Risi Tesco er stærsti aðilinn á breskum matvælamarkaði.
Risi Tesco er stærsti aðilinn á breskum matvælamarkaði. — Reuters
Eftir Guðmund Sverri Þór sverrirth@mbl.

Eftir Guðmund Sverri Þór

sverrirth@mbl.is

EIGI breskar stórmarkaðakeðjur of stóra markaðshlutdeild á einhverjum svæðum kynni þeim að verða meinað að opna þar fleiri verslanir gangi tillögur bresku samkeppnisstofnunarinnar (Competition Commision), sem kynntar voru í gær, eftir.

Stofnunin gaf í gær út skýrslu sína um samkeppnisstöðu á breska matvælamarkaðnum en könnun á markaðnum hefur staðið yfir undanfarin tvö ár. Í skýrslunni kemur fram að í heild njóti breskir neytendur góðs af stöðunni á matvælamarkaði en þó megi margt betur fara. Er þá sérstaklega vísað til smærri markaða þar sem sjálfstæðir kaupmenn standa ekki jafnvel í samkeppninni við stórmarkaði, á borð við Tesco og Sainsbury's, og þeir gera á stærri mörkuðum. Því telur nefndin rétt að grípa til aðgerða til þess að efla samkeppni á þessum mörkuðum. Ein þeirra er þróun sérstaks samkeppnisprófs sem mun segja til um hvort samkeppni á hverjum markaði fyrir sig er næg og önnur gæti, eins og áður segir, orðið að meina risunum að opna nýjar verslanir þar sem þeir njóta yfirburða.

Þá hefur stofnunin lagt til að komið verði á fót embætti umboðsmanns sem verja á hagsmuni bænda og annarra smærri birgja en athygli vekur að stofnunin hafnar því að fjórar stærstu verslunarkeðjur landsins, Tesco, Sainsbury's, Asda og Morrison reyni að þvinga minni samkeppnisaðila út af markaðnum. Að sama skapi var ákveðið að neyða ekki áðurnefnd fyrirtæki til þess að selja verslanir en slíkt hafði komið til tals samkvæmt frétt Guardian . Greint er frá því á vef Times að margir telji samkeppnisstofnunina ekki hafa gengið nærri nógu langt í tillögum sínum. Meðal þeirra eru samtök verslunareigenda sem segja ekkert hafa verið lagt til sem muni draga úr valdi stórmarkaðanna á breska matvörumarkaðnum. „[Stofnuninni] hefur mistekist að taka á vandanum og nú verðum við að snúa okkur beint til ráðherra og ríkisvaldsins. Baráttan heldur áfram,“ segir Shane Brennan, talsmaður samtakanna við Times en hann segir því tækifæri sem bauðst til þess að hafa áhrif á aðstæður hafa verið sóað.

Í hnotskurn
» Smásala á matvælum í landinu veltir um 120 milljörðum punda á ári.
» Talið er að rannsóknin hafi kostað breska skattgreiðendur meira en 4 milljónir punda og stóru verslanakeðjurnar um 50 milljónir punda.