Eftir Kristján Jónsson kjon@mbl.is LJÓST virðist að vinni Hillary Clinton ekki öruggan sigur í forkosningum á þriðjudag í Pennsylvaníu, með sína 158 landsfundarfulltrúa, geti hún pakkað saman.

Eftir Kristján Jónsson

kjon@mbl.is

LJÓST virðist að vinni Hillary Clinton ekki öruggan sigur í forkosningum á þriðjudag í Pennsylvaníu, með sína 158 landsfundarfulltrúa, geti hún pakkað saman.

Clinton hefur lengi staðið betur í könnunum í ríkinu og gerir sér vonir um þáttaskil ef hún vinnur með yfirburðum. Þá munu óákveðnir telja að hún sé líklegri en Obama til að sigra í haust, hún nái til hóps sem muni ráða úrslitum: hvítra karla í verkalýðsstétt. En síðustu kannanir hafa reyndar sýnt að Obama hefur saxað á forskot hennar. Og ritið The Economist bendir á að þótt Clinton hafi víða gengið mun betur en keppinautnum meðal hvítra verkamanna sé ekki víst að staða hennar sé nú jafn sterk og margir halda. Vissulega séu margir dæmigerðir, hvítir verkamenn í „ryðbeltinu“ svonefnda, t.d. í Pittsburgh þar sem eitt sinn var blómleg stóriðja. En í stærstu borg ríkisins, hinni fornfrægu Philadelphiu, séu nýir atvinnuvegir í menntun og ýmissi þjónustu að ryðja út því gamla. Þar séu kjósendur mun móttækilegri fyrir boðskap ræðuskörungsins Obama.

Hann sagði nýlega að margir hvítir menn úr verkalýðsstétt væru nú svo örvæntingarfullir yfir efnahagsástandinu að þeir hölluðu sér að hefðbundnum gildum eins og trú, áherslu á rétt til byssueignar og sýndu einnig „andúð á öllum sem eru öðruvísi en þeir“. Menn bentu menntamanninum Obama á að trú og byssudýrkun hefðu lengi verið þessu fólki hugleikin, hvort sem vel áraði eða illa. Eins og Justin Webb, fréttamaður BBC vestra, orðaði það væru þessar vangaveltur Obama í sjálfu sér eðlilegar ef um erindi félagsfræðings hefði verið að ræða. En forsetaefni talar ekki niður til kjósendahópa.

Obama hefur að undanförnu gert sér far um að þvo af sér yfirstéttarstimpilinn; fullyrt hefur verið að hann höfði einkum til efnaðra demókrata sem elski rauðvín en Clinton til fátækari bjórþambara. Hefur Obama jafnvel reynt fyrir sér í alþýðlegu keiluspili (mistókst herfilega) og skellt sér á bjórkrá. Brátt kemur í ljós hvort nýja ímyndin hjálpar, einnig hvort hann hefur haft betur en Clinton í sjónvarpskappræðum sem fram áttu að fara í nótt, fyrstu kappræðum þeirra í tvo mánuði.