Huga þarf reglulega að öryggi og ástandi leiktækja, ekki síst nú þegar sumarið er á næsta leiti og börn leika sér í auknum mæli utandyra. Oft þarf ekki að gera mikið til að draga úr hættu á slysum.

Eftir Einar Jónsson

einarj@24stundir.is

Samhliða því að snjór hverfur af götum og veturinn hörfar undan vorinu fjölgar börnum að leik jafnt í görðum sem á almennum leiksvæðum. Þó að útivera og hreyfing geri börnum almennt gott er mikilvægt að huga að örygginu því annars er hætt við að illa fari. Sigrún A. Þorsteinsdóttir, sviðsstjóri slysavarnasviðs Slysavarnafélagsins Landsbjargar, segir að slys sem tengjast trampólínum séu algeng sem og slys sem tengjast reiðhjólum, hjólabrettum, línuskautum og öðrum slíkum tækjum. Hún mælir með því að fólk fari eftir leiðbeiningum framleiðenda og noti þann öryggisbúnað sem mælt er með.

Öryggisnetið mikilvægt

„Það þarf að vera hlíf yfir gormunum og öryggisnet í kringum trampólínið. Maður kaupir yfirleitt öryggisnetið sér og því miður eru margir sem spara sér þann kostnað,“ segir Sigrún. „Það skiptir mjög miklu máli að vera ekki með trampólínið nálægt hlutum sem krakkar geta dottið á svo sem húsveggjum eða stórum steinum. Maður verður líka að reyna að hafa stjórn á því hversu margir nota trampólínið í einu. Það verða svo mörg slys þegar margir eru að hoppa í einu,“ segir Sigrún.

Koma misvel undan vetri

Slysavarnafélagið gerir reglulega úttekt á opinberum leiksvæðum. „Það er mjög mismunandi hvernig leiksvæði koma undan vetri. Undirlagið er orðið mjög dapurlegt á mörgum stöðum og mikið af stórum steinum, grjóti, flöskum og rusli á leiksvæðinu sem krakkar geta meitt sig á,“ segir Sigrún og bætir við að leiktæki séu oft illa leikin eftir veturinn. „Maður sér jafnvel nagla standa niður úr húsum sem standa á leiksvæðum. Oft eru þetta hlutir sem þarf ekki mikið til að lagfæra,“ segir Sigrún að lokum.
Í hnotskurn
Algengast er að slys á börnum á aldrinum 1-4 ára eigi sér stað inni á heimilinu. Eldri börn slasa sig aftur á móti frekar utandyra og þá gjarnan í leikjum og íþróttum.