Kristín Marteinsdóttir fæddist í Hafnarfirði 5. febrúar 1957. Hún varð bráðkvödd í Hafnarfirði 5. apríl síðastliðinn og var jarðsungin frá Ísafjarðarkirkju 19. apríl.

Í litlum plássum berast fréttir oft fljótt manna á milli. Að kvöldi 5. apríl sl. barst um Ísafjörð fréttin að Kristín Marteins væri dáin. Alla setti hljóða og margir hugsuðu það getur ekki verið. Fyrstu kynni mín af Kristínu hófust er hún kom í Barnaskólann í Reykjanesi. Á þeim árum átti ég heima í Hveravík sem er lítið hús við samnefnda vík á Reykjanesi.

Ekki get ég nú eftir öll þessi ár sagt nákvæmlega hvernig það kom til að hún Kristín kom til mín að passa strákana mína meðan ég var að vinna en trúlega hefur Kata mamma hennar haft þar hönd í bagga með stelpunni sinni. Það gekk ávallt vel hjá henni Kristínu minni að líta eftir strákunum mínum sem þá hafa trúlega verið þriggja, fjögra og sjö ára. Hún var mikill vinur þeirra, já svo mikill að þeir kölluðu hana stundum Litlu mömmuna. Síðan þetta var hefur hún Kristín Marteins verið hún Kristín mín.

Ávallt ríkti gleðin í kringum Kristínu og vinkonurnar hennar. Þær hlustuðu á Bjögga með Ævintýrið, puntuðu sig fyrir skólaskemmtanir, lærðu kvæði o.fl.

Síðar á lífsleiðinni bjuggum við, ég og strákarnir mínir í sama húsi og Kata, mamma Kristínar, og Óskar, maðurinn hennar. Þau voru góðir grannar. Þá var Kristín búin að finna hann Svanbjörn sinn og drengirnir hennar komu svo einn af öðrum. Þegar fyrsta barnabarnið hennar kom þá kom hún við í Krílinu svo glöð og brosandi með myndina af litlu dúllunni og sagði, Gréta, ég er orðin amma. Elsku Kristín mín. Það stóð alltaf til að kveðja þig með nokkrum línum. En svo skrítið sem það nú er þá vöfðust þær svo fyrir mér þessar síðustu vikur að það komst ekkert á blað. En í kveðjustundinni þinni í gær rann upp fyrir mér ljós. Ég átti ekki að setja þessar línur á blað fyrr en eftir daginn í gær. Þau eru misjöfn hughrifin sem maður verður fyrir í jarðarförum sem eðlilegt er.

Að horfa yfir síðustu umgjörðina hennar Kristínar var yndislegt. Öll fallegu blómin umhverfis kistuna hennar sem sýndu svo vel hvern hug ástvinirnir báru til hennar. Þegar séra Magnús Erlingsson kom inn og stóð við kistuna voru hughrif mín þau að hún Kristín mín kæmi inn með honum. Hún var í hvítum kjól með perlum, ungleg og falleg. Þegar presturinn sneri sér að altarinu tók mín á rás og var ekki lengi, hún nánast flaug í fangið á manninum sínum honum Svanbirni, lagði handleggina um hálsinn á honum og þar sat hún meðan jarðarförin fór fram. Það var svolítið erfitt að verða vitni að þessu þó að þetta væru bara mín eigin hughrif en samt svo yndislega fallegt því ástúðin og vináttan sem mér fannst fylgja þessum hughrifum var svo sterk að í mínum huga nær hún út yfir gröf og dauða. Von mín er að ég sé að gera rétt með því að segja ykkur frá þessum hughrifum mínum. Þau segja mér að hún Kristín mín lifir þó hún sé farin frá okkar tilverustigi. Hún saknar ástvinanna sinna eins og þeir hennar. Þín verður sárt saknað, elsku vina. En hafðu mína hjartans þökk fyrir samverustundirnar á þessu tilverustigi. Brosin þín ylja út yfir gröf og dauða.

Elsku Svanbjörn, strákarnir og tengdadæturnar og aðrir ástvinir. Góður guð styrki ykkur í sárri sorg.

Margrét Karlsdóttir.

Í upphafi var allt, sem hefur skeð,

til endaloka fyrirhugað – séð:

Já, eilífðar á morgni, rún var rist

er ráðin skal við endirinn – þá fyrst.

(Omar Khayyám.)

Kæru Svanbjörn, Brynjar, Matti, Aron og Tryggvi, missir ykkar er mikill, megi Guð gefa ykkur styrk. Hugur minn er hjá ykkur.

Hvíl í friði, elsku frænka mín.

Katrín Sif Sigurgeirsdóttir

Elsku Kristín.

Það er erfitt að trúa því að þú sért farin frá okkur, svo stutt síðan við töluðum saman í símann um Jochum og Ísabellu. Síðast hittumst við í skírninni hjá Ísabellu og þú ljómaðir öll, á leið í siglingu með vinahópnum og búin að eignast algjöran gullmola – loksins ein stelpa komin í hópinn.

