ANDERS Bjerregaard, framkvæmdastjóri danska knattspyrnuliðsins Bröndby, er ánægður með nýju mennina sem hann sá um að fá til félagsins fyrir þetta tímabil og í vetur.

ANDERS Bjerregaard, framkvæmdastjóri danska knattspyrnuliðsins Bröndby, er ánægður með nýju mennina sem hann sá um að fá til félagsins fyrir þetta tímabil og í vetur. Það eru þeir Stefán Gíslason, sem félagið keypti frá Lyn í Noregi, Samuel Holmén og Max von Schlebrügge.

Áður hafði Bjerregaard verið gagnrýndur fyrir innkaup sín en í samvinnu við fyrri þjálfara liðsins náði hann í marga leikmenn sem ekki festu rætur hjá félaginu. Þar á meðal Hannes Þ. Sigurðsson sem ekki náði sér á strik og náði aðeins að spila með Bröndby í hálft ár.

„Stefán hefur leyst mjög vel af hendi þá stöðu sem honum var ætluð. Hann liggur aftarlega á miðjunni og dreifir spilinu, ásamt því að vinna boltann, og er búinn að koma sér vel fyrir,“ sagði Bjerregaard við fótboltavefinn bold.dk . Stefán var einmitt gerður að fyrirliða Bröndby áður en keppni hófst að nýju í síðasta mánuði eftir vetrarfríið í deildinni. Bröndby hefur snúið blaðinu við eftir afar slæma byrjun á tímabilinu og er nú í áttunda sæti úrvalsdeildarinnar auk þess sem liðið á góða möguleika á að komast í úrslitaleik bikarkeppninnar.