Fyrirtæki Könnun Edelman sýnir að áhrifavaldar víða um heim bera meira traust til fyrirtækja en stjórnvalda. Þá njóta fjölmiðlar aukins trausts.
Fyrirtæki Könnun Edelman sýnir að áhrifavaldar víða um heim bera meira traust til fyrirtækja en stjórnvalda. Þá njóta fjölmiðlar aukins trausts. — Morgunblaðið/Golli
SAMKVÆMT árlegri könnun Edelman á trausti og trúverðugleika er traust á fyrirtækjum meira en traust á stjórnvöldum í 14 af þeim 18 löndum sem könnunin nær til.

SAMKVÆMT árlegri könnun Edelman á trausti og trúverðugleika er traust á fyrirtækjum meira en traust á stjórnvöldum í 14 af þeim 18 löndum sem könnunin nær til. Mestur er munurinn í Bandaríkjunum þar sem 58% svarenda treysta fyrirtækjum, hæsta hlutfall sem mælst hefur, en einungis 39% treysta stjórnvöldum. Fyrirtæki njóta einnig töluvert meira trausts en stjórnvöld í löndum með ört vaxandi efnahagskerfi, svo sem Indlandi, Mexíkó og Póllandi.

Kynnt á málþingi 8. maí

Helstu niðurstöður þessarar könnunar Edelman, ásamt sambærilegum rannsóknum Capacent Gallup á Íslandi, verða kynntar á sérstöku málþingi fimmtudaginn 8. maí næstkomandi. AP almannatengsl, samstarfsaðili Edelman á Íslandi, standa að málþinginu í samvinnu við viðskiptaráð Íslands, og Capacent.

Á málþinginu fara einnig fram pallborðsumræður þar sem meðal þátttakenda verða Bjarni Ármannsson fjárfestir, Haraldur Johannessen, ritstjóri Viðskiptablaðsins, Pétur Gunnarsson, ritstjóri Eyjunnar,Guðfinna Bjarnadóttir þingmaður og Jónas Fr. Jónsson, forstjóri Fjármálaeftirlitsins.

Könnun Edelman nú sýnir m.a. að traust á fjölmiðlum hefur aldrei mælst hærra, með töluverðri aukningu í Bretlandi, Þýskalandi, Bandaríkjunum, Kanada, Japan, Suður-Kóreu og Indlandi. Hefðbundnir fjölmiðlar; dagblöð, sjónvarpsfréttir og viðskiptablöð eru helsta uppspretta upplýsinga um viðskiptalífið. Á meðan viðskiptablöð njóta mest trausts um heim allan (57% svarenda treysta þeim) segir Edelman að traust á fjölmiðlum hafi aukist vegna þess að skilgreiningin á fjölmiðlum er víðari en áður og inniheldur nú nýja fjölmiðla (Facebook, YouTube, Flickr, Wikipedia) og hægt er að nálgast efni hvenær og hvar sem er.

Kynnt árlega í Davos

Nýir fjölmiðlar eru á uppleið um heim allan, sérstaklega í BRIC löndunum (Brasilíu, Rússlandi, Indlandi og Kína), að því er fram kemur í tilkynningu frá Edelman.

Könnunin í ár er sú níunda í röðinni. Jafnframt eru traust og trúverðugleiki ákveðinna boðleiða mæld. Niðurstöðurnar eru jafnan kynntar á heimsviðskiptaráðstefnunni í Davos. Í ár náði könnunin í fyrsta skipti til „áhrifavalda“ á aldrinum 25-34 ára í 12 löndum.