Eftir Hildi Eddu Einarsdóttur hilduredda@24stundir.is Fyrsta heimsmeistaramótið í íslenskri glímu verður haldið í Danmörku dagana 10. og 11. ágúst, og hafa keppendur frá 10 þjóðlöndum í þremur heimsálfum þegar boðað þátttöku sína.

Eftir Hildi Eddu Einarsdóttur

hilduredda@24stundir.is

Fyrsta heimsmeistaramótið í íslenskri glímu verður haldið í Danmörku dagana 10. og 11. ágúst, og hafa keppendur frá 10 þjóðlöndum í þremur heimsálfum þegar boðað þátttöku sína. Auk Íslands taka þátt glímukappar frá Kamerún, Danmörku, Hollandi, Kirgistan, Níger, Rússlandi, Svíþjóð, Úsbekistan og Þýskalandi.

Lárus Kjartansson, framkvæmdastjóri Glímusambands Íslands, segist eiga von á harðri keppni enda frambærilegir glímumenn frá öllum löndunum. „Sérstaklega á ég von á að Rússarnir og Úsbekarnir eigi eftir að reynast okkur erfiðir andstæðingar enda firnasterkir glímukappar. Þeir eru þjálfaðir í beltaglímu sem er ekki ósvipuð íslensku glímunni, og hið sama gildir um keppendur frá hinum löndunum. Á Norðurlöndum er þó slatti af fólki sem hefur æft íslenska glímu frá grunni og náð góðum tökum á henni,“ segir hann og bætir því við að stefnan sé að senda þrjá íslenska keppendur í hverjum þyngdarflokki hjá báðum kynjum.

Stefnt á toppinn

Í kvennaflokki er keppt í þremur þyngdarflokkum og í karlaflokki sex, þannig að í heildina má gera ráð fyrir að 27 keppendur fari til Danmerkur og keppi fyrir Íslands hönd. „Það er ekki komið á hreint hverjir það verða sem fara enda er hér mikill fjöldi sterkra glímukappa í öllum flokkum. Vitaskuld stefnum við að því að ná bestum árangri allra þjóða á þessu fyrsta heimsmeistaramóti í íslenskri glímu, en það er þó alls ekkert gefið í þeim efnum,“ segir hann.

Glíman fari sem víðast

Draumurinn er að sjálfsögðu sá að íslenska glíman nái fótfestu í sem allra flestum löndum. „Við höfum verið að kynna hana í nokkrum Evrópulöndum og fengið góðar viðtökur. Peningar eru auðvitað af skornum skammti en við stefnum að því að reyna að fara sem víðast.“
Í hnotskurn
Glíman hefur lifað með þjóðinni allt frá þjóðveldisöld. Á vef Glímusambandsins kemur fram að hér hafi runnið saman fangbrögð ættuð frá Norðurlöndum og Bretlandseyjum. Glíman telst til þjóðlegra fangbragða en af þeim eru þekktar um 150 tegundir.