Willy Sagnol
Willy Sagnol
FRAKKINN, Willy Sagnol sem er á mála hjá þýska meistaraliðinu Bayern München, var skilinn eftir heima þegar Bæjarar héldu til Rússlands í gær en í kvöld mæta þeir Zenit Petersburg í síðari viðureign liðanna í undanúrslitum UEFA-bikarnsins.

FRAKKINN, Willy Sagnol sem er á mála hjá þýska meistaraliðinu Bayern München, var skilinn eftir heima þegar Bæjarar héldu til Rússlands í gær en í kvöld mæta þeir Zenit Petersburg í síðari viðureign liðanna í undanúrslitum UEFA-bikarnsins.

Ottmar Hitzfeld þjálfari Bayern ákvað að refsa Frakkanum og velja hann ekki hópinn eftir að Sagnol gagnrýndi í fjölmiðlum þá stöðu sem hann var látinn spila í þegar Bæjarar lögðu Stuttgart, 4:1, um síðustu helgi. Sagnol var ósáttur við að spila sem miðjumaður en hann leikur í stöðu hægri bakvarðar.

,,Sagnol kemur ekki með liðinu til St. Petersburg og mun í stað æfa tvívegis,“ sagði Hitzfeld á vef Bayern München en liðið gerði 1:1 jafntefli á heimavelli í fyrri leiknum við Rússana. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Sagnol gagnrýnir Hitzfeld en í desember lét hann þjálfarann heyra það fyrir hversu lítið hann fengi að spila.

Í hinum undanúrslitaleiknum í UEFA-bikarnum eigast við Fiorentina og Rangers í Flórens en sigurliðin í kvöld mætast í úrslitaleik á Manchester Stadium, heimavelli Manchester City, þann 14. þessa mánaðar.