FYRSTU búningar Fram voru hvítar peysur og hvítar buxur. Blár borði var þvert yfir brjóstið – með nafninu FRAM. Breytingar voru gerðar á búningnum 1911 er byrjað var að leika í albláum peysum án kraga, með reimum í hálsmálið. Þá þótti fínt að hafa peysuna utan yfir buxurnar, en sveitalegt að gyrða peysurnar niður í brók.
Síðan kom hvítur kragi á peysuna og hvítar líningar á ermar – hvers vegna? „Það var eitt sinn að haustlagi í kalsaveðri að við áttum að keppa. Ég hafði vit á að klæða mig vel og átti hvíta peysu með kraga og löngum ermum. Fór ég í þessa peysu innan undir og síðan í bláu peysuna. Lét hvíta kragann koma utan yfir og braut upp ermarnar á þeirri hvítu yfir þá bláu. Þetta þótti fallegt og var síðan tekið upp,“ sagði Pétur J. Hoffmann Magnússon, fyrrverandi leikmaður og formaður Fram.
Frampiltar höfðu orð á sér fyrir að vera heitir þjóðernis- og sjálfstæðissinnar, og sú skýring var almennt gefin á félagsbúningi þeirra og merki að hvort tveggja væri undir áhrifum frá íslenska flagginu sem notað var á þessum tíma; blátt með hvítum krossi, sem Danir neituðu að samþykkja.