Sturla Böðvarsson og Páll Sigurjónsson: "Í MORGUNBLAÐINU mánudaginn 14. apríl sl. er fjallað um mótmæli vegna fyrirhugaðrar ferjuleiðar milli Vestmannaeyja og Landeyjahafnar við Bakkafjöru. Af því tilefni var rætt við nokkra þingmenn Suðurkjördæmis."

Í MORGUNBLAÐINU mánudaginn 14. apríl sl. er fjallað um mótmæli vegna fyrirhugaðrar ferjuleiðar milli Vestmannaeyja og Landeyjahafnar við Bakkafjöru. Af því tilefni var rætt við nokkra þingmenn Suðurkjördæmis. Í viðtali við Árna Johnsen alþingismann sakar þingmaðurinn Vegagerðina og þá sérstaklega aðstoðarvegamálastjóra um vond og ófagleg vinnubrögð við undirbúning að ákvarðanatöku vegna hafnar í Bakkafjöru. Vegna þessara ómaklegu og óskiljanlegu ummæla um starfsmann Vegagerðarinnar og vegna aðkomu okkar undirritaðra að undirbúningi ferjuhafnar við Bakkafjöru teljum við rétt og skylt að taka eftirfarandi fram. Árið 2004 skipaði ég undirritaður þáverandi samgönguráðherra starfshóp til að fjalla um samgöngur við Vestmannaeyjar í samráði við þingmenn Suðurkjördæmis. Í hópnum, sem skilaði lokaskýrslu 2006, áttu sæti undirritaður Páll Sigurjónsson verkfræðingur sem jafnframt var formaður hópsins, Bergur Elías Ágústsson, þáverandi bæjarstjóri í Vestmannaeyjum, Ingi Sigurðsson, fyrrverandi bæjarstjóri í Vestmannaeyjum, Páll Zóphoníasson, fyrrverandi bæjarstjóri í Vestmannaeyjum, Gunnar Gunnarsson, aðstoðarvegamálastjóri og Jón E. Malmquist, lögfræðingur í samgönguráðuneytinu.

Starfshópnum var falið að kanna og meta eftirfarandi þrjá meginkosti til þess að bæta samgöngur við Vestmannaeyjar: 1. Endurbættar ferjusiglingar með Herjólfi milli Vestmannaeyja og Þorlákshafnar auk flugsamgangna. 2. Byggingu ferjuhafnar og rekstur ferju á siglingaleiðinni milli Bakkafjöru og Eyja. 3. Gerð jarðganga milli lands og Vestmannaeyja. Að þessu verkefni voru kallaðir sérfræðingar og ráðgjafar, ekki síst hvað varðaði jarðgangakostinn.

Það var sameiginleg niðurstaða starfshópsins að gera það að tillögu sinni að skoðuð yrði nánar sú lausn að byggja ferjuhöfn í Bakkafjöru.

Með vísun til framanritaðs hörmum við undirritaðir tilefnislaus og ómakleg ummæli um Vegagerðina og aðstoðarvegamálastjóra.

Sturla er forseti Alþingis. Páll er verkfræðingur.