Margar minningar sem koma upp. Hjá ykkur lærði ég að vinna, fyrsta vinnan var að passa brosboltann Tryggva en síðan fékk ég stöðuhækkun og fór í „alvöru“ vinnu í Bimbó. Skemmtilegasti dagurinn á árinu var Þorláksmessa, þú niðri í kjallara að hjálpa til og við Brynjar uppi. Fannst ég vera heppnust, enda í flottustu og bestu vinnunni. Í framhaldsskóla lá leiðin suður og minnkaði þá sambandið en það var alltaf gaman að koma til ykkar Svanbjörns, enda ekki að spyrja að gestrisninni. Sátum í eldhúskróknum og spjölluðum um allt og ekkert en þegar amma Kata var í heimsókn voru bollarnir settir á ofninn. Nú ertu komin til hennar og ég veit að þú átt eftir að passa upp á og fylgjast með strákunum þínum fimm, tengdadætrum og barnabörnum.

Elsku Svanbjörn, Brynjar, Matti, Tryggvi, Aron, Bára, Elín, Ísabella, Máni og Natan. Við Maggi sendum okkar samúðarkveðjur.

Margrét.

Komdu nú sæl.

Þetta hljómar í hausnum á mér. Ég heyri röddina þína, svona heilsaðir þú í síma, en halló þegar við hittumst og þétt faðmlag. Hvað segi ég? Ég sakna þín og þó, það er ekki það, núna er ég óendanlega sorgmædd yfir því að þú fáir ekki lengra líf, og ég veit að ég á eftir að sakna þín svo sárt.

Þú fórst svo snöggt.

Við höfum verið vinkonur síðan við vorum 14 ára. Ýmislegt brallað eins og gengur og gerist. Nú, síðan giftumst við skólabræðrum okkar og þeir æskuvinir. Elstu börnin okkar, Brynjar þinn og Muggur minn, fæddir sama ár, bestu vinir frá því að vera litlir púkar og nú orðnir þrítugir fjölskyldumenn. Vonandi verður það sama með ömmuskvísurnar okkar, Ellý og Ísabellu.

Brynjar nafni minn, ég hef alltaf haldið því fram að ég ætti nafnið, svo fékk ég að taka á móti Marteini í heiminn.

Það kemur margt upp í hugann eins og ferðin okkar til Mallorka þegar við fórum bara tvær í þrjár vikur, ég með mína, Mugg og Kristján, og þú með eldra gengið þitt, Brynjar og Matta, litlu strákarnir Tryggvi tveggja ára og Aron nokkurra mánaða heima hjá pabba, þú varst nú stolt af kallinum þínum þá.

Kristín, þú varst svo mikil mamma og vissir fátt skemmtilegra en að vera með strákunum þínum.

Þú varst líka svo hláturmild, þú grést af hlátri, tárin trilluðu og það var ekki hægt annað en hlæja líka, ohh, hvað þá var gaman.

Svo varstu líka svo ofurviðkvæm og fékkst auðveldlega tár í augun yfir því sem þér fannst erfitt eða ranglátt.

Þú varst hreinskilin og sagðir manni hiklaust hvað þér fannst, án þess að særa.

Þú varst nú líka hrædd við ýmislegt og skordýrahræddari manneskju hef ég ekki kynnst og ófáar sögurnar af því þegar flugur eða önnur kvikindi hreinlega gerðu árásir á þig.

Þú varst lofthrædd þegar þú heimsóttir mig á heimili mitt á áttundu hæð og gast ekki slappað af því þér bara leið ekki vel svona hátt uppi, þú sagðir að ég hefði móðgast pínu við þig þá.

Ég gleymi ekki tyggjótímabilinu, þú varst ekki unglingur heldur um fertugt, þú varst orðin listamaður með tyggjóið; togaðir, teygðir og smelltir og varst að taka okkur með stutta þráðinn á taugum. En hættir ekki fyrr en þú ofbauðst sjálfri þér, þú varst á hægu dóli í mikilli umferð þegar þú sleppir stýrinu og setur hnéð upp í stýrið til að teygja tyggjó og smella, lítur svo á Magga mág þinn sem sat með þér í bílnum og sagðist aldrei hafa séð meira hissa andlit, þar með lauk tyggjósögu þinni. Já, það er mikið búið að hlæja og skemmta sér yfir þessu.

Allar skemmtilegu stundirnar í kringum mömmu þína; Kata að segja sögur, kíkja í bolla og hlátursköst, síðan gátuð þið gleymt ykkur við spilamennsku mæðgurnar.

Og mikið saknaðir þú hennar þegar hún kvaddi þetta líf.

Þú og strákarnir þínir, þú og Svanbjörn svo sérstaklega góð og samhent fjölskylda.

En þið Svanbjörn höfðuð nú gaman af að þrasa hvort í öðru, það var ykkar húmor.

Kristín snyrtipinni, köku- og brauðtertusnillingur, Kristín góða vinkona mín.

Já, manni finnst það lítið réttlæti í þessu lífi að þú skulir ekki fá að njóta barnabarnanna, gifta börnin þín og þið Svanbjörn verða gömul hjón.

Vinahópurinn er stór og samanþjappaður og við styrkjum hvert annað með faðmlögum og knúsi, þetta gerðum við líka þegar Magga kvaddi í nóvember sl.

Elsku Svanbjörn minn, Brynjar, Matti, Tryggvi, Aron, Bára, Elín og barnabörn, við Stefán biðjum allar góðar vættir að vaka yfir ykkur og gefa ykkur styrk.

Í hjarta mínu finn ég fyrir þakklæti fyrir að hafa átt þig sem vinkonu og fjölskyldu þína sem vini. Sofðu rótt mín kæra, takk fyrir allt og allt. Þín vinkona

Brynja.