Oliver litli
Oliver litli
DANSKA lögreglan leitar nú ákaft manna sem numu fimm ára gamlan dreng á brott þar sem hann var með móður sinni fyrir utan leikskóla í Virum, norður af Kaupmannahöfn, um hálffimmleytið í gær að dönskum tíma.

DANSKA lögreglan leitar nú ákaft manna sem numu fimm ára gamlan dreng á brott þar sem hann var með móður sinni fyrir utan leikskóla í Virum, norður af Kaupmannahöfn, um hálffimmleytið í gær að dönskum tíma. Móðirin var skelfingu lostin og brotnaði saman eftir atvikið. Eiginmaður hennar var ekki viðstaddur, en á reiki er hvort mennirnir hafi verið tveir eða þrír.

Mennirnir óku frá leikskólanum og auglýsir lögreglan eftir svörtum skutbíl með bílnúmeri sem inniheldur tölustafina 32787. Lögreglan kom umsvifalaust boðum um mannránið til eftirlitsmanna hafna og brúarmannvirkja, ásamt því sem skutbílsins var leitað úr lofti í þyrlu.

Oliver litli er af kínversku bergi brotinn, 130 sm hár og var klæddur í grágrænan jakka. Fjölskylda hans er sögð eiga nokkra veitingastaði.

Mennirnir þrír voru grímuklæddir þegar þeir veittust að konunni þar sem hún var á leið í silfurgráa Mercedes Benz bifreið. Talið er að tveir hafi haldið konunni og svo gefið olnbogaskot svo blæddi úr andliti hennar.

Foreldrarnir slegnir óhug

Danskir fjölmiðlar hermdu að móðir drengsins hefði ekki borið kennsl á mennina, en að sögn lögregluþjónsins Steens Sørensens var ekkert vitað um tilefni ránsins í gær.

Foreldrar við leikskólann Skovbakken í Virum áttu erfitt með að trúa atburðarásinni og voru slegnir yfir því að slíkur atburður gæti gerst um hábjartan dag. Lögreglan fékk tilkynningu um að sést hefði til bíls með sama númer í Lyngby og leitaði úr lofti án árangurs. Myndin sem hér fylgir var birt í öllum dönsku miðlunum í gær.