Eftir Bjarna Ólafsson
bjarni@mbl.is
ÁKVEÐIN skilyrði þarf að uppfylla áður en Greenstone ehf. telur sig geta farið í byggingu og rekstur netþjónabúa hér á landi en Greenstone skrifaði á dögunum undir viljayfirlýsingar þess efnis ásamt sveitarfélaginu Ölfusi, Landsvirkjun og Farice.
Greenstone er í eigu TCN í Hollandi, GEO í Bandaríkjunum og Amicus á Íslandi og á hver aðili þriðjungshlut í fyrirtækinu. Henk Wiering skrifaði undir viljayfirlýsingarnar fyrir hönd Greenstone og segir hann að meðal þess sem gerast þurfi áður en rekstur netþjónabúanna verði raunhæfur sé lagning sæstrengs til Bandaríkjanna. „Í rekstri netþjónabúa er lífsnauðsynlegt að raforka til búsins og nettengingar séu þannig úr garði gerðar að nær engin hætta sé á því að starfsemin eða tenging við notendur stöðvist. Því er nauðsynlegt að rafmagn komi úr tveimur áttum og að nettenging sé tryggð annaðhvort með hringtengingu eða með tvílagningu strengja til og frá landinu.“
Öryggið ofar öllu
Wiering segir að aðstæður hér á landi séu að mörgu leyti afar góðar fyrir ákveðna tegund netþjónabúa, hér sé næg umhverfisvæn raforka og auðvelt að búa svo um hnútana að búin fái raforku úr tveimur áttum. Þá verði búin með tvo vararafala ef svo ólíklega vill til að flæði rafmagns um báða rafstrengina stöðvist.Hins vegar segir hann að bæta þurfi nettengingu við útlönd og nefnir þar sérstaklega tengingu við Bandaríkin. „Málið snýst annars vegar um öryggi tengingarinnar og hins vegar um þann tíma sem tekur gögn að ferðast um netið. Vegna fjarlægðar Íslands við önnur lönd er þessi biðtími tiltölulega langur og til Bandaríkjanna er hann í raun of langur. Því er bætt tenging við þann heimshluta nauðsynleg.“ Wiering segir að þessi biðtími þýði jafnframt að ekki geti allir nýtt sér netþjónabú hér á landi.
„Staðsetningin býður upp á að geyma hér upplýsingar eins og varaútgáfur (e. backup) af upplýsingum og eldri upplýsingar sem ekki þarf að sækja mjög oft. Hins vegar er biðtíminn of langur til að hægt sé að geyma hér upplýsingar sem notendur þurfa að sækja oft eða þar sem krafan um hraða er mjög mikil.“
Segir Wiering að unnið sé að því að koma á tengingu til Bandaríkjanna í samvinnu við Farice.
Wiering segir það vel koma til greina að Greenstone reisi hér fleiri en eitt netþjónabú og nefnir sem mögulega staði, auk Suðurlands, Eyjafjarðarsvæðið og Reykjanes. Af öryggisástæðum sé í raun nauðsynlegt að búin séu ekki öll á sama stað.
Annars segir hann að Ísland hafi marga kosti aðra en ódýra umhverfisvæna orku. Hér sé samfélag mjög öruggt, lítið sé um glæpi og stjórnmálaástandið stöðugt. Þetta sé mikilvægt fyrir rekstur netþjónabúa.
Wiering átti fund með forseta Íslands, Ólafi Ragnari Grímssyni, á Bessastöðum. „Forsetinn er mjög áhugasamur um netþjónabú og telur þau geta haft afar góð áhrif á efnahagslíf Íslands.“