Í Cuzco Ferðalangarnir Gyða, Renata og Óskar ásamt einum heimamanna og lamadýri.
Í Cuzco Ferðalangarnir Gyða, Renata og Óskar ásamt einum heimamanna og lamadýri.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Það dreymir marga um að kynnast framandi slóðum þó þeir séu færri sem láti drauminn verða að veruleika. Gyða Erlingsdóttir fór í hálfs árs heimsreisu með bakpoka og var Perú einn viðkomustaðanna.

Úrvinda eftir viðburðaríka Ekvadordvöl lentum við á flugvellinum í Lima, Perú. Þegar þarna var komið sögu vorum við algjörlega á eigin vegum. Hér beið enginn vanur Íslendingur til að útskýra fyrir okkur siði og venjur innfæddra, enginn ofvirkur frændi til að teyma okkur á sögufrægar slóðir líkt og í Ekvador. Það vorum bara við, ferðabiblían Lonely Planet og almenna skynsemin. Það átti líka eftir að reyna á skynsemina í Perú þar sem íbúar reyndust sumir hverjir sérfræðingar í að rýja grunlausa ferðamenn inn að skinni.

Við byrjuðum á því að bóka okkur í skyldutúrinn til Machu Picchu. Það var ekki lítið sem við lögðum á okkur til þess að berja augum hið forna mannvirki Inkanna. 22 klukkutíma rútuferð frá Lima til Cuzco með ælupokann í seilingarfjarlægð. Það er nefnilega ekkert grín fyrir óvanan Íslending að keyra í svona mikilli hæð yfir sjávarmáli. Þarna kynntumst við fjallaveiki sem lýsir sér í miklum svima, ógleði og í einstaka tilfellum uppköstum. Rútufreyjan sem sá um okkur farþegana á þessari löngu leið kom með alkóhól í bómull sem við áttum að anda að okkur og bauð síðan upp á súkkulaði til að ná upp blóðsykrinum.

Tækifærin til að teygja úr sér voru ekki mörg því aðeins var stoppað einu sinni á leiðinni. Það er því ekki ofsögum sagt að við höfum verið búin að fá nóg af panflautuleiknum sem ómaði í rútunni alla leiðina til Cuzco.

Ekki treysta neinum

Í Cuzco vorum við sótt á rútustöðina af starfsmanni farfuglaheimilisins þar sem við höfðum pantað gistingu. Þá lærðum við lexíu númer eitt í ferðamannabransanum í Perú: Aldrei að panta neitt í gegnum millilið. Lexía númer tvö fylgdi í kaupbæti. Aldrei að treysta myndum í bæklingum. Fína gistingin í tveggja manna herbergjunum með baðherberginu og heitu vatni sem við höfðum pantað reyndust vera litlar, kaldar kompur og baðherbergið hvergi sjáanlegt.

Þetta átti heldur ekki eftir að reynast eina tilfellið þar sem við keyptum köttinn í sekknum. Það var hins vegar til lítils að fara í fýlu og því við reyndum frekar að læra af reynslunni – tömdum okkur tortryggni gagnvart öllum og öllu.

Machu Picchu reyndist hins vegar allra vandræðanna virði. Stórkostlegt mannvirki með ótrúlega sögu. Eini gallinn var sá að þar var ekki þverfótað fyrir ferðamönnum í litríkum regnslám. Einn þeirra hrinti mér meira að segja næstum því fram af brúninni þar sem við fetuðum okkur upp í átt að Inkabyggðinni. Hann hefur líklega viljað vera fyrstur til að berja dýrðina augum. Við höfðum þennan fína enskumælandi leiðsögumann sem virtist ekki kunna stakt orð í ensku fyrir utan rulluna sem hann fór með í túrnum.

Þannig olli allsérstæðum miskilningi þegar hann klappaði á einn steinhnullunganna og tilkynnti okkur að: „the Incas did not have use of the will,“ og við hugsuðum með okkur „Nú, ætli þeir hafi verið svona latir, greyin?“ Síðar í túrnum kom þó í ljós að Inkana skorti alls ekki viljastyrk – heldur var það hjólið (the wheel) sem þeir höfðu ekki tekið í sína þjónustu.

Hvíta borgin

Arequipa, einnig þekkt sem „Hvíta borgin“ var næsti áfangastaður. Þar heimsóttum við 500 ára gamla barnamúmíu. Sú hafði fundist, ásamt fjölda annarra barnamúmía, í Andesfjöllunum, fullkomlega varðveitt vegna kuldans. Segja kenningar fræðimanna að börnin hafi verið valin ung að aldri til fórnarhlutverksins vegna fegurðar og ættgöfgi. Þau hafi síðan verið menntuð sérstaklega til að verða fólki sínu til sóma þegar þau kæmu til guðanna. Er þau höfðu síðan náð 12-16 ára aldri var farið með þau upp í fjall þar sem þau voru klædd í fögur klæði, þeim gefinn eitraður drykkur og þau loks barin í höfuðið með fleyg. Að því loknu voru þau vafin inn í fósturstellingum í klæði ásamt ýmsum gersemum til að auðvelda þeim að fæðast inn í heim guðanna.

Á Museo Santuarios Andinos safninu í Hvítu borginni sáum við fjöldann allan af hauskúpum sem voru mjög fjölbreytilegar í laginu. Ættbálkar í Perú á höfðu nefnilega þann háttinn á að þeir mótuðu hauskúpur barna allt frá unga aldri smátt og smátt svo þær tóku á sig þá lögum sem valin var. Þetta var gert til að skapa samkennd innan ættbálksins því með þessu voru engir tveir ættbálkar með eins höfuðlag!

Sandbrettabrun í eyðimörk

Nazca er hérað sem heitir eftir fornri menningu sem blómstraði á árunum 300 f.Kr. til 800 e.Kr. Þangað héldum við til að berja hinar frægu Nazca línur augum, en um er að ræða risastórar teikningar af öpum, fuglum og fleira í eyðimörkinni. Það dularfulla við teikningarnar er að þær sjást aðeins úr mikilli hæð – svo mikilli raunar að við skoðuðum þær úr flugvél. Því er ekki hægt annað en að velta fyrir sér í hvaða tilgangi þær voru skapaðar. Og ekki vantaði kenningarnar. Voru þær gerðar svo að guðirnir einir gætu séð þær? Eru þær e.t.v. einhverskonar dagatal? Eða er þetta ef til vill lendingarbraut fyrir geimskip?

Það var síðan í eyðimerkurvininni Huacachina sem við eyddum síðustu dögum okkar í Perú. Þar keyrðu menn um á sand-„buggy“ bílum og það reyndist undarleg tilfinning að þeysa upp og niður sandöldur eyðimerkurinnar. Ætli því megi ekki helst líkja við það er við Íslendingar drífum útlendinga upp á jökul og brunum um með þá á vélsleðum?

Við létum að minnsta kosti ekki tækifærið til að skella okkur á sandbretti í eyðimörkinni fram hjá okkur fara. En til þess að komast sem hraðast og öruggast niður sandfjallið er best að leggjast á magann á brettið og ýta sér svo fram af. Sandurinn þeytist þá að sjálfsögðu út um allt og í mínu tilfelli settist hann á bæði andlit og bringuna, sem höfðu verið vel smurð með sólarvörn um morguninn. Það var því ekki laust við að ég liti út fyrir að vera fúlskeggjuð þar sem ég stóð upp úr sandskýinu sem hafði þyrlast upp á niðurferðinni.

Höf.: Gyða Erlingsdóttir