Skúli Eggert Þórðarson
Skúli Eggert Þórðarson
SKÚLI Eggert Þórðarson ríkisskattstjóri segir að uppi sé lagalegur ágreiningur um skattfrjálsan samruna og hvort samruni milli íslenskra og hollenskra félaga sé háður skattlagningu á Íslandi. Sá ágreiningur sé ekki kominn til af hálfu skattyfirvalda.

SKÚLI Eggert Þórðarson ríkisskattstjóri segir að uppi sé lagalegur ágreiningur um skattfrjálsan samruna og hvort samruni milli íslenskra og hollenskra félaga sé háður skattlagningu á Íslandi. Sá ágreiningur sé ekki kominn til af hálfu skattyfirvalda.

Þetta segir Skúli Eggert, spurður um viðbrögð við grein Ágústs Guðmundssonar, lögfræðings á skattasviði KPMG, í síðasta Viðskiptablaði Morgunblaðsins þar sem fjallað var um nýlegt álit ríkisskattstjóra, nr. 01/2008 frá 4. febrúar.

Málavextir eru þeir helstir að óskað var eftir því að ríkisskattstjóri gæfi bindandi álit sitt á því hvort skýra bæri ákvæði tekjuskattslaga um skattfrjálsan samruna til samræmis við ákvæði EES-samningsins um stofnsetningarrétt, þannig að fyrirhugaðar ráðstafanir íslensks og hollensks félags væru undanþegnar skattlagningu á Íslandi. Var það niðurstaða ríkisskattstjóra að umræddur samruni félli ekki undir ákvæði tekjuskattslaga og væri því ekki undanþeginn skattlagningu á Íslandi.

Taldi Ágúst það „borðleggjandi“ að túlkun ríkisskattstjóra á ákvæðinu stæðist ekki þær samningsskuldbindingar sem gerðar voru með innleiðingu EES-samningsins. Væri ákvæðum íslenskra skattalaga um skattfrjálsan samruna ekki beitt eins gagnvart annars vegar samrunum íslenskra félaga og félögum innan EES og hins vegar milli íslenskra félaga væri um klárt brot að ræða sem gæti leitt til skaðabótaskyldu íslenska ríkisins.

Ekki sambærilegir dómar

Spurður um þá niðurstöðu Ágústs að álitið geti verið á svig við EES-samninginn bendir ríkisskattstjóri á að í álitinu séu dómar, sem gjaldandi vitnaði til, ekki taldir hafa þýðingu í málinu, enda ekki um sambærileg málsatvik eða réttaráhrif íslenskrar skattalöggjafar að ræða.

Annars segist Skúli Eggert ekki vilja reka mál embættisins í fjölmiðlum, en til greina komi að birta þetta álit á vef ríkisskattstjóra. Ef hlutaðeigandi gjaldandi kæri sig um þá geti hann nýtt sér kærurétt til yfirskattanefndar, það sé hinn lögformlegi farvegur.

Jafnframt bendir hann á að í umræddu máli hafi verið óskað eftir bindandi áliti, og það sé varla gert nema uppi sé vafi í málinu. Sé enginn vafi uppi þá geri menn þarhlítandi ráðstafanir á sínu framtali.