Sigþór Sigurðsson
Sigþór Sigurðsson
Það er alltaf á ábyrgð Vegagerðarinnar hvernig ástandið er á vegum úti, segir Sigþór Sigurðsson: "Hverjum dettur í hug að nýr, óreyndur verktaki geti unnið flókin verkefni mörgum tugum prósentum ódýrar en reyndir, virtir og fjárhagslega sjálfstæðir verktakar?"

ENN einu sinni er reynt að gera verktaka tortryggilega og að blórabögglum fyrir þá sem raunverulega bera ábyrgðina á öryggismálum á vegum úti. Hér er átt við endurteknar árásir ráðherra og embættismanna í sjónvarpi á verktaka þar sem þeim er kennt með beinum eða óbeinum hætti um alvarleg bílslys sem orðið hafa við verklegar framkvæmdir að undanförnu. Hafa skal staðreyndir á hreinu áður en farið er með fleipur í fjölmiðlum til þess eins að koma ábyrgð á aðra en þá sem raunverulega bera hana. Það er Vegagerðin sem ber ábyrgð á uppbyggingu, viðhaldi og rekstri vegakerfisins. Vegagerðin er stofnun og skal starfa í almannaþágu, er á fjárlögum frá Alþingi og starfar á ábyrgð samgönguráðherra.

Vegagerðin ber ábyrgð á útboðum verklegra framkvæmda, velur sér verktaka, setur þeim reglurnar, framfylgir eftirliti og greiðir fyrir unnin verk. Það er alltaf á ábyrgð Vegagerðarinnar hvernig ástandið er á vegum úti, hvort sem er á framkvæmdasvæðum eða annars staðar. Að skjóta sér undan ábyrgð á Reykjanesbraut vegna slysa sem þar hafa orðið er aumt. Í annað sinn á nokkrum misserum kemur sjálfur samgönguráðherra fram og reynir að koma sök á verktaka vegna alvarlegra slysa á þessum vegi. Þetta getur bara ekki verið rétt. Um rúmlega fjögurra mánaða skeið hefur enginn verktaki verið að störfum á Reykjanesbraut á Strandaheiði. Samgönguráðherra kennir verktökum um að þeir hafi tafið framgang útboðs á verkinu eftir gjaldþrot fyrri verktaka. Ekki fyrir löngu kenndi samgönguráðherra (að vísu ekki sami maður) verktaka óbeint um banaslys sem varð á öðrum kafla vegarins. Merkingar voru þó í samræmi við kröfur Vegagerðarinnar og eftir þeirra leiðbeiningum og síðar kom í ljós að ökumaður hafði verið ölvaður. Bæði þessi mál eru hneyksli. Ráðherrar eiga ekki að haga sér svona í fjölmiðlum.

Hver ber ábyrgð ?

Hver bar til dæmis ábyrgð á því að verk upp á rúman einn milljarð var sett í hendurnar á nánast gjaldþrota verktaka sem þá þegar var með annað verkefni fyrir Vegagerðina mörgum mánuðum á eftir áætlun? Hvernig getur hagdeild Vegagerðarinnar gefið verktaka gæðastimpil og metið hann hæfan í stórt verkefni eins og Reykjanesbraut þegar vitað var að á þeim tíma sem samið var við hann var eigið fé uppurið og skuldir gríðarlegar? Samkvæmt opinberum gögnum var eigið fé verktakans á Reykjanesbraut 10 milljónir þegar samið var um verk upp á 1,1 milljarð.

Hver ber ábyrgð á því að aftur og aftur er samið við hvaða verktaka sem er, ef ekki nánast gjaldþrota, þá helst nýja ævintýramenn, eingöngu vegna þess að þeir eru lægstbjóðendur? Hverjum dettur í hug að nýr, óreyndur verktaki geti unnið flókin verkefni mörgum tugum prósentum ódýrar en reyndir, virtir og fjárhagslega sjálfstæðir verktakar?

Hver ber ábyrgð á því hjá Vegagerðinni að hafa öryggismál (þar með talið vegmerkingarnar) inni í útboðspakka sínum sem samtölu, þar sem bjóða skal eina heildarupphæð? Hvað gerir verktaki sem boðið hefur tugum prósentum undir áætluðum kostnaði? Hann sparar og reynir að gera hvern verkþátt á eins ódýran hátt og mögulegt er, þar með talið að merkja vinnusvæðið. Hver ber þá ábyrgð á að framfylgja því að merkingarnar séu í lagi?

Ábyrgðin liggur hjá Vegagerðinni.

Hvernig dettur embættismönnum í hug að saka verktaka um að tefja fyrir verkinu á Reykjanesbraut? Þess var krafist að farið væri að lögum og verkið boðið út að nýju. Það hefur ekkert með það að gera hvernig ástandið á Reykjanesbrautinni hefur verið í vetur. Jafnvel þó verkið hefði verið í fullum gangi hefði til dæmis ekki verið búið að koma fjórum akreinum í gagnið á neinum þeirra vegarkafla sem eftir eru, einfaldlega vegna þess að það er ekki hægt að leggja malbik í svona verkefni yfir vetrarmánuðina vegna veðurs.

Öryggismál á Reykjanesbrautinni frá gjaldþroti verktakans og fram til dagsins í dag hefur ekkert með það að gera að Vegagerðin hafi heimildir til að fara út í samninga við verktaka án útboða. Öryggismálin og vegmerkingarnar hafa einfaldlega verið á ábyrgð Vegagerðarinnar frá því í desember og eru öllum sem þar hafa komið að máli til vansa. Að vísa til neyðarástands og krefjast þess að Vegagerðin hafi heimildir til að senda sinn eigin vinnuflokk til að klára verkefni er út í hött. Vegagerðin hefur enga burði til að vinna verk á borð við þetta. Nær hefði verið að senda vinnuflokk Vegagerðarinnar til að bæta ástand öryggismála á veginum.

Komið hefur fram að það hafi tekið marga mánuði að gera ný útboðsgögn. Það getur ekki verið. Útboðsgögnin voru algjörlega ófullnægjandi, aðeins klippt og skorið af sömu gögnum og notuð voru tveimur árum áður.

Ráðherra boðar harðari ákvæði um merkingar vinnusvæða og að hart verði gengið fram gegn verktökum. Það er gott mál. Framfylgjum ýtrustu kröfum um öryggismál og vegmerkingar. Ein leið til þess er að tryggja sér bestu verktaka sem fáanlegir eru til verksins með auknum kröfum til eiginfjárstöðu, verkreynslu, gæðakerfis, öryggisstjórnunar og stærðar.

Við höfum verk að vinna.

Höfundur er framkvæmdastjóri Hlaðbæjar-Colas hf.