Í helgan stein Jórunn er hætt verslunarrekstri og býr á Grund sem hún segir að sé „dýrlegur staður að vera á“.
Í helgan stein Jórunn er hætt verslunarrekstri og býr á Grund sem hún segir að sé „dýrlegur staður að vera á“. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Eftir Sunnu Ósk Logadóttur sunna@mbl.is „Það sem tekur við hjá mér er að halda lífinu áfram þar til kallið kemur,“ segir Jórunn Brynjólfsdóttir, sem hefur nú hætt rekstri verslunar sinnar á Skólavörðustíg eftir marga áratugi.

Eftir Sunnu Ósk Logadóttur

sunna@mbl.is

„Það sem tekur við hjá mér er að halda lífinu áfram þar til kallið kemur,“ segir Jórunn Brynjólfsdóttir, sem hefur nú hætt rekstri verslunar sinnar á Skólavörðustíg eftir marga áratugi. Versluninni verður nú lokað. „Það fer alveg ægilega vel um mig hérna á Grund, þetta er dýrlegur staður að vera á,“ segir Jórunn. Hún fæddist 20. júní árið 1910 og fagnar því 98 ára afmæli innan skamms. Jórunn verslaði fyrst og fremst með rúmföt og hafði það fyrir sið að hafa alltaf logandi kertaljós í búðinni til að gera andrúmsloftið heimilislegra.

Mun sakna dyggra viðskiptavina

Jórunn segir ekki hafa verið erfitt að kveðja búðina í hinsta sinn sl. þriðjudag. „Ég vissi að að þessu kæmi, þetta hefur verið mitt líf svo lengi, í fjörutíu ár. Ég var búin að sætta mig við að hætta. En ég mun alltaf eiga þetta í huganum. Ég er líka hamingjusöm kona og mjög þakklát.“

Spurð hvort viðskiptavinir Verslunar Jórunnar Brynjólfsdóttur séu ekki fullir eftirsjár segir Jórunn: „Þeir eiga ekki eftir að sakna búðarinnar meira en ég þeirra.

Hef verið í skóla lífsins

Ég er búin að eiga yndislega ævi með öllum mínum viðskiptavinum og er þeim mjög þakklát. Ég hef kynnst mörgum og hef verið í skóla lífsins.“

Spurð hvaða augum hún líti miðbæ Reykjavíkur í dag, sem margir segja í niðurníðslu, segir Jórunn: „Það hefur alltaf verið gott hjá mér, ég hef haft sömu kúnnana svo ég hef ekki orðið vör við þetta. Viðskiptin hafa alltaf gengið vel og allt svo yndislegt og mér dýrmætt.“

Í hnotskurn
Jórunn Brynjólfsdóttir hlaut þakkarviðurkenningu Félags kvenna í atvinnurekstri árið 2002.
» Hún fæddist 20. júní árið 1910 í Hrísey og hefur búið á dvalarheimilinu Grund síðustu ár meðfram verslunarrekstri.