J. Sigurður Gunnsteinsson fæddist í Stafholti í Vestmannaeyjum 4. febrúar 1925. Hann lést á heimili sínu í Kópavogi 1. mars síðastliðinn og
var jarðsunginn frá Digraneskirkju 12. mars.
Látinn er í Kópavogi Sigurður Gunnsteinsson, eiginmaður móðursystur okkar, Margrétar Önnu Jónsdóttur frá Hlíðarenda á Ísafirði.
Margar ánægjulegar minningar koma fram í hugann þegar við minnumst Sigga eins og hann var kallaður. Við minnumst ánægjulegra samverustunda á Ísafirði og sunnanlands er við vorum á ferð í Reykjavík.
Á meðan Jón móðurafi okkar lifði komu Margrét og Ásta systir hennar á sumrin með börnin og hjálpuðu til við heyskapinn á Fossum í Engidal. Þá var líf og fjör þegar systkinin voru samankomin með fjölskyldur sínar á Fossatúninu. Svo voru það ýmsir atburðir í fjölskyldunni eins og ættarmótin, þá var sungið af hjartans lyst og við tókum okkur ýmislegt skemmtilegt fyrir hendur og nutum þess að vera saman. Núna síðastliðið sumar komum við saman í Súðavík í Álftafirði ásamt niðjum langömmu okkar í móðurætt, Steinunnar Kristínar Ólafsdóttur. Það var sól og sumarblíða og eftir mótið var svo auðvitað farið að Fossum. Það voru ógleymanlegir dagar.
Á hverju sumri komu þau Magga og Siggi til Ísafjarðar og héldu þannig tryggð við fólkið sitt á Ísafirði ásamt Ástu og Þormóði, stundum voru Lovísa og Bergþór með í för. Þá fóru þau auðvitað á Fossatún, brugðu sér til berja og skoðuðu sig um. Það var alltaf gaman að fá þau í heimsókn. Þegar við vorum á ferð í Reykjavík var komið við í Kópavoginum hjá Sigga og Möggu og tóku þau á móti okkur af mikilli elskusemi, það var gott að koma til þeirra og vera með þeim.
Við kveðjum Sigga með söknuði og þökkum honum allar ánægjulegu samverustundirnar og biðjum Guð að blessa minningu okkar kæra vinar.
Margréti frænku okkar og allri fjölskyldunni sendum við okkar innilegustu samúðarkveðjur.
Garðar, Ingibjörg Steinunn, Guðmundur, Tryggvi, Þorgerður A., Guðmundur Marinósson og fjölskyldur.