Heima Grágæsin SLN er komin á heimaslóð í a.m.k. níunda sinn.
Heima Grágæsin SLN er komin á heimaslóð í a.m.k. níunda sinn. — Morgunblaðið/Jón Sigurðsson
Eftir Jón Sigurðsson Blönduós | Grágæs, sem ber einkennisstafina SLN og var fyrst merkt á Blönduósi í júlí 2000, hefur skilað sér á varpstöðvarnar á Blönduósi í níunda sinn ásamt maka.

Eftir Jón Sigurðsson

Blönduós | Grágæs, sem ber einkennisstafina SLN og var fyrst merkt á Blönduósi í júlí 2000, hefur skilað sér á varpstöðvarnar á Blönduósi í níunda sinn ásamt maka. Gæsin SLN er fyrsta merkta gæsin sem sést á þessu vori á Blönduósi og til hennar sást á laugardag á túninu við Héraðshælið. Í fyrra varð hennar fyrst vart á sama stað og nánast upp á sama dag. Upphaflega voru um 120 gæsir merktar á Blönduósi en í gegnum tíðina hefur þeim farið fækkandi sem skila sér heim. Ferðir þessarar gæsar hafa verið skráðar frá því hún var merkt og fer hún að því er virðist sunnar á Bretlandseyjar en margar Blönduósgæsirnar gera og velur sér dvalarstað rétt sunnan við landamæri Skotlands, nánar tiltekið í Newton Pool í Norðymbralandi. Fyrstu gæsirnar á þessu vori fóru að skila sér heim í lok mars og síðan hefur þeim farið ört fjölgandi. Hettumávurinn kom í gær eins og hendi væri veifað og skógarþrösturinn, sem er óvenju seint á ferðinni, er loksins kominn og byrjaður að syngja fyrir Blönduósinga.