Á Nou Camp í Barcelona Framliðið sem lék leikinn gegn Barcelona í Evrópukeppni bikarhafa 1990. Aftari röð frá vinstri: Kristján Jónsson, Ríkharður Daðason, Baldur Bjarnason, Viðar Þorkelsson og Jón Erling Ragnarsson. Fremri röð: Pétur Arnþórsson, Pétur Ormslev, fyrirliði, Birkir Kristinsson, Steinar Þór Guðgeirsson, Jón Þórir Sveinsson og Kristinn Rúnar Jónsson.
Á Nou Camp í Barcelona Framliðið sem lék leikinn gegn Barcelona í Evrópukeppni bikarhafa 1990. Aftari röð frá vinstri: Kristján Jónsson, Ríkharður Daðason, Baldur Bjarnason, Viðar Þorkelsson og Jón Erling Ragnarsson. Fremri röð: Pétur Arnþórsson, Pétur Ormslev, fyrirliði, Birkir Kristinsson, Steinar Þór Guðgeirsson, Jón Þórir Sveinsson og Kristinn Rúnar Jónsson. — Ljósmynd/Jóhann G. Kristinsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
ÞAÐ þarf ekki lengi að velta spurningunni – hver er besti og sigursælasti knattspyrnuþjálfarinn í 100 ára sögu Fram? – fyrir sér. Svarið er á allra vörum; Ásgeir Elíasson.

ÞAÐ þarf ekki lengi að velta spurningunni – hver er besti og sigursælasti knattspyrnuþjálfarinn í 100 ára sögu Fram? – fyrir sér. Svarið er á allra vörum; Ásgeir Elíasson. Hans er sárt saknað á þessum tímamótum – 100 ára afmælisfagnaði Fram. Ásgeir lést óvænt og langt um aldur fram á sunnudagsmorgni 9. september 2007, er hann var að búa sig undir að stjórna liði sínu, ÍR, í leik. Ásgeir er einn af bestu knattspyrnumönnum í sögu Fram og Íslands – það rann blátt blóð í æðum hans.

Ásgeir var afar snjall og hugmyndaríkur leikmaður og þá var hann frábær þjálfari. Því fengu Framarar að kynnast er Ásgeir var ráðinn sem þjálfari meistaraflokks Fram haustið 1984 og byrjaði að byggja upp afar skemmtilegt og sigursælt lið, sem varð Íslandsmeistari 1986, 1988 og 1990 – átti með öllu eðlilegu að vera meistari sjö ár í röð – og bikarmeistari 1985, 1987 og 1989. Framliðið á þessum árum er án efa eitt skemmtilegasta liðið sem hefur komið fram í íslenskri knattspyrnusögu. Það byggðist upp léttleikandi, yfirvegaðri og sókndjarfri knattspyrnu, sem áhorfendur kunnu að meta – bæði í leikjum á Íslandsmóti, í bikarkeppni og í Evrópukeppni.

Pétur Ormslev, fyrrverandi fyrirliði Fram, sem er að öðrum ólöstuðum einn allra fremsti knattspyrnumaður í sögu Fram, var samferðamaður Ásgeirs – fyrst byrjaði hann ungur að leika við hliðina á lærimeistara sínum og síðan þegar Pétur kom heim úr atvinnumennsku í Þýskalandi, lék hann undir stjórn Ásgeirs. Pétur sagði meðal annars þetta í viðtali í 100 ára afmælisrit Fram, sem kom út í gær:

„Þar sem ég var búinn að leika fjölmörg ár með Ásgeiri, vissi ég nákvæmlega hvernig hann myndi byggja upp lið sitt. Ásgeir hafði ákveðnar, skýrar og sterkar skoðanir hvernig leikmenn ættu að leika knattspyrnu og á þessum árum var Ásgeir mjög hrifinn af leikaðferðunum 3-5-2 eða 4-4-2. Það var sóknarknattspyrnan sem var númer eitt, tvö og þrjú hjá honum. Hann var eini þjálfarinn sem ég hafði á mínum leikmannaferli, sem setti sóknarknattspyrnuna á oddinn og æfði sérstaklega að sækja frá aftasta manni. Hann skipulagði leik varnarlínunnar mjög vel og lagði mikla áherslu á að varnarmennirnir kæmu knettinum strax í leik og hvernig hreyfingar leikmanna áttu að vera – Ásgeir setti það hreinlega upp. Ég hafði ekki einu sinni æft þannig í Þýskalandi er ég var hjá Fortuna Düsseldorf. Sóknarleikur okkar var skipulagður allt frá því að Friðrik Friðriksson markvörður kom knettinum í leik, til dæmis út á bakverðina og hvaða hreyfing færi þá í gang hjá þeim og öðrum leikmönnum liðsins. Hann vildi að flæðið sem færi af stað fengi að njóta sín þannig að leikmenn myndi finna rétta hraðann á því. Þetta gekk mjög vel hjá okkur og þegar nýir leikmenn komu til okkar á þessu tímabili þá smullu þeir vel inn í leikskipulag liðsins.

