Ingimundur Sigurpálsson
Ingimundur Sigurpálsson
INGIMUNDUR Sigurpálsson, forstjóri Íslandspósts, gerir athugasemd við umfjöllun í Morgunblaðinu í gær, um kreditkort og pin-númer sem grunur leikur á að hafi horfið úr pósti.

INGIMUNDUR Sigurpálsson, forstjóri Íslandspósts, gerir athugasemd við umfjöllun í Morgunblaðinu í gær, um kreditkort og pin-númer sem grunur leikur á að hafi horfið úr pósti. Segir hann sérkennilegt að fjallað sé um fullyrðingar af þessu tagi og aðeins byggt á einhliða frásögn heimildarmanns Morgunblaðsins um málið.

Var sagt frá því að 50.000 krónur hefðu verið teknar út af kreditkorti, sem flest benti til að hefði verið stolið úr pósti: „Við hvetjum viðmælanda blaðsins til að kæra það mál til lögreglunnar, en hún hefur ekkert fyrir sér í því að kortið hafi verið tekið úr poka póstburðarmanns,“ segir Ingimundur og bendir á að óprúttnir aðilar geta sætt færis bæði fyrir og eftir að póstsending er í höndum póstsins.

Segir Ingimundur illa vegið að þeim starfsmanni, sem ber út á umræddu svæði, og afleysingamanni hans á tímabilinu.

Farið ýtarlega yfir verkferla

Varðandi fréttir af því að enn finnist póstburðarpokar á víðavangi, segir Ingimundur að þar sé þá annaðhvort um mistök að ræða eða vísvitandi brot á verklagsreglum. Farið hafi verið mjög ýtarlega í gegnum verkferla með forstöðumönnum dreifingarmiðstöðva og eins með starfsfólki í þjónustuveri. Berist tilkynningar um poka í reiðileysi er reglan sú að pokinn sé sóttur og farið í saumana á því hverju sæti. Er viðkomandi starfsmanni þá veitt áminning, og varða ítrekuð brot á vinnureglum brottrekstri.