„RÍKISSTJÓRNIN óskar eftir einstaklingum til sjálfboðastarfa innan íslenska heilbrigðiskerfisins til þess að sinna sjúkum. Einstaklingarnir þurfa enga sérstaka fagmenntun og enga tungumálakunnáttu. Hraustur og barnlaus, kostur. Þekking á kjarasamningum ókostur. Því minna sem þú heyrir því betra, því minna sem þú segir – enn betra.“ Þessi auglýsing hefur enn ekki verið birt, en í það virðist fara að styttast ef ekkert verður aðhafst nú þegar kjarasamningar hjúkrunarfræðinga verða lausir.
Það vantar nokkur hundruð hjúkrunarfræðinga til starfa á Íslandi. Ástæðan er einföld; léleg laun og mikið vinnuálag. Þetta tvennt hangir auðvitað saman. Þar sem borguð eru léleg laun koma færri til vinnu og álagið á þá sem eru til staðar verður meira. Svona vindur þetta upp á sig þar til restin brennur yfir. Allt hefst þetta semsagt á lélegum launum.
Yfir þessa staðreynd er breidd 400.000 kr. silkislæða sem kallast „heildarlaun“ og allir skulu vel við una, tendra sína lampa og ganga brosandi til móts við sjúklinginn. En hvað eru heildarlaun? Heildarlaun innihalda grunnlaun, vaktaálag, kaffitíma, yfirvinnu og svo framvegis. Vaktaálag á að vera uppbót fyrir þá sem vinna á kvöldin, nóttunni og um helgar. Það á hins vegar ekki að vera tekið með til samanburðar við dagvinnustétt sem hefur 400.000 kr. í mánaðarlaun. Yfirvinna er ekki eitthvað til að brosa yfir. Það horfir enginn glaður á launaseðil upp á 400-500 þúsund kr. sem uppfullur er af yfirvinnu. Sá aðili er þreyttur, á honum er álag og með sama áframhaldi hverfur hann fyrr af vinnumarkaði eða leitast við að skipta um starf. Þar með er hann rokinn út úr „heilbrigðis-systeminu“ eins og svo margir aðrir.
Hvað er hjúkrunarfræðingur? Er það góðhjörtuð nunna eða er það einstaklingur sem hefur menntað sig í mikilvægum fræðum sem skipta miklu máli fyrir land og þjóð? Fræðum sem hafa skilað okkur svo miklum hagnaði í gegnum tíðina sem seint verður metinn til fjár. En þetta kann ríkið ekki að meta. Enda skila hjúkrunarfræðingar ekki hagnaði í beinhörðum seðlum eins og viðskiptafræðingur. Ég get ekki betur séð en að í orðabók ríkisvaldsins sé eftirfarandi skilgreining á hjúkrunarfræðingi: „Hugsjónakona með gott hjarta og bjartan lampa“.
Ég dreg það ekki í efa að hjúkrunarfræðingar séu almennt góðhjartaðir einstaklingar með björt ljós, en það má ekki gleyma því að þetta eru fræðingar. Háskólamenntaðir einstaklingar, margir hverjir með gífurlega þjálfun, starfsreynslu og færni. Með þau laun og kjör sem þeim er boðið upp á er þeim hins vegar haldið í gíslingu álags og fjárskorts, og fá þeir á engan hátt að blómstra í sínu fagi eins og þeir ættu að geta gert. Svo alvarlegur er veruleikinn að margir þeirra treysta sér ekki lengur til þess að starfa í faginu. Er þetta það sem við viljum fyrir íslenskt heilbrigðiskerfi? Viljum við sjá endalausa afturför í þróun faglegrar hliðar spítalanna með stöðugum flótta fagfólks frá þeim? Langvarandi fjársvelti Landspítalans í gegnum tíðina hefur knúið auðmenn, samtök og velunnara til þess að gefa tæki og tól til lækninga, erum við kannski að bíða eftir að sjá hjúkrunarfræðinga sem stendur á „þessi hjúkrunarfræðingur er í boði Bónuss“?
Nú er kominn tími til að menn losi aðeins um bindishnútana, hætti að lakka á sér neglurnar og fari að horfa á staðreyndir. Laun hjúkrunarfræðinga eru til háborinnar skammar og ekkert annað í stöðunni en að hækka þau verulega. Þar ber ríkisvaldið mesta ábyrgð. Nú ef menn eins og herra Guðlaugur Þór heilbrigðisráðherra líta eingöngu á þetta sem göfugt hugsjónastarf, þá má nú taka tillit til hækkandi olíuverðs svo hjúkrunarfræðingar eigi nú að minnsta kosti fyrir olíu á lampana og geti þá leyft hugsjóninni að dafna.
En án alls gríns, þá hvet ég hjúkrunarfræðinga til dáða í kjarabaráttu sinni og vona að í eitt skipti fyrir öll nái þeir eyrum ráðamanna. Gangi ykkur vel við gerð kjarasamninga.
Höfundur er sjúkraliði.