Þjónusta heilbrigðiskerfisins snýst með nokkurri einföldun um að gera lasið fólk frískt aftur. Það gengur oft alveg ágætlega. Þurfum við ekki samt að spyrja hvort kerfi, sem er sjálft orðið alveg sárlasið, sé bezt til þess fallið að gera fólk frískt?
Á forsíðu 24 stunda í gær var sagt frá hugmyndum einkaaðila um að byggja nýja heilbrigðisbyggingu á milli tveggja húsa, sem hýsa einkarekna heilbrigðisþjónustu, Heilsuverndarstöðvarinnar og Domus Medica. Tengja á húsin saman til að auka þjónustumöguleikana og forsvarsmenn Heilsuverndarstöðvarinar hafa jafnframt bráðskemmtilegar og spennandi hugmyndir um tengingar við elli- og hjúkrunarheimilið Droplaugarstaði og Sundhöll Reykjavíkur til að bjóða enn fleirum enn betri þjónustu.
Þessi frétt er eitt af mörgum nýlegum dæmum um kraft og hugmyndaauðgi einkaframtaksins í heilbrigðisþjónustu. Annað dæmi er framtak Heilsuverndarstöðvarinnar, sem leysti með einkarekinni þjónustu það vandamál, sem var staða ósjúkratryggðra útlendinga í heilbrigðiskerfinu.
Krafturinn í einkageiranum er í hrópandi andstöðu við deyfðina og magnleysið í hinu ríkisrekna heilbrigðiskerfi. Ein birtingarmynd þess er deilur hjúkrunarfræðinga og geislafræðinga við Landspítalann. Þær eru dæmigert sjúkdómseinkenni miðstýrðs, ríkisrekins kerfis. Fjöldauppsagnir þekkjast varla í einkageiranum nema hjá fyrirtækjum, sem eru í þannig einokunarstöðu að litlir hópar geta lamað mikilvæga starfsemi.
Starfsfólk Landspítalans er auðvitað í svipaðri stöðu, en jafnframt verður það að sætta sig við að vinna í niðurnjörvuðu kerfi, þar sem ekki má gera vel við einn umfram annan af því að hann sé betri starfsmaður. Fyrir vikið er samstaðan eina tækið, sem fólk hefur til að knýja fram betri kjör.
Við þessar aðstæður er ekkert undarlegt að raddir um að breyta eigi Landspítalanum í opinbert hlutafélag séu farnar að heyrast „af gólfinu“ innan spítalans, eins og Björn Zoëga, starfandi forstjóri spítalans, orðaði það í Morgunblaðinu fyrir stuttu. Í samanburði við frískan einkageira er gamli ríkisrisinn orðinn staðnaður, ósveigjanlegur og lasinn. Hvernig gerum við hann frískan aftur?