HAGNAÐUR Straums-Burðaráss fjárfestingabanka nam 22,3 milljónum evra, um 2,6 milljörðum króna, á fyrsta fjórðungi ársins. Á sama tíma árið áður var hagnaðurinn 69,2 milljónir evra.

HAGNAÐUR Straums-Burðaráss fjárfestingabanka nam 22,3 milljónum evra, um 2,6 milljörðum króna, á fyrsta fjórðungi ársins. Á sama tíma árið áður var hagnaðurinn 69,2 milljónir evra. Í tilkynningu frá Straumi segir að vegna breytinga á starfsemi bankans á undanförnum tveimur árum, ásamt afar erfiðum markaðsaðstæðum nú, hafi sá samanburður takmarkaða þýðingu. Því sé lokafjórðungur ársins 2007 notaður til samanburðar, en á honum var 0,6 milljóna evra tap.

Gengishagnaður nýliðins fjórðungs nam 10,9 milljónum evra, m.v. 45,9 milljóna hagnað á sama tíma í fyrra en 4,4 milljóna tap á lokafjórðungi 2007. Í júní sl. varð finnski fjárfestingabankinn eQ hluti af samstæðunni og tékkneski bankinn Wood bættist við í október 2007. Með auknum fjölda starfsmanna jukust laun og launatengd gjöld, fjórfölduðust frá sama tíma í fyrra, en drógust saman um 15% frá næstliðnum fjórðungi.

Rekstrartekjur jukust um 17% milli fjórðunga og námu nú 66,2 milljónum evra. Um 30% tekna koma frá Íslandi, 43% frá hinum Norðurlöndunum og 25% frá Mið- og Austur-Evrópu.

Eignir Straums námu tæpum átta milljörðum evra í lok fjórðungsins, samanborið við 7,1 milljarð í árslok 2007. Frá þeim tíma dróst eigið fé lítillega saman og nam 1,6 milljónum evra, eiginfjárhlutfall samkvæmt CAD reglum var 21,4%.

William Fall, forstjóri Straums, segir gleðiefni að skila meiri hagnaði en á þriðja og fjórða fjórðungi 2007 þrátt fyrir erfið skilyrði. Tekist hafi að viðhalda tekjum af þjónustu við viðskiptavini. Í tilkynningu segir að aukið þjónustuframboð, stærra starfssvæði og breiðari fjármögnunargrunnur hafi gert bankanum kleift að sækja á í hörðu árferði.

halldorath@mbl.is