Æfingar Ásgeirs snerust um bolta og aftur bolta – og hvernig ætti að láta hann rúlla. Það má segja að Ásgeir hafi verið heppinn hjá Fram – að vera með góða og þroskaða knattspyrnumenn, sem gátu skilað því sómasamlega frá sér sem hann lagði upp fyrir þá. Til að leika góðan sóknarbolta þurfa þjálfarar að hafa góða blöndu af leikmönnum, sem leika vel saman og bakka hver annan upp. Handbragð Ásgeirs sást strax á Framliðinu, eins og það sást einnig þegar hann landsliðið. Hann lét lið sín alltaf leika eins knattspyrnu – var trúr henni, sem var dámsamlegt við Ásgeir,“ sagði Pétur.

Þegar Ásgeir tók við Framliðinu haustið 1985 kemur Friðrik Friðriksson markvörður á ný til Fram, en hann hafði leikið eitt keppnistímabil með Breiðabliki. Bakvörðurinn Ormarr Örlygsson kom frá KA á Akureyri, miðjumaðurinn Ómar Torfason frá Víkingi og Pétur kemur á ný heim eftir að hafa leikið með Düsseldorf. Ásgeir var sjálfur leikmaður liðsins, spilandi þjálfari.

Pétur sagði að á Ásgeirstímabilinu góða hafi margir leikmenn verið í liðinu sem höfðu alist upp í gegnum yngri flokkana hjá Fram. Í liðinu 1985 voru í yngri hópnum Kristinn R. Jónsson, Friðrik markvörður, Þorsteinn Þorsteinsson, Viðar Þorkelsson, Jón Sveinsson, Steinn Guðjónsson, Gauti Laxdal og Örn Valdimarsson. „Þetta voru strákar sem höfðu öðlast reynslu á þeim árum sem ég lék með Fortuna Düsseldorf og voru orðnir góðir knattspyrnumenn. Ég, Ásgeir sjálfur, Guðmundur Torfason, Guðmundur Steinsson, Sverrir Einarsson, Ormarr Örlygsson og Ómar Torfason vorum leikmenn með meiri reynslu. Þetta var góður hópur og við vorum klaufar að vinna ekki tvöfalt þetta ár – við urðum bikarmeistarar með því að leggja Keflvíkinga að velli 3:1, en köstuðum frá okkur Íslandsmeistaratitlinum á lokasprettinum,“ sagði Pétur.

Meistarar í fyrsta skipti í 14 ár

Pétur sagði að það hafi verið sætt að taka á móti Íslandsmeistaratitlinum 1986, þegar Framarar urðu meistarar í fyrsta skipti í 14 ár. „Við vorum aftur klaufar að vinna ekki tvöfalt – bæði deild og bikar. Við vorum betri en Skagamenn í bikarúrslitaleiknum, en urðum að sætta okkur við tap, 2:1. Pétur Pétursson, sem var þá nýkominn heim úr atvinnumennskunni, skoraði bæði mörk Skagamanna – sigurmarkið rétt fyrir leikslok,“ sagði Pétur, sem skoraði mark Fram í leiknum, 1:0.

Guðmundur Torfason var valinn leikmaður Íslandsmótsins, en hann jafnaði markametið með því að skora 19 mörk í efstu deild. Gauti Laxdal var valinn efnilegasti leikmaðurinn.

