dugleg og sjálfbjarga.

Þetta var á þeim árum þegar berklarnir geisuðu um landið og lögðu að velli ómældan fjölda æskufólks og aldraðra. Gísli, faðir Þórhildar, reyndist sýktur og var sendur á hæli þar sem hann var næstu tvo tugi ára eða þangað til lyfin komu. En það var ekki bara Gísli sem var lagður inn. Nei, börnin hans tíndust þangað eitt og eitt og voru ýmist úti eða inni.

Þessu undarlega lífi kynntust allir sem lentu á hælinu. Sundraði systkinahópurinn hennar Þórhildar háði sína hörðu baráttu, en allir sem lifðu komust vel til manns. Þórhildur barðist lengst og harðast. Hennar hlutverk var líka að halda hópnum saman. Öll tengdust þau henni og sú taug slitnaði aldrei, hversu dreifð sem þau voru.

Á hælisárunum stóð Þórhildur í fremstu víglínu í baráttu fyrir betra lífi berklasjúklinga. Hún fyllti þann hóp sem stofnaði SÍBS. Þetta var glaður, bjartsýnn, óbugaður og sterkur hópur sem hrósaði sigri í harðri baráttu þegar Reykjalundur reis frá grunni. Þar áttum við Þórhildur athvarf og endurhæfingu vísa þegar í nauðir rak.

En Þórhildur átti fleiri líf. Þegar Reykjalundur var risinn og Þórhildur búin að ganga í gegn um rifjaskurð og lungnapressu, svokallaða höggningu, giftist hún séra Þorleifi Kristmundssyni, prófasti á Kolfreyjustað við Fáskrúðsfjörð. Þar nutu þau hjónin lífsins í ríkum mæli. „Engin börn Þórhildur mín, engin börn, of mikið álag, of mikil áhætta.“ Þórhildur brosti þegar hún vitnaði í þessi orð læknanna sem höfðu annast hana. Þau hjónin eignuðust fimm börn, glæsileg og vel af Guði gerð. Auk þess ólu þau upp tvö til viðbótar auk allra barnanna sem áttu hjónin að þegar nauðsyn krafði.

Þórhildur hafði meðal annars lært kjólasaum og bjó að því þegar börnin komu. Fatnaður þeirra bar af og allt heimagert. Það hráefni sem barst henni til matargerðar var vel nýtt og veislukostur gjarnan á borðum hjá prófastsfrúnni. Allar stundir á Kolfreyjustað voru Þórhildi ómetanlegar. Þar komst hún í snertingu við lífið sjálft. Þórhildur elskaði lífið í allri sinni mynd. „Sjáðu,“ sagði hún og sýndi mér myndir úr æðarvarpinu. „Við hjónin þurftum aldrei að fórna lífi eða lóga dýri. Bara hlúa að lífinu og njóta þess.“

Þagalt ok hugalt

skyldi þjóðans barn

ok vígdjarft vera;

glaðr ok reifr

skyli gumna hverr,

uns sinn bíðr bana.

(Úr Hávamálum)

Ég kveð Þórhildi vinkonu mína með virðingu og þakklæti og sendi öllum afkomendum hennar einlægar samúðarkveðjur.

Rannveig Löve.

Sumar manneskjur hafa meiri áhrif á mann en aðrir. Amma mín, Þórhildur Gísladóttir, var ein þeirra. Hún var mér afar kær og ég á eftir að sakna hennar mikið.

Amma var lengst af prestsfrú á Kolfreyjustað þar sem afi minn heitinn, Þorleifur Kjartan Kristmundsson, var prestur. Hún sinnti með sóma stóru heimili þar sem ætíð var líf og fjör. Á sumrin var mikill gestagangur hjá þeim hjónum. Þegar hvert rúm var skipað var tjaldað úti í garði og við krakkarnir sváfum þar. Án fyrirhafnar voru töfraðar fram dýrindisveitingar og oft var þéttsetinn bekkurinn við matarborðið. Í minningunni var alltaf sól og gott veður á Kolfreyjustað, enda hvergi betra að vera en þar.

Amma var einkar glæsileg kona, hún minnti einna helst á kvikmyndastjörnu svo fögur var hún. Þegar ég var lítil var ég dauðhrædd um að allir piparsveinarnir í sveitinni væru skotnir í henni, því þeir gáfu henni oft fallegar gjafir. Amma hló þegar ég bar þessar áhyggur mínar undir hana, enda hvarflaði slík vitleysa ekki að henni.

Amma var hæversk, einstaklega góðhjörtuð og vildi öllum vel. Hún var mjög barngóð og hændust börn að henni. Ég man að amma skammaði mig aldrei, ekki einu sinni ein áramótin þegar ég missti logandi stjörnuljós á stofuteppið svo það kom brunagat á það. Amma fann bara mottu og setti yfir brunagatið.

Æska hennar sjálfrar var hamingjurík framan af þrátt fyrir fátækt en þegar amma var aðeins 11 ára missti hún móður sína. Það hafði mikil áhrif á hana og hún talaði oft um hversu mikið áfall það var. Æskuheimili hennar leystist upp og við tók tímabil erfiðleika en amma var þó alltaf bjartsýn og gerði gott úr erfiðum aðstæðum. Amma veiktist ung af berklum en náði sér á undraverðan hátt eftir margra ára veikindi. Hún gekk í gegnum erfiðar læknismeðferðir en sagði sjálf að hún hefði gert allt til að ná heilsu á ný. Það var ekki að sjá á þessari glæsilegu konu að hún hefði misst heilsuna ung að árum. Hún var ávallt teinrétt og tignarleg. Þau afi kynntust síðan þegar hún var orðin 25 ára. Þau sátu bak í bak á dansleik og tóku tal saman. Það endaði með hamingjusömu hjónabandi.

Þegar afi lét af prestskap fluttu þau amma til Hveragerðis og bjuggu sér fallegt heimili. Afi lést fyrir tæpum átta árum og amma bjó ein eftir það. Hún sýndi mikinn dugnað og æðruleysi í eigin veikindum, gafst aldrei upp þótt á móti blési.

Ég kveð ömmu mína með sorg í hjarta. Blessuð sé minning hennar.

Ég sendi þér kæra kveðju,

nú komin er lífsins nótt.

Þig umvefji blessun og bænir,

ég bið að þú sofir rótt.

Þó svíði sorg mitt hjarta

þá sælt er að vita af því

þú laus ert úr veikinda viðjum,

þín veröld er björt á ný.

Ég þakka þau ár sem ég átti

þá auðnu að hafa þig hér.

Og það er svo margs að minnast

svo margt sem um hug minn fer.

Þó þú sért horfinn úr heimi,

ég hitti þig ekki um hríð,

þín minning er ljós sem lifir

og lýsir um ókomna tíð.

(Þórunn Sig.)

Sigríður Inga Sigurðardóttir.