FÉLAG íslenskra húðlækna býður blettaskoðun mánudaginn 5. maí, sem er evrópskur blettaskoðunardagur. Fólk sem hefur áhyggjur af blettum á húð getur látið húðsjúkdómalækna skoða blettina og meta hvort ástæða sé til nánari rannsókna. Nauðsynlegt er að panta tíma í þessa skoðun, sem er sjúklingum að kostnaðarlausu.
Krabbameinsfélagið hefur tekið að sér að sjá um bókanir fimmtudaginn 1. maí kl. 10-11 í síma 540 1911. Takmarkaður fjöldi kemst að í þessari skoðun, sem fyrst og fremst er til að vekja athygli á húðkrabbameini en ekki til að leysa vanda allra. Mikilvægt er að fara til læknis ef fram koma breytingar á húð, svo sem blettir sem stækka eða eru mislitir og sár sem ekki gróa.
Þetta er í fimmtánda sinn sem húðlæknar bjóða blettaskoðun. Reynslan af blettaskoðuninni er góð og mörg dæmi eru um að illkynja breytingar á húð hafi fundist tímanlega, segir í fréttatilkynningu.