Slæm byrjun vó þungt 1987

Fimm nýir leikmenn komu til Fram 1987: Einar Ásbjörn Ólafsson frá Keflavík, Jón Oddsson frá Ísafirði, Kristján Jónsson og Pétur Arnþórsson frá Þrótti R. og Ragnar Margeirsson frá belgíska liðinu Waterschei, en Guðmundur Torfason fór til Beveren í Belgíu, Steinn Guðjónsson til Vard í Noregi og Guðmundur Steinsson til Offenbach í Þýskalandi.

Pétur sagði að það hafi engin teikn verið á lofti eftir að meistaratitlinn var í húsi 1986, að Fram myndi missa hann frá sér strax 1987. „Við byrjum mótið illa – fengun aðeins fimm stig af fimmtán mögulegum í fimm fyrstu leikjunum – vorum þá í sjöunda sæti deildarinnar, átta stigum á eftir Val. Það má segja að við höfum kastað meistaratitlinum frá okkur í leikjum gegn ÍA og KR um mitt mót. Við náðum tveggja marka forystu í báðum leikjunum, en fengum þó aðeins eitt stig samtals úr þeim – gerðum jafntefli við ÍA 4:4, en töpuðum fyrir KR, 3:2.“

Pétur var útnefndur knattspyrnumaður ársins 1987 í lokahófi Íslandsmótsins.

Fram varð bikarmeistari með stórsigri á Víði frá Garði, 5:0.

Framarar voru komnir með geysilega öfluga fylkingu 1988 þegar Íslandsmeistaratitlinn var endurheimtur með glæsibrag. Yfirburðir Framliðsins voru svo miklir að meistaratitillinn var kominn í hús í 15. umferðinni.

„Við vorum svo aftur á ný klaufar að vinna ekki tvöfalt, bæði deild og bikar, 1989. Þá lögðum við KR að velli í geysilega skemmtilegum bikarúrslitaleik, 3:1, en vegna klaufaskapar urðum að horfa á eftir meistaratitlinum til KA, sem fékk 34 stig, en FH og Fram fengu 32 stig.

Ungu strákarnir Ríkharður Daðason, Steinar Þór Guðgeirsson og Anton Björn Markússon voru byrjaðir að leika með okkur og settu þeir afar semmtilegan svip á leik liðsins og voru komnir í lykilhlutverk þegar við verðum Íslandsmeistarar 1990 í miklu einvígi við KR-inga.

Pétur sagði að það hafi verið sárt að sjá á eftir meistaratitlunum 1985, 1987, 1989 og 1991. „Með smá-klókindum og heppni hefðum við getað orðið meistarar sjö ár í röð. Það sem kom kannski hvað mest í bakið á okkur var hvað við vorum oft of ákafir og sókndjarfir í leikjum okkar. Það var aldrei slakað á í sóknaraðgerðum – heldur keyrt á fullu.“

Fengu viðurnefnið „Safamýrarstrákarnir“

„Það sem var skemmtilegt við Ásgeirstímabilið var að það var alltaf valinn maður í hverju rúmi hjá okkur. Ef menn meiddust þá komu aðrir inn og fylltu skarðið. Þegar velgengni næst inni á vellinum, þá verður öll umgjörð miklu betri og andrúmloftið allt annað. Það var alltaf eitthvað um að vera hjá okkur og menn dvöldust langtímunum saman í félagsheimilinu í Safamýrinni að ræða saman og lygabekkurinn frægi var á sínum stað, þar sem sögurnar voru sagðar og sögurnar urðu til. Já, það var stórkostlegt að umgangast allar þessar sterku persónur sem komu við sögu í Safamýrinni. Leikmennirnir, sem fengu niðurnefnið „Safamýrarstrákarnir,“ voru ekki nískir á tímann sem þeir gáfu. Menn voru komnir í Safamýrina löngu fyrir æfingar og eftir æfingar sátu menn lengu og ræddu málin. Hópurinn hjá Fram var frábær á þessum árum. Safamýrin var annað heimili leikmannanna,“ sagði Pétur, sem fer yfir víðan völl í viðtalinu í 100 ára afmælisriti Fram. Hann ræðir um Ásgeir og landsliðið – segir að hann hafi verið samkvæmur sjálfum sér og trúr sinni sannfæringu. Pétur segir frá hvað gerðist eftir að Ásgeir fór. Fram hefur ekki orðið Íslands- eða bikarmeistari síðan.