BARACK Obama hefur nú snúið baki við Jeremiah Wright, presti Obama-fjölskyldunnar undanfarin 20 ár, vegna ýmissa ummæla Wright um helgina. Presturinn hefur m.a. sagt að hernaðaraðgerðir Bandaríkjastjórnar séu í raun hryðjuverk og alnæmi sé að einhverju leyti sök stjórnvalda í Washington. Jafnframt hrósaði hann í hástert ofstækisfullum blökkumannaleiðtoga, Louis Farrakhan, sem oft er sakaður um gyðingahatur.
Tengsl Obama við Wright hafa valdið efasemdum um stefnu hans en Obama leggur áherslu á sátt milli ólíkra fylkinga og hefur áður gagnrýnt sum ummæli prestsins. En Wright sagði um helgina að sú gagnrýni væri aðeins hefðbundin látalæti stjórnmálamanna.
Obama var greinilega reiður á þriðjudag er hann tjáði sig um síðustu ummæli Wright. Ummælin væru „skelfileg“ og í algerri andstöðu við hans eigin skoðanir. „Ummælin ýta ekki bara undir sundrungu og niðurrif, ég tel að þau styrki þá sem ala á hatri og ég tel þau ekki sýna afstöðu kirkju blökkumanna,“ sagði Obama. Hann sagði að sá Wright sem birtist nú væri ekki sami maður og hann hefði kynnst fyrir nær 20 árum.