„MÉR finnst þetta ótækt kæruleysi,“ segir Erlendur Á Garðarsson, íbúi á Seltjarnarnesi, sem fann yfirgefinn póstburðarpoka með nokkur óútborin bréf, þar á meðal símreikning, á tröppunum hjá sér á Skerjabrautinni þegar hann kom heim í...

„MÉR finnst þetta ótækt kæruleysi,“ segir Erlendur Á Garðarsson, íbúi á Seltjarnarnesi, sem fann yfirgefinn póstburðarpoka með nokkur óútborin bréf, þar á meðal símreikning, á tröppunum hjá sér á Skerjabrautinni þegar hann kom heim í hádeginu í gær. Segist hann hafa skimað í kringum sig til að athuga hvort verið gæti að póstburðarmaður hefði skilið hann eftir á tröppunum í nokkrar mínútur meðan sá væri að skjótast með póst í bréfalúgu en eftir nokkra bið hafi sér orðið ljóst að pokinn hlyti að hafa verið skilinn eftir þarna í reiðileysi.

Sendum trúnaðarupplýsingar

Erlendur segist þegar í stað hafa haft samband við Íslandspóst og sagt þeim frá fundinum, en fundist sér hafa verið mætt með tómlæti í þjónustuveri Íslandspósts. „Ég tilkynnti þeim þá að ég myndi fara með pokann á lögreglustöðina á Seltjarnarnesi og að þeir gætu sótt hann þangað, enda finnst mér þetta grafalvarlegt mál. Pósturinn er eins og hver önnur verðmæti,“ segir Erlendur og tekur fram að sér finnist hirðuleysi með póstinn vera jafn alvarlegt og ef bankarnir færu að vera kærulausir með innistæður fólks hjá þeim. „Við sendum trúnaðarupplýsingar með póstinum og mikilvæg gögn og ætlumst til þess að þeirra sé gætt sem skyldi en ekki að þau séu skilin eftir á víðavangi fyrir allra augum,“ segir Erlendur sem fór með pokann á lögreglustöðina.

Málið algjört einsdæmi

„ÞETTA er einsdæmi. Svona mál hefur aldrei komið upp áður,“ segir Haukur Oddsson, forstjóri Borgunar hf. sem hefur milligöngu um að senda út MasterCard-kort viðskiptabankanna og vísar þar til fréttar í Morgunblaðinu í gær þess efnis að korti og PIN-númeri hafi verið stolið úr bréfberapoka á Seltjarnarnesi í lok febrúar „Á Íslandi eru árlega send út á bilinu 300-400 þúsund kort með þessum hætti“ segir Haukur og vísar þar til þess að vinnureglan sé sú að einn dagur sé látinn líði milli þess sem sjálft kortið sé sent viðtakanda og PIN-númerið. Bendir hann á að þetta fyrirkomulag hafi verið viðhaft sl. 28 ár.

Aðspurður segir hann fréttir af yfirgefnum póstburðarpokum á víðavangi að undanförnu vekja í ugg í brjósti starfsmanna Borgunar. „Ef þetta kemur upp aftur þá er ljóst að við þurfum að bregðast við því með einhverjum hætti,“ segir Haukur.

Viðskiptabankinn mun bera tjónið

Eftir því sem Morgunblaðið kemst næst er Glitnir útgefandi umrædds korts. Hjá Má Mássyni, forstöðumanni kynningarmála hjá Glitni, fengust þær upplýsingar að málið verði leyst á þann veg að Glitnir muni sem útgefandi kortsins axla ábyrgð og taka tjónið á sig.

„Við teljum afar leitt að þetta mál hafi komið upp. Við munum í framhaldinu að sjálfsögðu ræða við Póstinn og í sameiningu við Póstinn og viðkomandi kortafyrirtæki fara yfir þann verkferil sem um er að ræða, þ.e. hvernig kortum og upplýsingum er komið til einstaklinga. Við þurfum auðvitað að lágmarka áhættuna á því að svona gerist aftur,“ segir Már.